Sport

Los Angeles Lakers liðast í sundur

Lið Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta er að liðast í sundur en liðið tapaði eins og kunnugt er úrslitaeinvíginu gegn Detroit mjög óvænt, 1-4, á dögunum. Í dag héldu áföllin áfram að dynja á liðinu, Phil Jackson hætti sem þjálfari, Kobe Bryant losaði sig frá samningi og Shaquille o´Neal fór fram á að vera skipt frá félaginu. Hinn 58 ára gamli Phil Jackson hefur unnið níu titla sem þjálfari (6 með Chicago Bulls og 3 með Lakers) og enginn þjálfari í sögu deildarinnar státar af hærra sigurhlutfalli en lið Jackson hafa unnið 72,5% leikja undir hans stjórn (832 af 1148) á keppnistímabilinu og 71,7% leikja í úrslitakeppninni (175 sigrar). Þeir sem hafa verið nefndir sem eftirmenn hans er menn eins og Rudy Tomjanovich, fyrrum þjálfari Houston og George Karl sem þjálfaði Seattle og Milwaukee á sínum tíma. Eins og búist var við leysti Kobe Bryant sig undan samningi við Lakers en hann ætlar að reyna á markaðinn. Forráðamenn Lakers ætla hinsvegar að gera allt til þess að halda Bryant og þeir eru líka það lið sem getur boðið honum bestan samning, 140 milljónir dala fyrir sjö ár. Shaquille O´Neal er ekki ánægður með þróun mála og eftir að hann heyrði af því að hans maður, Phil Jackson, væri hættur með liðið og að Lakers setti samning við Kobe Bryant í fyrsta sæti þá fór hann fram á að vera skipt frá liðinu. Forráðamenn Lakers voru ekki að kippa sér mikið upp við það og sögðu að ef hann vildi það þá kæmi það vissulega til greina. Enn er óvíst hvað þeir Karl Malone og Gary Payton gera í framhaldinu en draumaliðið sem átti að vinna öruggan sigur í vetur hefur liðast í sundur á örskömmum tíma og þér félagar hafa enn ekki fengið hringinn sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×