Erlent

Styðja forseta Kólombíu

Samkvæmt fyrstu tölum virðist sem að flokkar sem styðja forseta Kólumbíu, Alvaro Uribe, ætli að vinna sannfærandi sigur í þingkosningunum þar í landi. Búið er að telja tvo þriðju hluta atkvæða. Kólumbíumenn gengu í kosninga í gær og það gekk nokkuð greiðlega fyrir sig eftir að hótanir uppreisnarmanna um ofbeldisverk urðu að engu.

Erlent

Drottning í heimsókn í Ástralíu

Elísabet Englandsdrottning er nú í heimsókn í Ástralíu ásamt eiginmanni sínum, hertoganum af Edinborg. Drottningunni var tekið fagnandi en það var forsætisráðherra landsins, John Howard, sem tók á móti þeim hjónum ásamt konu sinni auk fleiri fyrirmenna Ástralíu. Drottningin setur Samveldisleikana í Melbourne á miðvikudag. Þaðan heldur drottningin ásamt eiginmanni sínum til Singapúr.

Erlent

Æfa sig fyrir Afganistan í Noregi

Yfir þrjú þúsund breskir friðargæsluliðar undirbúa nú för sína til Afganistan með stífum heræfingum í Noregi. Yfirmaður í breska hernum, Jim Booney, sagði í samtali við fréttastofuna Sky í gær, að ekkert væri eins erfitt og að lifa af og berjast í kulda, og því væri norður Noregur góður staður til að æfa sig á. En æfingarnar eru ansi strembnar og svo sannarlega ekki fyrir alla. NATO vill auka og styrkja friðargæslustarfsemina í Afganistan og verða því yfir sex þúsund hermenn, aðallega frá Bretlandi, Kanada og Hollandi sendir til Afganistan fyrir nóvemberlok.

Erlent

Yfir sjö tonn af kokaíni fundust í Kolombíu

Lögreglan í Kólumbíu lagði hald á yfir sjö tonn af kókaíni í borginni Barrankía, norður af Bogota höfuðborg landsins í gær. Um er að ræða efni að andvirði tíu milljarða íslenskra króna og hafa tveir menn verið handteknir vegna málsins. Lang stærsti hluti kókaíns í heiminum er framleiddur í Kólumbíu og fer yfir níutíu prósent þess í sölu í Bandaríkjunum. Verði mennirnir fundnir sekir, gætu þeir átt yfir höfði sér dauðadóm.

Erlent

Leita að báti fullum af rotnandi líkum

Yfirvöld á Grænhöfðaeyjum leita nú að báti fullum af rotnandi líkum sem tilkynnt var um að ræki stjórnlaust á hafi úti. Það var skipstjóri á bátnum Matiota sem tilkynnti yfirvöldum um bátinn en að hans sögn voru í það minnsta tólf lík af afrískum karlmönnum um borð. Lyktin af rotnandi líkunum hefði hins vegar verið svo sterk að hann treysti sér ekki til að fara um borð til að kanna hvort fleiri lík væri þar að finna.

Erlent

Þrjár bílsprengjur í Bagdad

Það var blóðugur sunnudagur í Írak í gær. Að minnsta kosti fimmtíu manns féllu í þremur bílsprengjutilræðum í Bagdad, höfuðborg landsins. Þá særðust um eitt hundrað manns. Frá þessu greindi innanríkisráðuneyti landsins.

Erlent

Deilur um hvar eigi að jarða Milosevic

Deilur hafa blossað upp milli ættingja Milosevic, um hvar eigi að jarða hann. Ekkja Milosevic, Mirjana Markovic, og sonur þeirra Marko vilja að hann verði jarðaður í Moskvu þar sem þau búa, að sögn Beta, fréttastofunnar serbnesku, en bæði eru þau eftirlýst fyrir valdníðslu í valdatíð Milosevic. Þau yrðu því handtekin myndu þau mæta til útfara Milosevic yrði hún í Serbíu.

Erlent

Dánarorsok Milosevic líklega hjartaáfall

Slobodan Milosevic, fyrrverandi forseti Júgóslavíu, lést úr hjartaáfalli samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum krufningar. Krufningin var gerð af hollenskum réttarlæknum að tveimur serbneskum réttarlæknum viðstöddum. Saksóknarar segja að eiturefnafræðileg rannsókn verði samt sem áður gerð þótt dánarorsökin liggi fyrir. Bosníu Serbar hafa lýst yfir efasemdum um dauða Milosevic og telja að eitrað hafi verið fyrir honum.

