Sport

KR-ingar sloppnir úr fallhættu

KR bar sigurorð af KA á heimavelli sínum með tveimur mörkum gegn einu og kom sér þar með úr fallhættu en staða KA versnaði að sama skapi.  Lengst af leit ekki út fyrir sigur KR, KA var betri aðilinn í fyrri hálfleik en KR-ingar mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik, snéru leiknum sér í vil á rúmri mínútu og unnu verðskuldað. KA menn voru sterkari í byrjun og voru greinilega betur innstilltir í harðan fallbaráttuslag. KR-ingar urðu undir í baráttunni en KA tókst ekki að ógna marki KR að ráði. Leikurinn jafnaðist nokkuð þegar á leið en eftir skallamark Þorvalds Guðbjörnssonar á 27. mínútu voru KR-ingar slegnir út af laginu og KA menn voru sterkari það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. KA bakkaði talsvert í seinni hálfleik og fljótlega var fimmti maðurinn kominn í vörnina. KR-ingar sendu Theódór Elmar Bjarnason og Guðmund Benediktsson inn á og lífguðu þeir upp á leik liðsins. Þrátt fyrir að KR-ingar væru ekki að skapa sér opin færi var pressan orðin mjög þung þegar Kristján Örn Sigurðsson braut loks ísinn með skallamarki af stuttu færi. Rétt rúmri mínútu síðar var Bjarni Þorsteinsson á ferðinni með enn eitt skallamarkið eftir aukaspyrnu. Eftir þennan umsnúning var leikurinn í höndum KR-inga sem voru nær því að bæta við mörkum en KA að jafna. Aldrei uppgjafartónn ,,Það var aldrei neinn uppgjafartónn, ekki í strákunum inni á vellinum eða í félaginu öllu. Það er það sem stendur upp úr eftir svona leik. Við sýndum gífurlega samstöðu og kraft allir sem einn maður hér hjá KR í dag,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR. ,,Við fengum á okkur klaufalegt mark úr horni og svo fengum við mark á okkur úr aukaspyrnu sem orkaði tvímælis. Við vorum miklu betra liðið í fyrri hálfleik, við náðum bara aldrei að komast í gang í þeim seinni og duttum of aftarlega. Við náðum ekki upp sama spili í síðari hálfleik og við vorum að gera í fyrri hálfleik þegar við hefðum að mínu mati átt að komast í 2-0. Síðan kemur Gísli dómari sem er náttúrulega alltaf samkvæmur sjálfum sér á KR vellinum og öll vafaatriði falla þeim megin,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari KA.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×