Sport

Hæll Zlatans gerði Ítölum grikk

Zlatan Ibrahimovic, framherjinn frábæri hjá Svíum, tryggði sínum mönnum eitt stig gegn Ítölum í kvöld í leik liðanna í C-riðli Evrópumótsins í Portúgal þegar hann skoraði jöfnunarmark liðsins fimm mínútum fyrir leikslok. Markið var sérlega glæsilegt, hælspyrna á lofti sem sveif í fallegum boga yfir Christian Vieri, framherja Ítala, sem stóð á línunni án þess að fá rönd við reist. Ítalir voru mun sterkari í fyrri hálfleik og hefðu með léttum leik getað verið búnir að ganga frá leiknum í fyrri hálfleik. Þeim tókst hins vegar ekki að skora nema einu sinni og var þar að verki Antonio Cassano, staðgengill Franscescos Totti, á 37. mínútu. Cassano skallaði fyrirgjöf Christians Panucci glæsilega í netið. Í síðari hálfleik bökkuðu Ítalir mikið líkt og venjunlega þegar þeir komast yfir í leiknum. Svíar komust inn í leikinn, sköpuðu sér fullt af færum en fundu ekki leið framhjá Gianluigi Buffon, markverði Ítala, fyrr en Zlatan dúkkaði upp með hælinn sinn góða. Ítalía-Svíþjóð 1-1 1-0 Antonio Cassano (37.). 1-1 Zlatan Ibrahimovic (85.).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×