Fleiri fréttir

Wright-Phillips til Chelsea?

Enskir fjölmiðlar greina frá því í morgun að Chelsea hafi keypt sóknarmanninn Shaun Wright-Phillips frá Manchester City. Kaupverðið er sagt 18 milljónir punda eða rúmir 2 milljarðar íslenskra króna. Þá samþykkti Chelsea í gær að losa Juan Sebastian Veron undan samningi til þess að hann gæti gengið til liðs við Inter Milan.

Furyk efstur á Barclays Classic

Bandaríkjamaðurinn Jim Furyk hefur forystu á Barclays Classic mótinu í golfi þegar keppni er hálfnuð. Furyk er á 8 höggum undir pari en landi hans Brian Gay er annar, höggi á eftir.

Þjóðverjar og Brasilíumenn mætast

Fyrri undanúrslitaleikurinn í álfukeppninni í knattspyrnu verður í dag. Þjóðverjar mæta Brasilíumönnum í Nürnberg. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn en flautað verður til leiks klukkan 16. Þessi sömu lið mættust í úrslitaleik í síðustu heimsmeistarakeppni fyrir þremur árum. Brasilíumenn unnu þann leik 2-0 og unnu þá heimsmeistaratitilinn í fimmta sinn.

Loeb með forystu í Grikklandi

Frakkinn Sebastian Loeb hefur forystu í Akrópólisrallinu. Þegar 11 sérleiðir eru búnar er Citroën-bíll Loebs 25,7 sekúndum á undan Peuegeot-bíl Finnans Markusar Grönholms. Spánverjinn Carlos Sainz á Citroën er í þriðja sæti, einni mínútu og þremur sekúndum á eftir Loeb.

Heiðar til Fulham á mánudag

Heiðar Helguson mun að öllum líkindum skrifa undir 4 ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Fulham á mánudaginn. Þetta kemur fram í frétt á stuðningsmannasíðu Watford í dag og segir þar að kaupverðið verði um 1.25 milljónir punda sem samsvarar rúmlega 150 milljónum íslenskra króna.

Kezman til Atletico Madrid

Sóknarmaðurinn Mateja Kezman er á förum frá Chelsea til spænska liðsins Atletico Madrid að sögn umboðsmanns hans í dag. Kezman vill ólmur komast frá Chelsea þar sem hann sat meirihluta síðasta tímabils á varamannabekknum. Enskir og spænskir fjölmiðlar segja að félögin hafi komist að samkomulagi um kaupverð sem ekki hefur þó verið gefið upp.

Rændur í beinni

Brasilíski knattspyrnusnillingurinn Roberto Carlos sem leikur með Real Madrid lenti í byssuvopnuðum ræningjum í gær á meðan hann var í símaviðtali við útvarpsstöð í í heimalandinu sínu.

Brasilía í úrslitaleikinn

Brasilíumenn leika til úrslita í álfukeppninni í knattspyrnu sem nú stendur yfir í Þýskalandi en þeir lögðu Þjóðverja í undanúrslitaleik í dag, 3-2. Adriano, sóknarmaður Inter Milan skoraði tvö mörk fyrir Brasilíumenn og Ronaldinho eitt úr víti en Lukas Podolski og Michael Ballack fyrir heimamenn sem tvívegis náðu að jafna metin í leiknum.

San Antonio NBA meistarar !

San Antonio Spurs tryggðu sér í nótt NBA meistaratitilinn í körfubolta þegar liðið sigraði Detroit Pistons í hreinum úrslitaleik, 81-74 í Texas. Þetta var sjöundi leikur liðanna í úrslitaeinvíginu sem Spurs unnu samtals 4-3. Tim Duncan var stigahæstur meistaranna nýkrýndu með 25 stig og var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.

San Antonio NBA meistarar

Tim Duncan átti eina af sínum slökustu seríum á ferlinum í úrslitunum gegn Detroit, en hann lét það ekki á sig fá og fór fyrir sínum mönnum í lokin á oddaleiknum í gær, þegar San Antonio tryggði sér þriðja titilinn á sjö árum með 81-74 sigri á Detroit.

FH til Azerbaijan

FH-ingar drógust gegn liði frá Azerbaijan, Neftchi í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu en drátturinn fór fram í Sviss nú undir hádegið. Fyrri leikurinn fer fram ytra 12. eða 13. júlí. Takist FH-ingum að slá Azerbajana út þurfa þeir að fara til Belgíu og mæta Anderlecht. Velsku meistararnir Total Network Solutions drógust gegn Evrópumeisturum Liverpool.

