Skoðun

Fjársöfnun fyrir BUGL

Landssöfnun Kiwanis - Ólafur Ó. Guðmundsson læknir Undanfarin misseri hefur umræða um ónóga þjónustu fyrir börn og unglinga með geðraskanir verið áberandi. Sveitarfélögum ber að veita grunnþjónustu vegna geð- og þroskaraskana innan heilsugæslu, skólasálfræðiþjónustu og félagsþjónustu en ljóst er að víða er þjónustu þeirra ábótavant ekki eingöngu vegna skorts á fjármunum heldur líka vegna vöntunar á faglegu baklandi. Sjálfstætt starfandi fagfólk á ýmsum sviðum veitir þjónustu sem foreldrar greiða fyrir eða sveitarfélög eða ríkið kaupir í gegnum Tryggingastofnun hvað varðar lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkra- og iðjuþjálfa.Loks rekur svo ríkið sérhæfðar deildir og stofnanir á þessu sviði. Burðarásinn í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga hvað varðar greiningar og meðferðarúrræði, rannsóknir, handleiðslu og kennslu hefur verið hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítala, háskólasjúkrahúss, BUGL. Bráðamálum og tilvísunum á göngudeild BUGL hefur fjölgað verulega undanfarin ár sem og innlögnum á legudeildir. Nú er svo komið að LSH og heilbrigðisráðuneytið hafa sammælst um löngu tímabæra stækkun BUGL. Ýmsar útfærslur hafa verið lagðar fram sem enn eru til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar. Fyrirliggjandi áætlun heilbrigðisyfirvalda gerir ráð fyrir um 1.400 fm stækkun sem er allt að tvöföldun á núverandi húsnæði. Með stækkuninni verður hægt að bjóða upp á sérhæfða og rýmri aðstöðu til greiningar og meðferðar. Grundvallaratriði er að tryggja börnum og unglingum með geðraskanir nauðsynlegan stuðning innan fjölskyldu og skóla sérstaklega, en margvísleg meðferð fer fram á BUGL. Má þar nefna viðtöl við barnið/unglinginn, foreldra eða fjölskylduna alla, ýmiskonar þjálfun barns/unglings eða foreldra, stundum í hópum, listmeðferð, atferlismótandi meðferð á dag- og legudeildum auk lyfjameðferðar þegar hún á við. Með áætlaðri nýbyggingu mun aðgengi batna, biðaðstaða göngudeildar verða mannsæmandi og nauðsynlegt rými fást til meðferðar í göngu-, dag- og legudeildum. Ýmsir velunnarar BUGL hafa komið að uppbyggingarstarfinu en stærsta framlagið kemur frá kvenfélaginu Hringnum eða 50 milljónir króna. Auk þess hefur fjöldi fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga lagt sitt af mörkum. Þá hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um fjármögnun að hluta til. Þó að um 150 milljónir króna séu tryggðar vantar enn a.m.k. jafn háa upphæð til þess að hægt sé að hefjast handa og ljúka framkvæmdum. Kiwanishreyfingin hefur um árabil lagt lóð sín á vogarskálar geðheilbrigðis, t.d. stóð hreyfingin fyrir því árið 1996 að BUGL fékk íbúð til afnota fyrir foreldra og fjölskyldur af landsbyggðinni sem sækja þurfa þjónustu deildarinnar en sú íbúð hefur nýst afbragðsvel. Nú ætlar Kiwanis að bæta enn um betur með landssöfnuninni "Lykill að lífi" 7.-10. október. Með kaupum á K-lyklinum í ár getur þú lagt þitt af mörkum til velferðar barna- og unglinga á Íslandi.



Skoðun

Sjá meira


×