Fréttir

HR fær lóð í Vatnsmýrinni
Á morgun verður undirritaður samningur í Höfða um lóð fyrir Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Þá verður einnig undirrituð samstarfsyfirlýsing Reykjavíkurborgar og HR vegna aukins samstarfs í kennslu, þróun og rannsóknum. Markmiðið er að styrkja Háskólann í Reykjavík og efla Reykjavíkurborg sem alþjóðlega háskólaborg.
LÍ spáir 48,5 milljóna króna hagnaði hjá Marel
Marel birtir uppgjör sitt fyrir síðasta ár á morgun. Greiningardeild Landsbankans segir í Vegvísi sínum í dag að félagið hafi tvöfaldast að vöxtum með yfirtökum í fyrra. Er gert ráð fyrir því að tekjur síðasta fjórðungs nemi 69 milljónum evra, jafnvirði 6,1 milljarða króna og verði hagnaður eftir skatta um 548 þúsund evrur, um 48,5 milljóna króna hagnaði.

Reyndi að stinga lögregluna af
Sextán ára drengur var stöðvarður á bíl í Breiðholti um helgina. Hann var ökuréttindalaus og reyndi að stinga lögregluna af með því að taka á rás. Hann komst hins vegar ekki langt áður en lögreglan hljóp hann uppi og handsamaði hann.Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina, þrettán karlmenn og tvær konur.

Fækkað á vitnalista í Baugsmálinu
Málflutningi í Baugsmálinu svokallaða er lokið í dag en haldið verður áfram í fyrramálið. Eitthvað verður fækkað vitnalista, sem nú telur rúmlega 100 manns, en ekki er vitað á þessari stundu hversu mikið verður fækkað á listanum.

Allir blekktir vegna Byrgisins
Jón Kristjánsson fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í dag að allir sem komu að máli Byrgisins varðandi fjárveitingar og styrki til þess, hafi verið blekktir. Aðalatriði nú væri að taka á þessu máli. Málefni meðferðarheimilisins urðu tilefni hvassra orðaskipta í umfjöllun Alþingis en Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn lögðu ríka áherslu á ábyrgð í málefnum Byrgisins.

Tilnefningar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent að Bessastöðum 28. febrúar næstkomandi. Fimm verkefni voru valin af dómnefnd úr hópi 145 sem fengu styrki á síðasta ári, en alls bárust 277 umsóknir. Martin Ingi Sigurðsson er tilnefndur fyrir verkefni sitt Áhrif aldurs á utangenamerki mannsins, Hildigunnur Jónsdóttir og Valdimar Olsen fyrir verkefnið Geo-Breeze, Hrafn Þorri Þórisson fyrir Nýsköpun í sýndarverum, Steinþór Bragason fyrir Rafmagnsfluguna og Guðfinna Halldórsdóttir og Björn Ómarsson fyrir Þráðlausa mælingu stökkkrafts.
LSE hefur samvinnu við kauphöllina í Tókýó
Breska kauphöllin í Lundúnum (LSE) hefur ákveðið að efla samvinnu sína við kauphöllina í Tókýó í Japan í kjölfar þess að eigendur meirihluta bréfa í LSE ákváðu að taka ekki yfirtökutilboði Nasdaq í markaðinn á laugardag.

Ofsaakstur á Hafnarfjarðarvegi
Tuttugu og fjögurra ára karlmaður var tekinn á 160 km hraða á Hafnarfjarðarvegi síðdegis í gær. Þetta er annað skiptið á innan við viku sem maðurinn er tekinn fyrir ofsaakstur. Sjötíu og tveir voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Meirihluti þeirra ók á yfir 100 km hraða, en sumir langt yfir það. Flestir voru það ungir karlkyns ökumenn.

Hvetja til kosninga um álver í Helguvík
Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum hvetja bæjarfulltrúa til að efna til kosninga um fyrirhugað álver í Helguvík og aðrar framkvæmdir tengdar því, eins og raflínur og virkjanir. Þeir halda opinn fund um álverið á miðvikudagskvöldið kl 20.30 á veitingastaðnum Ránni við Hafnargötu í Reykjanesbæ.

