Sport

Jón Arnór með 15 stig gegn Kína

Jón Arnór Stefánsson skoraði 15 stig í öðrum æfingaleik Dallas Mavericks við kínverska landsliðið í fyrrinótt. Dallas vann leikinn örugglega 97-85 og bætti fyrir tap tveimur dögum fyrr. Liðin spiluðu síðan í þriðja og síðasta sinn í nótt. Jón Arnór varð fjórði stigahæsti leikmaður Dallas í leiknum en stigahæstur var nýliðinn Devin Harris, einn af keppinautum Jóns um sæti í liðinu. Harris, sem var valinn fimmti í nýliðavalinu á dögunum, skoraði 21 stig og gaf 5 stoðsendingar og spilaði mun betur en í fyrsta leiknum. Það munaði reyndar miklu fyrir Kína að liðið lék án miðherja síns og Houston, Yao Ming, sem leiddi liðið í stigum (22), fráköstum (11) og stoðsendingum (4) í fyrsta leiknum sem Kína vann. Jón Arnór var með átta stig í þeim leik og er greinilega að sýna sig og sanna í þessum leikjum. Það er mikilvægi því þrátt fyrir brotthvarf Steve Nash til Phoenix þá er Dallas búið að gera sex ára samning við bakvörðinn Marquis Daniels og nú er Harris farinn að sýna tilþrif í stöðu Jóns Arnórs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×