Sport

Tékkar og Hollendingar áfram

Tékkar og Hollendingar eru komnir í átta liða úrslit Evrópumótsins í Portúgal úr D-riðli en riðlakeppninni lauk í kvöld. Tékkar unnu Þjóðverja, 2-1, og Hollendingar lögðu Letta, 3-0. Tékkar stilltu upp varaliði gegn Þjóðverjum en það hafði lítil áhrif á þá þótt níu menn úr byrjunarliði fyrstu tveggja leikja liðsins væru á bekknum. Þjóðverjar náðu reyndar forystunni á 21. mínútu með marki frá Michael Ballack en það tók Tékka aðeins níu mínútur að jafna leikinn. Marek Heinz skoraði þá glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu, óverjandi fyrir Oliver Kahn, markvörð þýska liðsins. Þjóðverjar sóttu síðan án afláts en tókst ekki að skora og það voru Tékkar sem tóku stigin þrjú og sigurinn þegar Milan Baros skoraði sigurmarkið eftir undirbúning frá Heinz. Glæsilegur sigur Tékka staðreynd en Þjóvðerjar sátu eftir með sárt ennið. Þjóðverjinn Michael Ballack sagði eftir leikinn að hann og félagar hans hefðu lagt sig alla fram en það væri einfalt að lið sem ekki skoraði mörk ynni ekki leiki. Þýskaland - Tékkland 1-2 1-0 Michael Ballack (21.) 1-1 Marek Heinz (30.) 1-2 Milan Baros (77.) Hollendingar unnu öruggan sigur á Lettum, 3-0. Ruud van Nistelrooy skoraði tvívegis á sjö mínútna kafla í fyrri hálfleik, fyrst úr vítaspyrnu á 27. mínútu og síðan með skalla á 34. mínútu. Varamaðurinn Roy Makaay skoraði síðan þriðja markið sex mínútum fyrir leikslok. Philip Cocu, fyriliði Hollendinga, þakkaði Tékkum fyrir að koma þeim áfram. "Þegar Tékkar skoruðu þá heyrðum við það frá stuðningsmönnum okkar og það gaf okkur kraft,"sagði Cocu. Holland-Lettland 3-0 1-0 Ruud van Nistelrooy, víti (27.) 2-0 Ruud van Nistelrooy (34.) 3-0 Roy Makaay (84.)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×