Sport

David orðaður við Inter og Spurs

Edgar Davids mun eftir allt ekki verða áfram hjá Barcelona en þangað kom hann síðastliðinn vetur sem lánsmaður frá Juventus. Koma hans gjörbreytti leik Barcelona til hins betra og þá hefur spilamennska hans með Hollendingum á EM verið frábær og því koma þessi tíðindi nokkuð á óvart. Líklega hefur Davids, sem nú er án samnings, verið að athuga hvort eitthvað bitastæðara kæmi á borðið því hann var með tilboð í höndunum frá Barcelona en forráðamenn liðsins vildu fá lokasvar frá Davids á föstudaginn en það kom ekki. "Tilboðið er ekki lengur í gildi," sagði forseti Barcelona, Joan Laporta, og bætti við: "Nú munum við hefja leit að leikmanni sem getur fyllt skarð Davids. Við gerðum honum frábært tilboð og í rauninni var það rausnarlegra en við höfum raunverulega efni á en við vildum helst af öllu halda honum innan okkar herbúða. Það er nú frá og Davids getur gert það sem hann vill og við auðvitað líka," sagði Laporta og var ekki kátur. Ekki er talið líklegt að Davids verði í miklum vandræðum með að ná sér í spikfeitan samning því mörg lið vilja gjarnan fá hann til liðs við sig og þar eru helst nefnd til sögunnar, ítalska liðið Inter Milan og enska liðið Tottenham Hotspur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×