Erlent

Bachelet sver embættiseið

Michelle Bachelet sór í dag embættiseið sem forseti Chile. Hún er fyrst kvenna til að gegna þessu embætti í landinu og þriðja kvenforsetinn í Suður-Ameríku. Hún fer í broddi fylkingar vinstri- og miðjumanna sem hafa stjórnað Chile í 16 ár.

Erlent

Órói vegna kosninga í Kólumbíu

Kólumbíumenn ganga til þingkosninga í dag við stranga öryggisgæslu. Óttast er að vopnaðar sveitir öfgamanna bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna reyni að trufla eðlilegan gang kosninganna.

Erlent

Fuglaflensa greinist í Kamerún

Banvæna afbrigði fuglaflensunnar, H5N1, hefur nú greinst í önd í Kamerún í Vestur-Afríku. Kamerún er fjórða Afríkuríkið þar sem þetta afbrigði sjúkdómsins greinist en áður hafði hún fundist í Nígeríu, Níger og Egyptalandi.

Erlent

Skálmöld í Írak

Átök stigmagnast í Bagdad, þar sem slegið hefur í brýnu milli sjía og súnnímúslima. Fjörutíu manns hafa látið lífið í bílasprengingum í dag við útimarkað í borgarhluta sjíamúslima. Tíu létu lífið í sprengju- og skotárásum í nótt og í morgun og er tala látinna því komin upp í fimmtíu síðasta sólarhringinn.

Erlent

Merkur fornleifafundur í Egyptalandi

Hópur egypskra og þýskra fornleifafræðinga rakst fyrir tilviljun á merkilegan fund. Þegar unnið var að viðgerðum á hofinu Amenhotep í borginni Luxor fundust sex líkneski af Sekhmet, fornri egypskri gyðju með ljónshöfuð og kvenmannslíkama.

Erlent

Serbar kenna stríðsglæpadómstólnum um dauða Mílósevits

Niðurstöður úr krufningu á líki Mílósevitsberast í kvöld eða fyrramálið, og og þar með verður dánarorsökin vætanlega ljós. Serbneskur réttarlæknir verður viðstaddur krufninguna að kröfu Serba, sem telja Stríðsglæpadómstólinn bera ábyrgð á dauða hans.

Erlent

Bretar þróa nýja kjarnaodda

Blaðið Sunday Times hefur eftir leynilegum uppljóstrurum í utanríkisþjónustu Bretlands að Bretar séu að þróa nýja tegund kjarnaodda. Stefnt er að því að ekki þurfi að prófa kjarnaoddana með sprengingu, þar sem það myndi brjóta í bága við núgildandi bann við kjarnorkuprófunum, heldur vonast menn til að geta látið tilraunir á rannsóknastofum duga.

Erlent

Tævanir mótmæla vopnakaupum

Tugþúsundir Tævana gengu fylktu liði um götur Tæpei í dag til þess að mótmæla því að nefnd um sameiningu við Kína hafi verið lögð niður.

Erlent

Tíu létust í Bagdad

Í það minnsta tíu létu lífið í árásum í Bagdad í nótt og morgun. Bílsprengja sprakk við erilsama götu í Vestur-Bagdad og varð sex manns að bana en tólf manns slösuðust. Sprengjunni var beint að lögreglubíl í hverfi súnnímúslima og létust þrír af lögreglumönnunum sem í honum voru.

Erlent

Milosevic látinn

Slobodan Mílósevits, fyrrverandi forseti Júgóslavíu, fannst látinn í fangaklefa sínum í Haag í morgun, þar sem réttað hefur verið yfir honum vegna stríðsglæpa síðan árið 2002.

Erlent

Bankaræningi í 19 ára fangelsi

David Alexander Toska, höfuðpaurinn að baki bankaráninu í Stavangri í Noregi fyrir tveimur árum, var í hádeginu í dag dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir þátt sinn í því. 12 aðrir voru einnig dæmdir í málinu í dag og voru þeir dæmdir í allt að 17 ára fangelsi.

Erlent

Læknar segja meðferð fanga í Guantanamo ámælisverða

Rúmlega 250 læknar hafa skrifað undir bréf þar sem meðferð á föngum Bandaríkjahers í Guantanamo-fangelsinu á Kúbu er gagnrýnd. Sér í lagi gera læknarnir athugasemd við það að næring sé neydd ofan í þá fanga sem séu í mótmælasvelti.

