Erlent

Milosevic látinn

Slobodan Mílósevits, fyrrverandi forseti Júgóslavíu, fannst látinn í fangaklefa sínum í Haag í morgun, þar sem réttað hefur verið yfir honum vegna stríðsglæpa síðan árið 2002.

Stríðsglæpadómstóllinn hefur fyrirskipað rannsókn á málinu, en utanríkisráðherra Frakka segir að hann hafi ekki framið sjálfsmorð, heldur látist af eðlilegum orsökum.

Stríðsglæpadómstóllinn hafnaði í síðasta mánuði beiðni hans um að fá að fara til Rússlands í læknismeðferð. Dómarar töldu hægt að meðhöndla sjúkdóm hans í Hollandi og voru ekki sannfærðir um að hann myndi snúa aftur fyrir lok réttarhaldanna. Bróðir Milosevics býr þar í landi og er einnig talið að kona hans og synir haldi til þar.

Milosevic var 64 ára, og veikur fyrir hjarta, með háan blóðþrýsting. Slæm heilsa hans hefur ítrekað tafið réttarhöldin yfir honum, þar sem hann er sakaður um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu í stríðinu á Balkanskaga 1992-1995, þar sem 200 þúsund manns létu lífið, og í Kosovo árin 1998-1999. Hann var hrakinn frá völdum árið 2000 og var sendur til Haag nokkrum mánuðum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×