Sport

Hollendingar æfir

Hollenski vængmaðurinn Arjen Robben var mjög ósáttur með að vera skipt út af í leiknum gegn Tékkum í fyrradag. Þessi ákvörðun Dicks Advocaat er vægast sagt umdeild en í stöðunni 2-1 fyrir Hollendinga, á 58. mínútur, var Robben skipt út af fyrir miðjumanninn Paul Bosvelt. Robben var búinn að spila frábærlega og þessi skipting dró mikinn mátt úr Hollendingum, sem reyndu að verja forskot sitt en það hefur hingað til ekki verið þeirra leikur. Flestir sérfræðingar eru á því að þessi skipting hafi einfaldlega gert Tékkum kleift að komast aftur inn í leikinn og klára hann og í kjölfarið verða nú Hollendingar að treysta á að Þjóðverjar geri engar rósir í næsta leik gegn Tékkum. "Ég var mjög vonsvikinn því mér fannst ég vera að spila vel og liðsfélagar mínir voru á sama máli. En það er þjálfarinn sem ræður, þetta var hans ákvörðun og ég var einfaldlega fórnarlamb hennar," sagði Arjen Robben og var hundfúll. Bæði leikmenn Hollendinga og fréttamenn, sem og stuðningsmenn liðsins í Portúgal og heima fyrir, hafa krafið Advocaat um svör vegna skiptingarinnar en hann hefur varið hana: "Ég sé ekki eftir þessari skiptingu. Mér fannst við ekki hafa stjórn á leiknum og réðum ekki miðjuspilinu. Skiptingin gerði ekki útslagið fyrir okkur heldur voru það einstaklingsmistök sem leiddu til marka Tékkanna," sagði Dick Advocaat.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×