Sport

FH að klára Íslandsmótið

FH-ingar tóku stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum með 3-1 sigri á ÍBV á Hásteinsvelli í Eyjum í gær. FH-ingar hafa ekki tapað í Landsbankadeildinni síðan í  22. maí og hafa nú gott forskot á toppi deildarinnar. Einar Þór Daníelsson, leikmaður ÍBV, telur titilinn vera í höndum FH-inga. “Það eru fjórir leikir eftir en ég sé ekki að FH misstígi sig mikið úr þessu. Þetta var dagur FH-inga það er alveg ljóst og þeir höfðu allt með sér – það er það sem þarf til að vinna titla,” sagði Einar Þór sem náði sér ekki á strik í leiknum frekar en aðrir í fáliðari sóknarlína Eyjaliðsins sem var með fjóra miðverði í byrjunarliðinu.  Tryggvi Bjarnason og Páll Hjarðar voru í vörninni að venju en varnarmennirnir Einar Hlöðver Sigurðsson og Andri Ólafsson léku á miðjunni hjá ÍBV ásamt varnartengiliðnum Bjarnólfi Lárussyni og hljóta menn því að spyrja sig hvort Eyjamenn hafi mætt til leiks á heimavelli til að verjast.  Einar Þór var sammála því að liðinu vantaði bitkraft í sóknina. “Það segir sig auðvitað sjálft að það vantaði meira þunga í sóknina. Um leið og við lendum undir baka þeir til baka og þá er erfiðara fyrir okkur að skapa færi.  Munurinn á liðunum í dag var bara sá að þeir voru að klára færin vel, við fengum alveg nóg af færum en vorum bara ekki að nýta þau.”    FH liði lék undan vindinum í fyrri hálfleik en það voru Eyjapeyjar sem byrjuðu betur og sköpuðu sér fyrsta marktækifærið. Andri Ólafsson átti gott skot að marki sem góður markvörður FH, Daði Lárusson, varði vel.  Það voru hins vegar FH-ingar sem komu knettinum fyrst í netið og má segja að það hafi verið gegn gangi leiksins.  Atli Viðar Björnsson fylgdi eftir skoti Guðmundar Sævarsson og skoraði sitt 5 mark í Landsbankadeildinni og staðan orðinn 1-0 fyrir FH.  Eyjamenn fengu svo rothöggið fimm mínútum síðar þegar Emil Hallfreðsson skoraði beint úr horni. “Ég átti bara að smella honum inn að markinu en það var kannski ekki ætlunin að skora. Ég ætlaði samt að setja hann að markinu en ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart þegar ég sá hann inni,” sagði Emil sem sagðist ekki hafa áður skorað úr beint úr horni í meistaraflokki. Eyjaliðinu gekk illa að skapa sér færi og náðu ekki að ógna Daða í markinu og FH-ingar fóru inn í búningsklefa í hálfleik með gott forskot. Í upphafi seinni hálfleiks má svo segja að hin magnaði Atli Viðar Björnsson hafi gert út um leikinn þegar hann  setti boltann framhjá Birki Kristinssyni í marki ÍBV eftir frábæra stungusendingu frá Jóni Þorgrími Stefánssyni.   Staðan orðinn 3-0 og Eyjapeyjar kannski minni fyrirstaða en Ólafur Jóhannesson þjálfari FH átti von á. “Auðvitað átti maður von á þeim erfiðum hérna á sínum heimavelli og kannski var þetta auðveldara en maður þorði að vona. Við spiluðum skynsamlega og fengum vindinn í bakið í fyrri hálfleik og kláruðum leikinn þá,” sagði Ólafur sem vildi samt ekki taka undir það að titilinn væri í höfn eftir sigurinn í Eyjum. Það er enn mikið eftir að þessu móti og ég veit allt um það. Við eigum erfiða leiki eftir og verðum að klára þetta eins og menn.”   ÍBV náði að klóra í bakkann á 72. mínútu þegar Gunnar Heiðar Þorvaldsson átti gott skot að marki FH sem hafði viðkomu félaga hans í framlínunni, Steingrími Jóhannessyni, og þaðan í netið.  FH-ingar vörðust vel síðustu 20 mínúturnar gegn vindinum og fögnuðu þegar Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, flautaði til leiksloka enda liðið komið með 4 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir. ÍBV-FH 1-3 0-1 Atli Viðar Björnsson 24. 0-2 Emil Hallfreðsson 28. 0-3 Atli Viðar Björnsson 48. 1-3 Steingrímur Jóhannesson 72.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×