Fleiri fréttir

Hóta hefndum

Bretar segjast hafa verið í fullum rétti með að aðla rithöfundinum Salman Rushdie á dögunum fyrir framlag hans til bókmennta. Múslimar víða um heim hafa tekið því sem móðgun og hótar næstráðandi hjá al Kaída hefndum.

Bandaríkin vilja sexmenningana í Líbíu úr haldi

Bandaríkin brýna það fyrir Líbíu að leyfa heilbrigðisstarfsfólkinu að halda heim á leið strax. Í dag var dauðadómur yfir fimm búlgörskum hjúkrunarfræðingum og einum lækni frá Palestínu staðfestur. Þau hafa verið í haldi síðan 1999, og er þeim gefið að sök að hafa viljandi smitað 438 börn af HIV-veirunni með sýktu blóði.

Óvenju há tíðni dauðsfalla í vinnuslysum á Ítalíu

435 hafa látist í vinnuslysum á Ítalíu á þessu ári. Rannsóknir sýna að tíðni vinnuslysa á Ítalíu er meira en 40% hærri en í Frakklandi, tvöfalt hærri en í Þýskalandi og sjöfalt hærri en í Bretlandi. Lögreglan telur að stór hluti þeirra sem látast séu ólöglegir innflytjendur sem vinna við óviðunandi öryggisaðstæður.

Raðmorðingi dæmdur til dauða í Los Angeles

Pítsusendillinn Chester Turner hlaut í dag dauðadóm fyrir að myrða tíu konur í Los Angeles á árunum 1987-1998. Ein konan var ófrísk og komin sex og hálfan mánuð á leið og var hann einnig dæmdur fyrir það. Konurnar sem urðu Turner að bráð voru flestar vændiskonur eða fíkniefnaneytendur.

Dæmdir í lífstíðarfangelsi

Mennirnir fjórir sem voru sakfelldir fyrir aðild sína að sprengjutilræði í júlí 2005 voru í dag dæmdir í lífstíðarfangelsi. Þeir geta þó sótt um reynslulausn eftir 40 ár.

Aukið verðmæti þorskútflutnings í Noregi

Verðmæti útflutnings á ferskum þorski frá Noregi jókst um 15% á fyrsta árshelmingi 2007 og nam 3,3 milljörðum íslenskra króna. Útflutningur hefur aukist til markaða í Evrópusambandslöndunum og þá einkum til Danmerkur og Portúgal. Verðmæti útflutning á frystum þorski jókst um 48% og nam 2,7 milljörðum íslenskra króna.

Átta létust í sprengingu í Alsír

Sprenging varð átta manns að bana í herstöð alsírska hersins í morgun. Stöðin er 120 kílómetra frá höfuðborginni en enginn hefur ennþá lýst yfir ábyrgð á sprengingunni. Hópur tengdur al-Kaída hefur áður lýst yfir ábyrgð á svipuðum tilræðum í landinu.

Tveir milljarðar músa gera innrás í Kína

Bæjarfélög í kringum stórt vatn í miðhluta Kína hafa þurft að kljást við tvo milljarða músa eftir að flóð neyddu þær til þess að yfirgefa eyjur sem þær voru á í vatninu. Smellið á „Spila“ til þess að sjá myndir frá músaflóðinu.

Féll í 14 metra djúpa holu

18 ára drengur er talinn hafa látið lífið í Mexíkóborg í gær þegar risastór hola opnaðist í götunni sem hann var í og gleypti hann, bíl á götunni og framhlið á húsi. Holan er 14 metra djúp og um 15 metrar að þvermáli. Smellið á „Spila“ til þess að sjá myndir af holunni.

Ný hótel rísa í Moskvu á hverjum degi

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Moskvu síðustu árin og hafa hótel verið rifin til grunna og ný byggð á rúmu ári. Uppbyggingunni stýrir borgarstjórinn með harðri hendi og fylgir framkvæmdum eftir á hverjum laugardegi.

Umdeildar virkjanir í Brasilíu

Brasilíska ríkisstjórnin hefur gefur vilyrði fyrir byggingu tveggja vatnsfallsvirkjana í Madeira fljótinu í Brasilíu. Fljótið er stærsta þverá Amason fljótsins. Virkjunaráformin eru harðlega gagnrýnd vegna mögulegra umhverfisáhrifa við fljótið.

