Sport

Rooney fær að eiga seinna markið

Wayne Rooney mun fá að halda seinna marki sínu gegn Sviss eftir allt saman en tækninefnd UEFA var með markið til skoðunar á fundi sínum í dag. Markið sem þótti ástæða til að ræða á fundi tækninefndarinnar skoraði Rooney á 75. mínútu í 3-0 sigri Englendinga á Sviss. Rooney átti þá þrumuskot utarlega úr vítateignum, skotið fór í stöngina, aftur út og síðan af hnakka markvarðar Svisslendinga, Jörg Stiel, og þaðan aftur inn í markið. Tækninefnd UEFA sagði í opinberu áliti sínu að um sjálfsmark væri aðeins að ræða ef leikmaður setur boltann viljandi í eigið mark eða breytir um stefnu á skoti, sendingu eða fyrirgjöf þannig að boltinn fari í eigið mark.Sé skotið á leiðinni á markið í fyrsta lagi getur ekki verið um sjálfsmark að ræða þótt að boltinn fari af varnarmanni. Rooney, varð yngsti leikmaðurinn til að skora í úrslitakeppni Evrópumótsins þegar hann kom Englandi í 1-0 á 23. mínútu leiksins og hann sagði seinna markið líka vera sitt í leikslok. "Ég skaut eins fast og ég gat og var heppinn að boltinn fór í markið. Þetta var mitt mark," sagði Rooney.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×