Sport

Schumacher enn og aftur

Þýski ökuþórinn Michael Schumacher vann enn einn sigurinn í Formúla 1 kappakstrinum sem fram fór um helgina í Indianapolis í Bandaríkjunum. Yfirburðir Schumachers og Ferrari eru orðnir svo miklir að það hálfa væri nóg. Það er alveg sama hvaða reglubreytingar eru gerðar - hin liðin og hinir ökuþórarnir eru einfaldlega einu stóru skrefi á eftir og ekki fyrirsjáanlegt að breytinga sé að vænta á næstunni. Mikið var um óhöpp í keppninni og þegar upp var staðið höfðu ellefu ökuþórar heltst úr leik, þar af fjórir strax í fyrstu beygju. Þeirra á meðal var Ralf Schumacher, sem fluttur var á spítala en ekki er vitað hvort meiðsli hans eru alvarleg eður ei. Í öðru sæti keppninnar var hinn Ferrarigaukurinn, Rubens Barrichello. Þriðji var síðan Takuma Sato hjá BAR-Honda. Michael Schumacher er sem fyrr langefstur í keppni ökuþóra með 80 stig en Barrichello kemur næstur með 62. Í þriðja sæti er síðan Jenson Button hjá BAR-Honda með 44 stig í farteskinu. Ferrari er síðan með yfirburðastöðu í keppni bílasmiða með 142 stig. Renault hefur náð sér í 66 stig og BAR-Honda 58.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×