Sport

Heinze til Man. Utd

Gabriel Heinze, leikmaður Paris Saint Germain, hefur staðfest að hafa skrifað undir fimm ára samning við Manchester United þrátt fyrir að hafa enn ekki hitt Alex Ferguson að máli. Kaupverðið er í kringum sex milljónir punda en þetta eru önnur kaup United á stuttum tíma. Alan Smith gekk einmitt nýverið til liðs við rauðu djöflana frá Leeds og kostaði sjö milljónir punda. Hann skrifaði einnig undir fimm ára samning. Argentínumaðurinn Heinze, sem er 26 ára gamall varnarmaður, viðurkennir að United hafi haft samband fyrir um það bil sex vikum: "Ég vildi ekki tala um málið - ég ber mikla virðingu fyrir Paris Saint Germain og vildi ekki trufla liðið með þessu á lokaspretti tímabilsins. Það segir sig sjálft að þegar svona stórt félag eins og Manchester United hefur samband hreyfir það við manni. Liðið sýndi mestan áhuga á að ganga frá samningnum af öllum þeim liðum sem höfðu samband, þó að Alex Ferguson hafi ekki talað beint við mig. Þeir sögðust bara vilja fá mig til liðs við sig," sagði ánægður Gabriel Heinze.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×