Sport

James viss ekki um Zidane

Sérfræðingar enska knattspyrnusambandsins settu saman myndbandsspólu fyrir David James, markvörð liðsins, til þess að hann vissi hvernig hann ætti að bregðast við sóknartilburðum franska liðsins í leik liðanna á sunnudaginn. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að engin aukaspyrna frá Zinedine Zidane var á spólunni og því kom spyrna hans eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir James. James viðurkenndi á blaðamannafundi í gær að hann hefði horft á spólu með franska liðinu en snilld Zidane í aukaspyrnufræðum hefði komið honum í opna skjöldu. Sérfræðingar enska sambandsins verja sig með því að þeir hafi tekið upp sjö síðustu leiki franska liðsins og þar hafi Zidane ekki sýnt aukaspyrnusnilli sína. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Zidane skorar beint úr aukaspyrnu á EM því hann skoraði fyrsta mark leiksins gegn Spáni í átta liða úrslitum keppninnar fyrir fjórum árum beint úr einni slíkri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×