Skoðun

Vona að Ástþór nái árangri

Íris Kristjánsdóttir skrifar um forsetakosningarnar Ég hef verið að fylgjast með kosningabaráttu forsetaframbjóðenda og undrast mjög hvernig fjölmiðlar gera upp á milli frambjóðenda. Hvernig á þjóðin að geta kynnst frambjóðendum þegar hún fær varla að heyra í þeim? Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, treystir sér ekki til að mæta í þá fáu umræðuþætti sem eru í boði fyrir frambjóðendur vegna anna, enda hef ég sjaldan séð jafn mikið af honum. Er það tilviljun hversu mörgum virðulegum skylduverkefnum hann hefur að gegna þessa dagana eða er þetta kosningabaráttan hans? Af hverju er hann yfir það hafinn að svara spurningum kjósenda? Svo er það Baldur sem veit ég ekkert um enda varla séð til hans. Ég veit að slagorðið hans er "Baldur á Bessastaði" en veit ekki til hvers eða hvað hann stendur fyrir. Svo er það Ástþór sem allir þekkja. Eða telja sig þekkja. Þannig sá ég það einnig fyrir þessa kosningabaráttu. Mundi bara eftir honum í jólasveinabúningi eða með tómatsósu framan á sér. Svo fór ég að hlusta líka, ekki bara dæma af áður gerðum athöfnum og komst að því að Ástþór er eini frambjóðandinn með hugsjón. Friðarmál virðast vera hans ástríða, hann vinnur að þeim af heilum hug og fyrir það verð ég að virða hann. Baráttan er líka líflegri og skemmtilegri með hann innanborðs. Hann lætur í sér heyra því hann sættir sig ekki við að vera sópað út í horn af því það hentar ekki öllum (sem hafa fjölmiðlavald) að hann tali. Ef hann fengi að tala óáreittur og fengi sanngjarna meðferð fjölmiðla þyrfti hann ekki að eyða helmingnum af tímanum í að réttlæta sig heldur gæti talað um ástæðurnar fyrir því að hann stendur í þessu. Gerir almenningur sér grein fyrir því að Ástþór starfar með virtustu mönnum á sviði friðar í Evrópu? Mönnum sem starfa fyrir SÞ og eru mikils metnir þar og gera þar með verkefni hans í þágu friðar raunhæft? Svo koma þeir hingað til lands og tala fyrir daufum eyrum vegna þess að fjölmiðlar hafa ekki áhuga á að sinna þessu af því þeir eru hér á vegum Ástþórs. Ég er hrædd um að móttökurnar og athygli fjölmiðla hefði verið meiri ef þeir hefðu komið í boði sitjandi forseta. Víst hefur Ástþór gert mistök í gegnum tíðina sem líklega kemur í veg fyrir að hann verði kosinn forseti. Kannski væri barátta hans fyrir friðarmálum betur komin annars staðar. Ég vona hins vegar að hann eigi eftir að ná árangri í því sem hann er að gera. Þess vegna ætla ég að gefa honum atkvæði mitt.



Skoðun

Sjá meira


×