Sport

Þungu fargi létt af Portúgölum

Portúgalar komust aftur á beinu brautina í gær þegar þeir lögðu Rússa að velli, 2-0, í leik liðanna í A-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu í gærkvöld. Þeir fengu óskabyrjun og léttu pressunni af sér með því að komast yfir strax á 7. mínútu. Deco, sem kom inn í liðið fyrir Rui Costa, gaf þá sendingu inn í teiginn þar sem miðjumaðurinn Maniche var mættur, tók glæsilega við boltanum og smellti honum í netið, óverjandi fyrir Sergei Ovchinnikov, markvörð Rússa. Staða Rússa versnaði síðan til muna rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar áðurnefndur Ovchinnikov var rekinn af velli fyrir að verja boltann með hendi fyrir utan teigs. Í síðari hálfleik voru Portúgalar síðan meira með boltann en tókst ekki koma sigrinum í örugga höfn fyrr enn mínútu fyrir leikslok þegar varamaðurinn Christian Ronaldo lagði upp mark fyrir annan varamann, Rui Costa. Eftir það var leikurinn búinn, heimamenn fögnuðu gífurlega og Portúgalar geta hlakkað til leiksins gegn Spánverjum á sunnudaginn sem verður algjör úrslitaleikur um það hvort liðið kemst áfram í átta liða úrslit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×