Innlent

Akureyri og Hrísey sameinuð

Sameining Akureyrarkaupstaðar og Hríseyjarhrepps var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða í kosningum sem fram fóru samhliða forsetakosningunum í gær. Sveitarstjóri Hríseyjar segir sameininguna styrkja stöðu hreppsins. Sameining fjögurra sveitarfélaga austur á Héraði var hins vegar felld. Mjög góð kosningaþátttaka var í sameiningarkosningunum í Hrísey og ágæt þáttaka var enn fremur á Akureyri. Alls voru 133 á kjörskrá í Hrísey vegna sameiningarinnar. 116 sögðu já og 8 sögðu nei og var kosningaþátttaka því rúmlega 93%. Af þeim sem greiddu atkvæði í sameiningarkosningunum á Akureyri, sögðu 75% já og því ljóst að sameining Akureyrarkaupstaðar og Hríseyjarhrepps var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Ragnar Jörundsson, sveitarstjóri Hríseyjarhrepps, fagnar niðurstöðunni. Hann telur að sameiningin muni styrkja hreppinn. Einnig var kosið um að sameina fjögur sveitarfélög austur á Héraði, samhliða forsetakosningunum, eða Austur-Hérað, Norður-Hérað, Fljótsdalshérað og Fellahrepp. Öll sveitarfélögin, nema Fljótsdalshérað, greiddu atkvæði með sameiningu. 63 Fljótsdælingar tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og sögðu 36 nei og einungis 23 sögðu já. Ekkert verður því af sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga fyrir austan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×