Innlent

Reglur fyrir þjónustu á netinu

Samkeppnisstofnun hefur tekið saman skýrar og aðgengilegar starfsreglur fyrir fyrirtæki sem veita þjónustu á netinu. Reglurnar eiga við um öll fyrirtæki, einstaklinga og félög sem veita slíka þjónustu. Til dæmis þurfa fasteignasölur að hlíta þessum reglum ef hægt er að skoða þær fasteignir sem í boði eru á heimasíðum þeirra og sama á við um verslanir sem bjóða upp á einhverja nettengda þjónustu. Reglurnar eru annars vegar ætlaðar þjónustuveitendum og hins vegar neytendum. Hinar fyrrnefndu byggja á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og á lögum um húsgöngu og fjarsölusamninga. Þau fyrirtæki sem stunda rafræn viðskipti þurfa að hlíta þessum lögum. Til dæmis kveða lögin á um að neytendur hafa 14 daga heimild til að falla frá kaupum án þess að tilgreina ástæðu eða greiða viðurlög þegar kaup fara fram á netinu, í fjarsölu eða með símasölu. Samkeppnisstofnun hefur eftirlit með að þessum lögum sé framfylgt. Í nýlegri skoðun stofnunarinnar á 10.000 vefsíðum á léninu -.is kom í ljós að víða skorti á að upplýsingagjöf væri sem skyldi. Algengt var að jafn sjálfsagðar upplýsingar og heimilisfang, sími, kennitala og slíkar upplýsingar vantaði. Upplýsingar Samkeppnisstofnunar eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar, http://www.samkeppni.is/nytt/index.htm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×