Sport

Sven-Göran ánægður með dagsverkið

Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, var hæstánægður með sigur sinna manna gegn Svisslendingum í dag og þá sérstaklega hinn 18 ára gamla Wayne Rooney sem skoraði tvö af þremur mörkum liðsins í leiknum.  "Þetta var vel unnið verk," sagði Eriksson og bætti við: "Þegar lið tapar á eins sáran hátt eins og við gerðum á sunnudaginn gegn Frökkum er erfitt að sjá fyrir viðbrögð leikmanna í næsta leik. Ég var þó með góða tilfinningu fyrir leikinn og sem betur fer rifum við okkur upp en við eigum þó eftir að sýna okkar allra besta í keppninni. Við vorum taugastrekktir í byrjun og sendingar okkar voru slakar og þá gekk strákunum illa að halda boltanum innan liðsins. Þegar upp er staðið var þó niðurstaðan ánægjuleg og við gerðum það sem þurfti." Um frammistöðu Wayne Rooney, sem skoraði tvö mörk í leiknum, hafði Eriksson þetta að segja: "Hann var stórkostlegur, alveg magnaður og skoraði tvö frábær mörk. Að átján ára strákur geti gert alla þessa hluti á móti bestu leikmönnum heims er einfaldlega ótrúlegt," sagði ánægður Eriksson. Wayne Rooney var ánægður með dagsverkið: "Þessi vika hefur verið góð. Við náðum góðum úrslitum í dag - við þurftum nauðsynlega á því að halda. Þetta var erfiður leikur en við spiluðum vel og kláruðum verkið. Við spiluðum vel sem liðsheild og ég var nógu heppinn til að skora tvö mörk," sagði hógværi unglingurinn Wayne Rooney.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×