Húsnæðisverð hækkar enn
Hækkun á húsnæðisverði var meiri í síðasta mánuði en áætlað var, og mest á landsbyggðinni en þar hækkaði húsnæðisverð um rúm þrjú prósent. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði einbýli um 1,6 prósent en um eitt prósent í fjölbýli. Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Glitnis en þar segir að vísitala neysluverðs í febrúar hafi hækkað meira en spá bankans gerði ráð fyrir, eða um 0,4 prósent.

Írak: Sprengjuárásir kostuðu minnst 80 manns lífið
Talið er að minnst 80 hafi týnt lífi og 150 særst í þremur sprengingum á markaði í miðborg Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Ár er liðið í dag frá sprengjuárás á guðshús sjía-múslima í borginni Samarra.
Íslensk-indversk lyfjasamvinna
Íslenska lyfjafyrirtækið Invent Farma ehf. hefur í samvinnu við indverska lyfjaframleiðandann Strides Arcolab Ltd. stofnað tvö ný samstarfsfyrirtæki. Annars vegar Domac Laboratories sem mun leggja áherslu á að þróa og selja lyf til sjúkrastofnana á Spáni og í Portúgal, og hins vegar eignarhaldsfélagið Plus Farma á Íslandi sem nýlega festi kaup á lyfjafyrirtækinu Farma Plus í Osló í Noregi. Farma Plus er vaxandi aðili í sölu á lyfjum til sjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Jón Ásgeir yfirheyrður í þrjá daga
Hádegishlé er í aðalmeðferð í Baugsmálinu en hún hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun með vitnisburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Sérstakur ríkissaksóknari reiknar með að yfirheyra Jón Ásgeir í þrjá daga en tekist var á um tilteknar lánveitingar Baugs til Gaums.

Fóstureyðingarlöggjöf verður breytt í Portúgal
Fóstureyðingarlöggjöf í Portúgal verður breytt þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla í gær um breytingar á henni hafi ekki verið bindandi. Núgildandi löggjöf hefur verið sú strangasta í Evrópu.

Demókratar vara Bush við
Demókratar á Bandaríkjaþingi hvetja Bush-stjórnina til að sýna aðgát þegar Íranar eru sakaðir um að ýta undir ofbeldi í Írak með vopnasmygli og fjármögnun uppreisnarhópa. Öruggar sannanir vanti og ekki sé góð reynsla af því að taka ákvarðanir sem byggi á vafasömum sönnunargögnum.

Þjóðarsátt um auðlindanýtingu og náttúruvernd
Þjóðarsátt á að nást um auðlindanýtingu og náttúruvernd segja Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra en þau kynntu nú fyrir hádegi frumvarp um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Ráðherrarnir kynntu tvö frumvörp á blaðamannafundi í morgun sem þau munu mæla fyrir á þingi á morgun.

Virkjanaáform í Þjórsá óásættanleg
Náttúruverndarfélagið Sól á Suðurlandi mótmæla harðlega virkjanaáformum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár. Í fréttatilkynningu skorar félagið á stjórnvöld að fórna ekki íslenskri náttúru til framkvæmda sem nýtast eiga til mengangi starfsemi. Í tilkynningunni segir að í framhaldi af umræðu um hlýnun jarðar af mannavöldum sé óásættanlegt að fara í slíkar framkvæmdir.

Neysla áfengis dregst saman
Svo virðist sem landsmenn hafi verið heldur hógværari í neyslu áfengis í upphafi þorra í ár, en á síðasta ári. Sala á áfengi dróst saman um tæp 11 prósent á föstu verðlagi á milli janúarmánuða árið 2006 og 2007. Þetta kemur fram í nýjum niðurstöðum rannsóknarseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fyrir janúar 2007. Sé miðað við breytilegt verðlag hefur sala áfengis dregist saman um tæp 6 prósent.

Baugsmálið hafið að nýju
Í morgun hófust réttarhöld í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna endurákæru í Baugsmálinu svonefnda. Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs Group var sá fyrsti sem kallaður var til yfirheyrslu af hinum þrem ákærðu, en hinir eru Tryggvi Jónsson og Jón Gerald Sullenberger. Búist er við að yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri standi eitthvað fram eftir vikunni. Jón Gerald Sullenberger er nú ákærður í fyrsta skipti í málinu. Yfir eitt hundrað vitni verða auk þess yfirheyrð.

