Sport

Ekki dæma mig fyrir fram

Jacques Santini, landsliðsþjálfari Frakka, hefur hvatt stuðningsmenn Tottenham Hotspur til þess að dæma sig ekki fyrir fram eftir slaka frammistöðu Frakka á EM í Portúgal. Santini mun einmitt taka við stjórnartaumunum hjá Spurs innan skamms og fyrir EM ríkti mikil ánægja með ráðningu hans en eftir að franska liðið var slegið út af Grikkjum hefur efasemdarröddum fjölgað og menn spyrja hvernig það sé hægt að klúðra málum svona með þennan ótrúlega mannskap innanborðs. "Aðdáendur Spurs geta treyst því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að félagið nái árangri," sagði Santini og klykkti út með þessu: "Orðspor mitt hefur ekki beðið hnekki. Ég geri mér fulla grein fyrir því að Spurs endaði í fjórtánda sæti á síðustu leiktíð en ég er með þriggja ára áætlun sem unnið verður eftir en ég er ekki tilbúinn á þessari stundu að segja nánar frá henni. Á meðan ég fæ ánægju út úr því að starfa við knattspyrnuþjálfun mun ég halda því áfram því starfið krefst mikillar ábyrgðar og það líkar mér," sagði Jaques Santini og greinilegt að sjálfsánægjan hefur heldur ekki beðið neina hnekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×