Sport

Þjóðsagan um Framara

 Framarar hafa bjargað sér frá falli úr úrvalsdeildinni í lokaumferðinni síðustu fimm ár og í dag reynir enn og aftur á þjóðsöguna um Safamýrarliðið og hetjudáðir þess í lokadegi Íslandsmótsins. Mótherjarnir í dag eru Keflvíkingar, sem mættu einnig við svipaðar aðstæður á Laugardalsvöllinn fyrir þremur árum en Fram vann þá 5-3 sigur og bjargaði sér frá falli í ótrúlegum átta marka leik. Haustið 1999 voru Framarar í 7. sæti fyrir 18. umferðina, einu stigi á undan fallsætinu, en björguðu sér frá falli með sigri gegn Víkingum sem jafnframt þýddi að nágrannarnir úr Víkingi og Val féllu.  Árið eftir sátu Framarar í fallsæti fyrir lokaumferðina á lakari markatölu en Stjörnumenn. Stórtap Stjörnunnar í lokaleiknum þýddi að Fram og Breiðablik nægði jafntefli úr lokaleiknum og leikur liðanna varð að leikleysu þegar liðin biðu eftir lokaflautinu því 1-1 jafntefli dugði báðum til áframhaldandi veru í úrvalsdeildinni. Sumarið 2001 byrjaði hörmulega fyrir Fram en liðið fékk aðeins 4 stig út úr tíu fyrstu leikjum tímabilsins. En við tók magnaður endasprettur þar sem Fram náði 16 stigum út úr síðustu átta leikjum sínum og bjargaði sér frá falli með 5-3 sigri á Keflavík í lokaleiknum. Haustið 2002 var mjög svipað. Fram var í vondum málum fyrir þrjá síðustu leikina en náði úr þeim sjö stigum, vann þá tvo seinni með markatölunni 8-4 og bjargaði sér á markatölu á kostnað Keflvíkinga. Í fyrra var Fram í botnsætinu fyrir lokaumferðina en með 1-0 sigri á Þrótti felldi liðið ekki bara Þróttara heldur stökk upp um þrjú sæti og endaði í sjöunda sæti í deildinni. Framarar hafa því náð í 13 stig af 15 mögulegum út úr lokaumferðinni síðustu fimm ár og alltaf bjargað sér frá falli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×