Verðbólga mælist 7,4 prósent
Vísitala neysluverðs hækkað um 0,41 prósent frá síðasta mánuði og jafngildir það því að verðbólga síðastliðna 12 mánuði mælist 7,4 prósent, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Vodafone kaupir indverskt farsímafélag
Breski farsímarisinn Vodafone hefur keypt 67 prósenta hlut asíska fjárfestingafélagsins Hutchison Whampoa í Hutchison Essar, fjórða stærsta farsímafélagi Indlands. Kaupverð nemur 11,1 milljarði bandaríkjadala, jafnvirði 753,8 milljörðum íslenskra króna. Vodafone hefur háð harða baráttu um hlutinn við fjölda farsímafélaga allt frá því fyrirtækið lýsti yfir áhuga á kaupum í indverska félaginu seint á síðasta ári.
Slagsmál vegna gleraugnasvika
Gleraugnasali í Toronto í Kanada hefur verið ákærður fyrir að ganga í skrokk á hálfáttræðum fréttamanni sem hugðist fletta ofan af vörusvikum hans. Barsmíðarnar náðust á myndband og verða notaðar í málaferlunum gegn honum.

Segja Írana kynda undir ófriðnum
Talsmenn Bandaríkjahers sökuðu í dag Írana um að kynda undir ófriðareldinum í Írak með því að smygla vopnum til uppreisnarmanna í landinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn saka íranska embættismenn með beinum hætti um að láta uppreisnarmönnum vopn í té.

Engin lausn fékkst á kjarnorkudeilunni.
Íranar ætla að halda kjarnorkuáætlun sinni til streitu enda segja þeir hana ekki brjóta í bága við alþjóðalög. Leitað var leiða til lausnar kjarnorkudeilunni á ráðstefnu í Þýskalandi í dag en án árangurs.

Royal kynnir stefnuskránna
Segolene Royal, forsetaefni franskra sósílista, kynnti í dag stefnuskrá sína fyrir kosningarnar í vor. Tillögur hennar eru í hundrað liðum og þær miða allar að því að gera Frakkland að sterkara og sanngjarnara þjóðfélagi.

Aðalmeðferð í Baugsmálinu á morgun
Aðalmeðferð hefst í Baugsmálinu á morgun en alls verða tæplega eitt hundrað vitni kölluð til. Verið er að taka fyrir átján ákæruliði í endurákæru. Það eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins og Jón Gerald Sullenberger, sem nú eru ákærðir.

Þyrla skotin niður í Írak
Óljósar fregnir hafa borist af því að flugskeyti hafi grandað bandarískri herþyrlu af Apache-gerð norður af Bagdad í morgun. Á blaðamannafundi sem haldinn var í Bagdad fyrr í dag sögðu talsmenn Bandaríkjahers að æ fleiri vísbendingar væru um að vopn sem kæmu frá Íran væru notuð í baráttunni gegn hernámsliðinu.

Cameron í kannabisneyslu
Breska dagblaðið Independent on Sunday fullyrðir að David Cameron leiðtogi breska Íhaldsflokksins hafi á unglingsárum sínum reykt marijúana. Cameron vildi ekki neita þessum staðhæfingum í samtölum við blaðamenn í morgun en lét nægja að segja að hann hefði gert hluti þegar hann var ungur sem hann sæi eftir í dag.

Kjarnorkuáætluninni verður haldið til streitu
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, segir að Íranar ætli að halda kjarnorkuáætlun sinni til streitu en um leið muni þeir ekkert aðhafast sem brjóti í bága við alþjóðalög. Tíu dagar eru þangað til fresturinn sem Íranar fengu hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að hætta auðgun úrans rennur út.

Berdymukhamedov sigurstranglegastur
Túrkmenar ganga að kjörborðinu í dag og kjósa sér nýjan forseta. Hann fær það erfiða verkefni að taka við arfleið hins nýlátna Saparmurat Niyazov, betur þekktur sem Turkmenbashi eða faðir allra Túrkmena.