Erlent

Tók 20 manns í gíslingu

Ofsóknarbrjálaður Frakki á fertugsaldri tók meira en 20 manns í gíslingu í skóla utan við Le Mans í gær. Maðurinn, sem kenndi áður við skólann, hélt fólkinu í um fjórar klukkustundir, en sleppti því svo og engan sakaði.

Erlent

5000 milljarða aukalega vegna stríðsreksturs

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, hafa beðið Bandaríkjaþing um aukafjárveitingu upp á rösklega 5000 milljarða króna vegna aðgerða Bandaríkjahers í Írak og Afganistan. Hluti af fénu á þó að fara í neyðaraðstoð vegna fellibylsins Katrínar.

Erlent

Keops er víst í eigu Íslendinga

Danska fasteignafyrirtækið Keops hefur keypt umferðarmiðstöðina í Helsingjaborg í Svíþjóð fyrir hátt í 4 milljarða íslenskra króna. Greint er frá þessu á viðskiptasíðu Jótlandspóstsins og segir þar í undirfyrirsögn, með nokkru stolti, að það séu ekki bara íslendingar, sem fjárfesti í útlöndum. Jótlandspóstinum hefur hinsvegar yfirsést að íslenska fyrirtækið Baugur á hvorki meira né minna en þriðjung í Keops.

Erlent

Arabískt fyrirtæki tekur ekki við rekstir hafna í Bandaríkjunum

Arabískt fyrirtæki hefur látið undan þrýstingi frá Bandaríkjaþingi og ákveðið að hætta við að taka yfir stjórn sex hafna í Bandaríkjunum. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur keypt breskt fyrirtæki sem hefur séð um rekstur á höfnum í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna.

Erlent

Jarðsprengja fellir 26

26 manns féllu þegar jarðsprengja sprakk í suðvesturhluta Pakistans í morgun. Fólkið var á leið í brúðkaup, þegar bifreiðin sem það ferðaðist í keyrði á sprengjuna.

Erlent

Fangar fluttir úr Abu Ghraib

Þúsundir fanga verða fluttir úr hinu alræmda Abu Ghraib fangelsi í nýtt fangelsi á næstu þremur mánuðum. Bandaríski herinn tilkynnti þetta í gær og jafnframt að stjórnvöld í Írak tækju við stjórn fangelsisins á næstunni. Það verður síðan undir þeim komið hvort fangelsinsu verður áfram haldið opnu.

Erlent

Björgólfur Thor á lista yfir þá ríkustu

Björgólfur Thor Björgólfsson er númer 350 á lista yfir ríkustu menn veraldar sem Forbes viðskiptatímaritið birtir. Eignir Björgólfs eru metnar á 2,2 milljarða bandaríkjadollara eða sem nemur tæpum 140 miljörðum króna. Hann færst upp um heil 138 sæti síðan á síðasta ári.

Erlent

Umsátur við menntaskóla í Frakklandi

Fyrrverandi kennari tók í dag 20 nemendur, kennara og annan mann í gíslingu í menntaskóla í vesturhluta Frakklands. Maðurinn sem er 33 ára er sagður vera vopnaður. Lögreglan hefur umkringt skólann og er nú reynt að semja við manninn um að hleypa gíslunum út úr byggingunni en hann hefur ekki farið fram á neitt ennþá.

Erlent

Óttast að 30 manns hafi látist

Óttast er að þrjátíu manns hafi farist þegar rúta með um 40 farþega innanborðs fór út af veginum og lenti út í á í Tyrklandi snemma í morgun. Tekist hefur að finna þrettán líkanna en um 30 eru enn fastir í flakinu sem er á kafi í vatni. Björgunarmenn eru enn að störfum en rútan var á leið frá Istanbul, höfuðborg landsins, til borgarinnar Van nærri írönsku landamærunum.

Erlent

Krefjast að teiknurum verði refsað

Mótmælum vegna skopmyndadeilunnar er hvergi nærri lokið. Í gær gengu fjölmargir múslimar fylktu liði í indverska hluta Kasmír og kröfðust þess að teiknurum skopmyndanna yrði refsað. Lögregla, sem fylgdist vakandi með þurfti ekki að grípa til aðgerða, en sumum var heitt í hamsi og eins og svo oft áður varð danski fáninn eldinum að bráð.

Erlent