Góður dráttur hjá ÍBV og Keflavík

ÍBV og Keflavík verða að teljast heppin í Evrópukeppninni því fyrir stundu voru þau dregin gegn liðum frá Færeyjum og Lúxemborg í Evrópukeppni félagsliða. ÍBV mætir færeyska liðinu B36 en Keflavík Etzella Ettelbrück frá Lúxemborg. Leikið verður 14. og 28. júlí.

FH með sex stiga forystu

FH náði í gærkvöldi sex stiga forystu í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. FH-ingar unnu Skagamenn 2-0 í Hafnarfirði þar sem Tryggvi Guðmundsson og Allan Borgvardt skoruðu mörkin. Þetta var áttunda mark Tryggva. FH hefur unnið alla sjö leiki sína og er með 21 stig en Valur er í öðru sæti með 15.

Markalaust hjá Blikum og Víkingi

Efstu liðin í 1. deild, Breiðablik og Víkingur, gerðu markalaust jafntefli á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Breiðablik er með 19 stig en Víkingur er í öðru sæti með 12. Í kvöld keppa KA og HK á Akureyrarvelli.

Bætti met í 800 m skriðsundi

Sigrún Brá Sverrisdóttir, Fjölni, bætti sjö ára gamalt stúlknamet í 800 metra skriðsundi um 21 hundraðshluta úr sekúndu á aldursflokkameistaramótinu í sundi á Akureyri í gærkvöldi. 290 keppendur frá 20 félögum taka þátt í mótinu.

Sjötta mark Veigars fyrir Stabæk

Veigar Páll Gunnarsson skoraði sjötta mark sitt í norsku 1. deildinni þegar lið hans Stabæk sigraði Mandalskamaratene 2-1. Veigar Páll jafnaði metin 6 mínútum fyrir leikslok en sigurmarkið kom tveimur mínútum síðar. Stabæk, sem tapaði 150 milljónir króna í fyrra, er ásamt Bryne með 30 stig en liðin eru í tveimur efstu sætum deildarinnar.

Bikarkeppni í frjálsum í kvöld

Bikarkeppnin í frjálsum íþróttum hefst á Laugardalsvelli í kvöld. Keppt verður í 19 greinum í kvöld. FH á titil að verja en FH-ingar hafa orðið bikarmeistarar 11 sinnum í röð. Í fyrra munaði aðeins hálfu stigi á FH og Ungmennasambandi Skagafjarðar sem varð í öðru sæti.

Fulham líklegast að landa Heiðari

Skjótt skipast veður í lofti í málum Heiðars Helgusonar sem í vikunni var sagður nær örugglega á leiðinni til nýliða Wigan í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Nýjustu fréttir frá Englandi herma nú að Fulham sé líklegast til að landa Heiðari en Chris Coleman þjálfari Fulham fundaði með Heiðari í gær.

Enn óljóst með Heiðar

Samkvæmt fréttum á fréttavef BBC var umboðsmaður Heiðars Helgusonar að ræða við forráðmenn úrvaldeildarliðsins Fulham nú upp úr hádegi. Ljóst þykir að Andy Cole yfirgefi félagið og er Heiðari ætlað að taka hans stöðu. Í gær var Heiðar orðaður við nýliða Wigan.

Magnús hættur með ÍBV

Magnús Már Lúðvíksson, leikmaður ÍBV, er hættur að leika með félaginu en Magnús hvarf skyndilega frá Eyjum í gær. Magnús, sem verið hefur einn besti maður ÍBV í Landsbankadeildinni, lenti upp á kant við forráðamenn félagsins og þann ágreining var ekki hægt að leysa.

Everton í erfiðustu stöðunni

Ensku liðin Arsenal, Liverpool og Manchester United eiga ekki á hættu að lenda á móti sterkustu liðum Evrópu, komist þau í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það sama á ekki við um Everton, takist félaginu að leggja mótherja sína að velli í forkeppninni.

Verkfalli afstýrt í NBA

Þær gleðifréttir bárust úr NBA deildinni nú í kvöld að samkomulag hefur náðst í kjarasamningum milli fulltrúa leikmanna og deildarinnar, en þar með er ljóst að ekkert verður af verkfalli sem virtist óumflýjanlegt fyrir nokkrum dögum þegar hvorki gekk né rak í viðræðunum.

