Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hóf undankeppni EM 2016 á 10 marka tapi, 27-17, fyrir Frakklandi í Antibes í dag.
Ísland byrjaði leikinn vel og hélt í við Frakka lengst af í fyrri hálfleik sökum góðs varnarleiks.
Íslenska vörnin var gríðarsterk í upphafi leiks og Frakkar töpuðu fjölmörgum boltum í sókninni.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir kom Íslandi í 4-5 með sínu fyrsta og eina marki í leiknum en þá kom góður kafli hjá heimakonum sem skoruðu fjögur mörk í röð og náði þriggja marka forskoti, 8-5. Sami munur var svo á liðunum í hálfleik, 11-8.
Í seinni hálfleik hafði franska liðið öll völd á vellinum og jók jafnt og þétt við forskotið.
Íslenska liðið tapaði alltof mörgum boltum í sókninni og vörnin, sem var svo sterk í fyrri hálfleik, fór að bila. Þá var markvarslan sama og engin.
Frakkar skoruðu hvert markið á fætur öðru unnu að lokum 10 marka sigur, 27-17.
Íslenska liðið fær ekki marga daga til að sleikja sárin því á sunnudaginn mætir Ísland Þýskalandi í öðrum leik sínum í undankeppninni. Leikurinn fer fram í Vodafone-höllinni og hefst klukkan 16:00.
Mörk Íslands:
Rut Jónsdóttir 3, Arna Sif Pálsdóttir 3, Karen Knútsdóttir 3/3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 2, Steinunn Hansdóttir 1, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1, Ramune Pekarskyte 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1, Helena Rut Örvarsdóttir 1.

