Skoðun

Endalaus innflutningur

Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur. Viðskiptahalli mældist á fyrsta ársfjórðungi um 13 milljarða króna samkvæmt uppgjöri Seðlabankans. Þetta er ríflega 10 milljarða meiri halli en á sama tíma í fyrra og má rekja aukninguna að hluta til þess að innflutningur er að aukast mun hraðar en útflutningur og á það bæði við um vörur og þjónustu. Það er ekkert óeðlilegt að innflutningur aukist í uppsveiflu og almennt sveiflast innflutningur meira en hagvöxtur. Þrír mánuðir eru reyndar stuttur tími og því verður að varast að oftúlka hreyfingar á svo stuttum tíma, en ýmsar upplýsingar leynast þó í tölum um vöruinnflutning á fyrstu þremur mánuðum ársins. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs var vöruinnflutningur 18% meiri að raungildi en á sama tíma í fyrra samkvæmt upplýsingum Hagstofu. Hluta þessarar aukningar má rekja til virkjanaframkvæmda á Austurlandi, enda hefur innflutningur á fjárfestingarvörum aukist um ríflega 35%. En hvað um innflutningsvörur aðrar en til stóriðjuframkvæmda? Innflutningur á neysluvörum hefur aukist langt umfram aukningu tekna á þessu tímabili. Þannig hefur kaupmáttur launa aukist á fyrsta ársfjórðungi um tæplega 1½% miðað við sama tíma í fyrra. Innflutningur á neysluvörum hefur á hinn bóginn aukist um nálægt 15%. Mest ber á innflutningi á fólksbifreiðum sem hefur aukist að verðmæti um fjórðung frá 2003. Fjöldi skráðra bifreiða á sama tíma jókst um tæplega 20%. Þetta gæti bent til þess að við séum að kaupa dýrari bíla en áður. Við höldum áfram að kaupa heimilistæki, en innflutningur á þeim jókst um 20% á fyrsta ársfjórðungi og innflutningur á fatnaði jókst um 10%. En fleira vekur athygli. Þannig hefur innflutningur á matvörum aukist um 15% frá því í fyrra. Þetta er mikil aukning þar sem almennt má búast við að þessi liður vaxi jafnt og þétt. Nokkrar skýringar má finna, en saman skýra þær þó ekki allan þennan vöxt. Til dæmis voru páskar aðeins fyrr á ferðinni í ár og má því sjá innflutning vegna páskanna að mestu á þessu ári en aðeins að hluta í fyrra. Þá má gera ráð fyrir því að erlendir verkamenn við virkjanaframkvæmdir standi undir hluta aukningarinnar. En ef innflutningur á neysluvörum eykst um 15% á sama tíma og kaupmáttur eykst um 1½%, hvað þýðir það um afkomu heimilanna? Ef allt sem er innflutt er selt og ef sala á innlendum vörum minnkar ekki að sama skapi, þá þýðir þetta að skuldir heimilanna eru enn að aukast, en á árinu 2003 voru þær metnar 180% af ráðstöfunartekjum.



Skoðun

Sjá meira


×