San Antonio 3 - Detroit 3

Flestir voru búnir að afskrifa meistara Detroit Pistons fyrir sjötta leikinn í San Antonio í lokaúrslitum NBA í gærkvöldi, en meistararnir sýndu og sönnuðu með góðum 95-86 útisigri, af hverju þeir unnu deildina í fyrra. Það verður því hreinn úrslitaleikur milli liðanna á fimmtudagskvöldið.

Tryggvi bestur í 1.-6. umferð

FH og Valur eiga flesta leikmenn í liði fyrsta þriðjungs Landsbankadeildarinnar en valið var kynnt á blaðamannafundi KSÍ í Iðnó í hádeginu. Tryggvi Guðmundsson FH var valinn besti leikmaðurinn og Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals, besti þjálfarinn.

Ólafur skrifar undir hjá Brentford

Ólafur Ingi Skúlason, fyrrum leikmaður Arsenal og fyrirliði 21 árs landsliðsins, skrifar í dag undir tveggja ára samning við enska 2. deildar liðið Brentford. Ólafur Ingi mun hafa náð samkomulagi við Brentford um launaliði samningsins en reiknað er með að hann skrifi undir eftir læknisskoðun í dag.

Kalmar í 2. sæti í Svíþjóð

Kalmar er komið í annað sætið í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með eftir að hafa borið sigurorð af Sundsvall á útivelli, 0-2. Kalmar er með 19 stig, fjórum stigum á eftir Djurgarden sem er á toppnum.

Hardenne tapaði óvænt

Óvænt úrslit urðu á Wimbledon-mótinu í tennis í gær þegar Justine Henin-Hardenne tapaði í 2. umferð fyrir grískri stúlku en Wimbledon-mótið er eina stórmótið sem Hardenne hefur ekki tekist að sigra á. Sigurvegari síðasta árs, Maria Sharapova frá Rússlandi, vann Nuriu Llagosteru frá Spáni í tveimur settum, 6-2 og 6-2.

Man. Utd opnar budduna

Manchester United hefur keypt Suður-Kóreumanninn Park Ji Sung frá PSV Eindhoven á tæpar fimm hundruð miljónir króna. Park gerir samning til fjögurra ára við United.

Þjálfari Afríku í 2 mánaða bann

Mostafa Marinó Anbari, þjálfari 3. deildarliðs Afríku á Íslandsmótinu í knattspyrnu hefur verið úrskurðaður í 2 mánaða leikbann af KSÍ. Þá var félagið ennfremur sektað um 12.000 krónur fyrir að nota leikmann sem ekki var kominn með leikheimild með félaginu í leik í VISA bikarnum 20. maí sl.

Chelsea kaupir vinstri bakvörð

Spænski varnarmaðurinn Asier del Horno hefur skrifað undir 3 ára samning við Chelsea en hann kemur frá Athletic Bilbao á 8 milljónir punda. Þá bárust nú síðdegis fréttir þess efnis að ítalska stórveldið AC Milan hafi í dag hunsað formlega fyrirspurn Chelsea um úkraínska sóknarmanninn Andriy Shevchenko.

Man Utd kaupir Ji-Sung

Manchester United hefur fest kaup á suður kóreska landsliðsmanninum Park Ji-Sung og er hann þessa stundina í læknisskoðun á Old Trafford. Þessi 24 ára gamli miðjumaður kemur frá PSV Eindhoven í Hollandi og er snöggur mjög og harður af sér. Ji-Sung kostar Man Utd um 4 milljónir punda og hefur hann gert 4 ára samning við félagið.

Ólöf keppir í Portúgal á morgun

Ólöf María Jónsdóttir mun hefja leik klukkan 10.40 í fyrramálið á Opna portúgalska mótinu í golfi, sem er liður í Evrópumótaröðinni. Mótið fer fram á Gramacho Pestana golfvellinum í Algarve og er heildarverðlaunaféð í mótinu 300 þúsund evrur, eða 2,4 milljónir króna.

Brasilía naumlega í undanúrslitin

Brasilía komst naumlega í undanúrslit álfukeppninnar í knattspyrnu í kvöld og mætir þar Þjóðverjum. Heimsmeistararnir gerðu í kvöld 2-2 jafntefli við Japana sem sitja eftir þrátt fyrir að vera jöfn að stigum. Mexíkó er í efsta sæti B-riðls með 7 stig.

Hannes með tvö mörk fyrir Viking

Hannes Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir Viking Stavanger í kvöld þegar liðið lagði Vard frá Haugesund, 3-0 í norsku bikarkeppninni í knattspyrnu. Viking mætir Lillestrøm í 4. umferð fimmtudaginn 30. júní. Mörk Hannesar komu á 24. mínútu og 83. mínútu. Bæði komu mörkin af stuttu færi, annað eftir hornspyrnu en hið síðara eftir klaufamistök varnarmanns.

