Innlent

Látinn hætta vegna ágreinings

Jón Þórisson, aðstoðarforstjóri Íslandsbanka, var rekinn úr starfi í dag og látinn hætta strax vegna óleysanlegs ágreinings milli hans og Bjarna Ármanssonar forstjóra. Jón Þórisson hættir eftir ríflega 20 ára samfellt starf, fyrst í Iðnaðarbanka og síðar í Íslandsbanka. Í fréttatilkyningu sem Jón sendi frá sér síðdegis segir að Bjarni Ármannsson, forstjóri, hafi ákveðið að hann léti af störfum, en Jón tekur fram að sér hafi í 20 ár verið treyst fyrir margvíslegum viðfangsefnum, meðal annars sem staðgengli forstjóra. Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar kemur fram að ástæða þess að Jón hættir nú, sé óbrúanlegur ágreiningur, eins og það er orðað, á milli aðstoðarforstjórans og forstjórans og þakkar bankinn Jóni fyrir vel unnin störf. Jón Þórisson lýsti því yfir fyrir skemmstu að hann útilokaði ekki möguleikann á sameiningu Íslandsbanka og Landsbankans, en áður hefur komið fram að Bjarni Ármannson sé andvígur þeirri leið. Bjarni sagði í samtali við fréttastofu síðdegis að leysa hefði þurft ágreining hans og Jóns og hann teldi það bestu lausnina að Jón hætti störfum. Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist brotthvarf Jóns nú, hörðum átökum á hluthafafundi Íslandsbanka í byrjun nóvember síðastliðins, en breytingar urðu þar á valdahlutföllum innan bankaráðsins. Ágreiningur var um hagræðingu og framþróun bankans á íslenskum fjármálamarkaði og um þá ákvörðun Jóns að ráða Svein Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, útibústjóra miðbæjarútibús bankans í Reykjavík. Óskað hefur verið eftir því að bankaráð komi saman vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×