Skoðun

Barnafólk velur Kópavog

Vinsældir Kópavogs - Ármann Kr. Ólafsson Í fjölmiðlum hefur að undanförnu verið mikið fjallað um að stór munur sé á þróun barnafjölda í byggðarlögunum á höfuðborgarsvæðinu sé horft aftur til ársins 1994. Athygli vekur að börnum upp að fimm ára aldri hefur verið að fækka í Reykjavík, en aftur á móti verið að fjölga í ýmsum öðrum sveitarfélögum. Mest hefur fjölgunin verið í Kópavogi, 528 börn, en Mosfellsbær kemur næstur með 146 barna fjölgun. Þeir sem fylgst hafa með störfum bæjarstjórnar Kópavogs vita að ekki er um tilviljun að ræða. Ný hverfi hafa tekið mið af hæfilegri blöndun fjölbýlis og sérbýlis og mikil áhersla verið lögð á þjónustu fyrir ólíka aldurshópa. Bæjarstjórn Kópavogs hefur lagt ríka áherslu á að byggja upp öflugt skólastarf, bæði á grunn- og leikskólastigi, jafnframt því að haga skipulagsmálum þannig að ný hverfi séu aðlaðandi fyrir barnafjölskyldur. Þetta starf hefur verið unnið án stórra yfirlýsinga en verkin látin tala. Það er því ánægjulegt þegar uppskeran verður með þeim hætti að athygli vekur hjá stærstu fjölmiðlum landsins. Nú stendur yfir uppbygging nýrra hverfa í Vatnsenda sem kennd eru við kóra og hvörf. Verið er að ljúka hönnun leikskóla í Hvörfunum sem tekur til starfa að ári. Einnig er verið að ljúka hönnun nýs tveggja hliðstæðu grunnskóla sem áætlað er að taki til starfa næsta haust með inntöku 6-9 ára barna. Skólanefnd Kópavogs hefur ásamt bæjarstjórn markað þá stefnu að við hönnun grunnskólans í Hvörfunum sé horft til þess að nýta þá miklu náttúru sem skólann umlykur. Sérstök áhersla verður því lögð á náttúruvísindi og raungreinar í starfi skólans í framtíðinni. Hliðstæðar þjónustueiningar munu taka til starfa í Kórunum ári síðar. Einnig eru fyrirhuguð íþróttamannvirki á svæðinu til afnota fyrir íþróttafélög, skóla og almenning. Það er bæjarstjórn Kópavogs kappsmál að standa við sett markmið í uppbyggingu nýrra hverfa og þjónustu bæjarins í heild, enda er það einlægur vilji bæjarstjórnar Kópavogs að það sé "gott að búa í Kópavogi".



Skoðun

Sjá meira


×