Sport

Eriksson tekur Owen ekki út

Sven-Göran Eriksson segist ekki ætla að taka Michael Owen úr byrjunarliði enska landsliðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Króötum í kvöld. Owen hefur ekki náð sér á strik í fyrstu tveimur leikjum Englands í keppninni og vilja stuðningsmenn enska liðsins fá Darius Vassell inn í liðið, en hann hefur verið mjög frískur eftir að hafa komið inn á í leikjunum. En Eriksson ætlar ekki að bogna. „Þetta er ekki leikurinn þar sem rétt er að hvíla lykilmenn. En með þessu er ég ekki að segja að Owen sé með áskrift að byrjunarliðinu. Það er enginn. Í stöðu sem þessari verður hann bara að fá að spila og hann mun fara í gang,“ segir Eriksson og virðist hafa fulla trú á samvinnu Owen og Wayne Rooney á framlínunni. David Beckham, fyrirliði liðsins, segir að leikmennirnir megi alls ekki vanmeta króatíska liðið. „Það er mjög mikilvægt að við höldum dampi allan leikinn og gefum Króötum aldrei frið. Það er rétt að okkur nægir aðeins jafntefli, en við megum ekki spila leikinn með því hugarfari. Við mætum til leiks til að vinna,“ segir Beckham.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×