Sport

KR upp í fimmta sæti

KR-ingar vippuðu sér upp í fimmta sæti Landsbankadeildarinnar í gærkvöld þegar þeir lögðu Skagamenn að velli, 1–0, í Frostaskjólinu. Sigurinn var jafnframt sá tíundi í röð hjá KR á ÍA í vesturbænum. KR-ingar fengu óskabyrjun í leiknum þegar þeir komust yfir á fjórðu mínútu. Andri Karvelsson, varnarmaður ÍA, braut á KRingnum Arnari Jóni Sigurgeirssyni rétt innan vítateigs og dómari leiksins, Garðar Örn Hinriksson, dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Eftir markið drógu KR-ingar sig aftar og Skagamenn komust meira inn í leikinn og jafnræði myndaðist. Skagamenn voru ógnandi í föstum leikatriðum, bæði hornspyrnum og aukaspyrnum en annaðhvort bjargaði markvörðurinn Kristján Finnbogason eða tréverkið KR-ingum. KRingar voru hins vegar meira ógnandi í sínum sóknarleik og var sérstaklega gaman að fylgjast með hinum unga Kjartani Henry Finnbogasyni gera varnarmönnum Skagamanna lífið leitt. KRingar fengu nokkur góð færi og bæði Kristinn Hafliðason og Arnar Gunnlaugsson misnotuðu gullin tækifæri til að auka forystuna fyrir KR. Síðari hálfleikur einkenndist af baráttu beggja liða, hvorugt náði að skapa sér færi að ráði og því fóru KR-ingar með sigur af hólmi, 1–0. Mikilvæg þrjú stig fyrir Íslandsmeistarana en Skagamenn, sem hafa oft leikið betur, naga sig væntanlega í handarbökin. ■ ÞAÐ SEM SKIPTI MÁLI KR – ÍA 1–0 1–0 Arnar Gunnlaugsson, víti 4. DÓMARINN Garðar Örn Hinriksson, mjög góður BESTUR Á VELLINUM Kjartan Henry Finnbogason KR TÖLFRÆÐIN Skot (á mark) 9–9 (5–5) Horn 0–8 Aukaspyrnur fengnar 16–21 Rangstöður 5–3 Gul spjöld (Rauð spjöld) 3–3 (0–0) MJÖG GÓÐIR Kjartan Henry Finnbogason KR Kristinn Hafliðason KR GÓÐIR Kristján Finnbogason KR Bjarni Þorsteinsson KR Kristján Örn Sigurðsson KR Gunnar Einarsson KR Arnar Gunnlaugsson KR Haraldur Ingólfsson ÍA Gunnlaugur Jónsson ÍA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×