Sport

Viljum spila sóknarbolta

Spánverjar eru að vonum í sárum eftir að hafa verið slegnir út af Portúgölum á EM. Gagnrýnisraddir dúkka nú upp í hverju skúmaskoti og leikmenn landsliðs Spánverja láta þar ekki sitt eftir liggja. Vicente og Joaquin eru þar á meðal og þeir voru ekki sáttir við varnarleikskipulagið hjá Inaki Saez, landsliðsþjálfara. Byrjum á Vicente: "Við erum ekki góðir í því að liggja til baka og halda fengnum hlut. Við viljum sækja og pressa hátt uppi en í þessum leik voru það Portúgalar sem gerðu það og uppskáru,"sagði sár og svekktur Vicente: "Við mættum til að verjast," sagði bitur og beiskur Joaquin og bætti við: "Við vissum að þeir myndu mæta af krafti til leiks enda þurftu þeir sigur. Eftir markið hjá þeim brugðumst við of seint við og náðum ekki að snúa leiknum okkur í hag - náðum ekki að spila eins og við viljum helst, en það er sóknarbolti og ekkert annað. Í raun gleymdum við okkur alveg í vörninni og þar sem við erum ekki sérlega vanir því að verjast svona mikið hlaut að fara illa. Við gerðum of mörg mistök og skorti líka heppni en það verður þó að segjast eins og er að Portúgalar voru einfaldlega betri."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×