Skoðun

Þoturnar fjórar fari

Varnarsamstarfið við Bandaríkin - Lúðvík Gizurarson Við eigum að samþykkja þá kröfu Bandaríkjamanna að seinustu fjórar orustuþotur þeirra fari fljótlega frá Keflavíkurflugvelli. Hlutverki þeirra er lokið. Leiðinda þras ráðamanna okkar við Bandaríkjamenn og forseta þeirra um þetta mál og jafnvel berar hótanir Íslendinga í garð Bandaríkjamanna um að segja Varnarsamningnum upp og reka allt Varnarliðið í heilu lagi alfarið í burtu sæmir okkur ekki og ber vott um gorgeir og heimsku. Með slíkri framkomu náum við engu fram. Við skulum líta meira en hálfa öld til baka. Bretar voru árið 1941 að tapa seinustu heimsstyrjöld. Þjóðverjar tóku fleiri og fleiri lönd og voru nánast ósigrandi. Þjóðverjar réðust þá inn í Rússland seint í júní 1941 og sóttu hratt fram. Einmitt þá sömu daga komu nokkrir æðstu embættismenn Íslands saman á háleynilegan trúnaðarfund í Reykjavík. Á þann fund komu líka fulltrúar frá bæði ríkisstjórnum Bretlands og Bandaríkjanna. Ósk þeirra og beiðni var sú að Íslendingar bæðu formlega um hervernd Bandaríkjamanna. Þarna í júní 1941 voru Bandaríkin hlutlaus og forseti þeirra gat varla af pólitískum ástæðum sent bandarískt herlið til Íslands í júní 1941 nema formleg beiðni og ósk kæmi um slíkt beint frá Íslendingum sjálfum. Mikið lá við. Um leið og her Bandaríkjanna væri orðinn staðsettur á Íslandi var hægt að hefja óbeina flutninga á neyðarhjálp t.d. til Rússlands frá Bandaríkjunum um flotastöðina í Hvalfirði á Íslandi og svo áfram til Murmansk í Norður-Rússlandi sem var íslaus höfn allt árið. Skipalestir fóru brátt að streyma þessa leið til Murmansk í Rússlandi. Endalaust magn frá bandarískum iðnaði var flutt . Til að gera langa sögu stutta þá sömdu ráðamenn Íslands við forseta Bandaríkjanna og fulltrúa hans hér í júlí 1941 um að biðja Bandaríkjamenn að koma hingað og verja okkur. Einnig var samið um marga aðra hluti svo sem nægar loftvarnir hér gegn herflugvélum Þjóðverja svo tekið sé dæmi. Einnig lofuðu Bandaríkjamenn að styðja okkur og styrkja til fullveldis sem þeir svo gerðu 17. júní 1944. Gerðu okkur stofnun lýðveldis mögulega. Hjálpaði mikið. Þannig má lengi telja. Þessir samningar fóru fram með mikilli leynd en í fullri vináttu og vinsemd milli Íslands og Bandaríkjanna. Njósn mátti alls ekki berast Þjóðverjum. Lögðu Bandaríkjamenn sig mjög fram um að mæta öllum sanngjörnum óskum Íslendinga. Þetta hefur greinarhöfundur beint eftir einum Íslendinganna sem tók þátt í gerð Herverndarsamningsins í júní-júlí 1941. Samstarf okkar við Bandaríkjamenn síðan 1941 um varnir Íslands hefur því staðið frá miðjum júlí 1941 til fyrstu sumardaga núna árið 2004 eða í næstum 65 ár. Svo löng vinátta og samstarf okkar við Bandaríkin sem voldugustu lýðræðisþjóð heims getur ekki af okkar hendi endað með hótunum af okkar hálfu og úrslitakostum Íslendinga á hendur Bandaríkjamönnum. Getur ekki endað með skelfingu. Það er okkur ekki sæmandi. Aðra og nýja leið verður að fara. Rétt og skjót viðbrögð ráðamanna á Íslandi í júní-júlí 1941 urðu til þess að á næstu vikum og mánuðum byrjuðu flutningaskip með t.d. þúsundir bandarískra bíla af öllum gerðum að safnast saman í Hvalfirði og streyma svo til Rússlands í skipalestum vörðum herskipum frá Bretlandi. Vegna vinsamlegra og skjótra viðbragða Íslendinga liðu ekki nema nokkrar vikur sumarið 1941 þar til Rússum fór að berast haustið 1941 hjálp og vörur frá Bandaríkjunum í gegnum Ísland og Murmansk. Rússar fengu sendar allar þær bandarísku vörur sem gátu hjálpað í stríðinu við Þjóðverja. Mest munaði á endanum Rússa um öll þau hundruð þúsunda bandarískra flutningabíla og jeppa sem gerðu rússneska herinn vel hreyfanlegan. Var það ekki áður. Einnig voru Rússar nú fljótt með nægan flota bandarískra bíla jafnvel drossíur til að geta smalað saman óhemju fljölda nýliða úr öllum fjarlægum hornum og héruðum Rússlands beint í bardagana. Slíkt hefði annars verið illframkvæmanlegt eða ekki hægt. Ísland hafði mikil og stór áhrif á gang stríðsins í Rússland. Opnaði strax haustið 1941 leið skipalesta til Murmansk. Réð úrslitum. Hjálpaði Bandaríkjamönnum á þann hátt að vinna síðustu heimsstyrjöld. Einnig selfluttu Bandaríkjamenn herflugvélar sínar í stríðinu um Keflavíkurflugvöll til Evrópu. Þannig má lengi halda áfram að telja. Eftir lok stríðsins gerðu Íslendingar í bili svokallaðan "Keflavíkursamning" um flugvöllinn og framtíð hans þannig að völlurinn var rekinn áfram sem borgaralegur flugvöllur og haldið við. Framkvæmdin gekk ágætlega. Svo tók Varnarsamningurinn við 1951 og er enn í gildi árið 2004 rúmlega 50 árum seinna. Nú þarf enn að semja upp á nýtt. Keflavíkurflugvöll þarf að reka áfram og núverandi íslenskir starfsmenn þar fái allir áfram vinnu. Allt sé gert í góðri vináttu við Bandaríkjamenn.



Skoðun

Sjá meira


×