Sport

Rooney er enginn Pele

Luis Felipe Scolari, þjálfari Portúgala, hlær að öllum samlíkingum á Wayne Rooney og goðsögninni Pele, en Sven-Göran Eriksson, þjálfari Englendinga, hefur sagt að Rooney sé að hafa slík áhrif á Evrópukeppnina að annað eins hafi ekki gerst síðan 1958, þegar hinn 17 ára gamli Pele sló fyrst í gegn. "Annar er hvítur og hinn er svartur," sagði Scolari brosandi aðspurður um hvaða stóri munur væri á þeim. Og Scolari hélt áfram: "Mér finnst Rooney vera mjög góður leikmaður, en að líkja honum við Pele? Það mun alltaf aðeins verða einn slíkur í heiminum. Það er ekki einu sinni hægt að búa einn slíkan til í tölvu," sagði Scolari, en hann kemur einmitt frá Brasilíu rétt eins og Pele og þekkir því vel til síns manns. "Leikmenn mínir bera mikla virðingu fyrir Rooney og vita að hæfileikar hans einir saman eru nægir til að slá okkur út úr keppninni. En hann er ekki einn, hann er hluti af þeirri sterku liðsheild sem enska landsliðið er. Sjáið þið bara David Beckham og Michael Owen. Þeir hafa ekki áhyggjur af eigin frammistöðu og að vera aðalmennirnir. Þeir spila fyrir liðið þrátt fyrir að þurfa að þola mótlæti frá fjölmiðlum og öðrum," segir Scolari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×