Lífið

Götuhátíð Jafningjafræðslunnar

"Við ætlum að blása til hátíðar á götum úti í miðbæ Reykjavíkur og lífga þannig upp á kosningadaginn," segir Heiða Kristín Helgadóttir kynningar- og markaðsstjóri Jafningafræðslunnar. Götuhátíðin sem Jafningjafræðslan stendur fyrir verður fjölbreytt að vanda. "Það munu hljómsveitir eins og Bent og 7Berg, O.N.E. og Iceguys stíga á stokk, Brúðubíllinn mætir á svæðið klukkan 14, hoppukastali verður settur upp og boðið verður upp á andlitsmálun." Einnig verða starfsmenn Jafningjafræðslunnar á svæðinu og munu þau svara spurningum áhugasamra. "Þetta verður auðvitað vímulaus uppákoma og það verður stemning og stuð fyrir unga sem aldna," segir Heiða. Jafningjafræðslan hefur undanfarið verið í óðaönn að hitta unglinga um land allt. "Það er auðvitað gaman að hitta sem flesta. Við vinnum út frá því að efla sjálfsmyndina og hvetjum ungt fólk til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Sterk sjálfsmynd er besta veganestið sem unglingar fá út í lífið," segir Heiða og bætir því við að mikilvægt sé að vera meðvitaður um eigin ákvarðanir og sýna ábyrgð. "Við erum núna á ferð um landið og erum til dæmis búin að fara á Hellu en erum á leið að Kárahnjúkum og til Hveragerðis auk þess sem við förum á milli fyrirtækja Reykjavíkurborgar." Götuhátíðin verður á Lækjartorgi og hefst klukkan 13 á laugardaginn og stendur til kl. 16.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.