Sport

Erfitt að spila 10 gegn 12

Þjálfari Svisslendinga, Jakob Kuhn, var alveg brjálaður út í Rússneska dómarann, Valentin Ivanov, eftir leik þeirra við Englendinga í dag: "Brottvikning Bernt Haas var fáránleg og annan leikinn í röð þurfum við að spila 10 gegn 11," en Johann Vogel var sendur út af í fyrsta leiknum gegn Króötum. Reiður Kuhn bætti þessu við: "Það sáu það allir að það var brotið á Patrick Muller áður en þeir skoruðu annað markið. Ég vil heldur spila 11 gegn 11 en 10 gegn 12!" Kuhn sagði einnig að fjarvera framherjanna Marc Streller og Leonard Thurre, vegna meiðsla, hafi komið illa niður á liðinu: "Að missa þá fyrir mót gerði okkur verulega erfitt fyrir," en Svisslendingar hafa ekki enn náð að skora mark í keppninni. Svissneski þjálfarinn var þó ekki bara á neikvæðu nótunum því hann hrósaði Wayne Rooney: "Ég verð að viðurkenna að það var hreinlega ánægjulegt að fylgjast með honum í þessum leik, þótt hann hann væri að spila fyrir Englendinga en ekki okkur," sagði Jakob Kuhn. Svona í lokin þá er vert að minnast á það að við Íslendingar eigum ekkert sérlega góðar minningar um þennan Rússneska dómara, Valentin Ivanov. Hann dæmdi leik Þýskalands og Íslands í undankeppni EM síðastliðið haust og tók af okkur löglegt mark sem Hermann Hreiðarsson skoraði og drap þar með okkar veiku von. Þessi dómari er með frekar vafasamt orðspor og þykir gjarn á að hygla stórþjóðum á kostnað þeirra minni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×