Þjálfari Tyrkja tekur pokann sinn

Ersun Yanal, landsliðsþjálfari Tyrkja í knattspyrnu var látinn fjúka í kvöld þar sem Tyrkir hafa ekki staðið undir væntingum frá því hann tók við liðinu. Yanal var á 4 ára samning sem hann gerði í apríl 2004 en það voru vonbrigði með árangur liðsins í undankeppni HM sem fylltu mælinn.

Dregið í VISA-bikarkeppninni

Dregið var í hádeginu í VISA-bikarkeppni karla og kvenna í knattspyrnu á Hótel Loftleiðum. Í 16 liða úrslitum karla mætast eftirtalin lið 12. júlí:

Fer Heiðar til Wigan?

Heiðar Helguson gæti skrifað undir hjá enska knattspyrnufélaginu Wigan Athletic sem leikur í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð í fyrsta skipti í sögunni. Heiðar hittir stjóra Wigan, Paul Jewell, í dag eða á morgun til að ræða um launaliði. Talið er að Watford, félag Heiðars, hafi samþykkt einnar milljóna punda tilboð í sóknarmanninn.

Veigar skoraði gegn Skeid

Veigar Páll Gunnarsson skoraði eitt marka Stabæk sem sigraði Skeid 4-0 í norsku 1. deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Þetta var fimmta deildarmark Veigars fyrir Stabæk sem er í öðru sæti með 27 stig, þremur stigum á eftir Bryne sem hefur forystu í deildinni.

Djurgården efst í Svíþjóð

Djurgården náði í gærkvöldi fjögurra stiga forystu í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðið sigraði Helsingborg með fimm mörkum gegn engu. Kári Árnason tók út leikbann í liði Djurgården en Sölvi Geir Ottesen kom ekki við sögu. Djurgården hefur 23 stig en Malmö er í öðru sæti með 19 stig.

Segist hafa hafnað tilboði Chelsea

Kamerúnski knattspyrnumaðurinn Samuel Eto´o segist hafa hafnað girnilegu tilboði enska liðsins Chelsea og ákveðið í staðinn að framlengja samning sinn við Barcelona. Reiknað er með því að Eto´o skrifi undir samning til ársins 2010.

15 fatlaðir á sundmót í Þýskalandi

Íþróttasamband fatlaðra sendir 15 keppendur á opna þýska meistaramótið í sundi sem fram fer í Berlín 23.-27. júní næstkomandi. Einn nýliði er í hópnum Eyþór Þrastarson. Kristín Rós Hákonardóttir og Gunnar Örn Ólafsson eru einnig á meðal keppenda

Heil umferð hjá konunum

Heil umferð verður í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Breiðablik tekur á móti ÍA, Valur fær FH í heimsókn, Keflavík og Stjarnan eigast við og ÍBV mætir KR í Eyjum . Flautað verður til leiks klukkan 20.

Fyrrum KR-ingur æfir hjá Lakers

Körfuknattleiksmaðurinn Aaron Harper, sem lék með KR-ingum í Intersportdeildinni eftir áramót, er nú staddur í æfingabúðum NBA stórveldisins Los Angeles Lakers. Harper fluttist til Venesúela eftir að Íslandsmótinu lauk hér á landi og er óhætt að segja að Harper hafi staðið sig vel hjá liði sínu því hann var fyrir skömmu valinn verðmætasti leikmaðurinn.

Enska FA enn í vandræðum

Einkaritarinn sem stóð í framhjáhaldi með Sven-Göran Eriksson, lansliðsþjálfara enska knattspyrnulandsliðsins, Faria Alam, heldur áfram að hrista stoðir enska knattspyrnusambandsins. Hún hefur nú ásakað sambandið um ólöglega uppsögn og heldur því fram að hún hafi orðið fyrir barðinu á kynferðislegu áreiti hjá þáverandi yfirmanni sínum.

Jafnt hjá Þjóðverjum og Argentínu

Þýskaland og Argentína skildu jöfn, 2-2 í álfukeppninni í knattspyrnu nú í kvöld. Liðin eru bæði örugg í undanúrslit og eru jöfn að stigum í A-riðli en Þjóðverjar á toppnum með betri markatölu. Túnis náði 3. sætinu með því að leggja Ástrala 2-0 einnig í kvöld.

Sjá næstu 50 fréttir