20 manns verða líflátnir á næstu vikum í Íran

Tuttugu manns verða hengdir í Íran fyrir ýmsa glæpi á næstunni. Eftir herferð í landinu í sumar gegn siðferðisglæpum, hefur lögreglan handtekið tugi fíkniefnaneytenda, smyglara og aðra glæpamenn. „Þeir tuttugu sem verða hengdir voru handteknir fyrir nauðganir, hjúskaparbrot og fleira." Þetta segir talsmaður dómarastéttar í landinu.

Ólíklegt að ökumaður jeppans í Glasgow lifi af

Samkvæmt læknum sem annast manninn sem keyrði jeppa inn í flugstöðina í Glasgow, þykir ólíklegt að hann haldi lífi. „Maðurinn hlaut 3. stigs bruna á búk og útlimum og ólíklegt er að við náum að bjarga honum," sagði einn læknanna.

Málverkum að verðmæti milljóna dala stolið í Moskvu

Þjófar í Moskvu stálu 13 málverkum, sem metin eru á margar milljónir dala. Rússneskur ellilífeyrisþegi hafði geymt verkin í óvarinni, tómri íbúð sem að hann á. Kamo Manukyan, fyrrverandi dómari, átti verkin. Þau eru eftir fræga listamenn á borð við Georges-Pierre Seurat, Ivan Aivazovsky og Alexej Jawlenski.

Klerkurinn drepinn í áhlaupinu á Rauðu moskuna

Yfirvöld í Islamabad í Pakistan segjast nú hafa drepið klerkinn Abdul Rashid Ghazi í áhlaupinu á Rauðu moskuna sem hófst á miðnætti. Hann er æðsti trúarleiðtogi þeirra vígamanna sem neituðu að gefast upp. Hann hafði lokað sig inni í einu af herbergjunum í kjallara nálægs bænaskóla. Þar var líka fjöldi kvenna og barna sem vígamennirnir notuðu sem mannlega skildi.

Heill loðfílsungi fannst í Síberíu

Leifar af ungviði loðfíls sem fundust í sífreri í Síberíu á dögunum eru líklega þær heilustu sem fundist hafa af þessari útdauðu skepnu. Talið er að leifarnar séu um 10,000 ára gamlar.

2 látnir og 4 slasaðir eftir flugslys í Flórída

Lítil Cessna 310 flugvél hrapaði á tvö heimili í Sanford, Flórída í morgun. Samkvæmt Cleo Cohen, talsmanni lögreglunnar, eru að minnsta kosti tveir látnir og fjórir alvarlega slasaðir og voru þeir fluttir með tveimur þyrlum á nærliggjandi sjúkrahús. Einnig er einn slökkviliðsmaður til aðhlynningar vegna brjóstverkja.

Íbúafjöldasprengja yfirvofandi í Kaliforníu

Íbúafjöldasprengja í Kaliforníu er yfirvofandi samkvæmt spá fjármálastofnunar ríkisins sem birtist á heimasíðu L.A. Times í dag. Á næstu 50 árum mun fólksfjöldinn aukast um 75%, sem þýðir fólksfjöldinn í ríkinu mun nálgast 60 milljóna markið.

Bandaríkin senda þriðja flugmóðurskipið til Persaflóa

Bandaríkin hafa sent þriðja flugmóðurskipið, Enterprise, til Persaflóans, á svæði nálægt írönsku hafsvæði. Sjóherinn sagði frá þessu í tilkynningu í morgun. „Enterprise er mótvægi við þær truflandi aðgerðir sem sum lönd á svæðinu standa fyrir. Einnig styður það við bakið á hermönnum okkar í Írak og Afganistan.“ sagði í tilkynningunni.

60 handteknir í aðgerðum gegn mafíunni

Lögreglan á suðurhluta Ítalíu handtók í dag fleiri en 60 manns í aðgerðum gegn mafíunni á svæðinu en hún kallast 'Ndrangheta. Meðlimir hennar eru grunaðir um smygl á eiturlyfjum, fólki og tryggingasvindl. 'Ndrangheta er staðsett í Kalabríu, rétt suður af Napólí, og er orðin stærri en Cosa Nostra mafían sem hefur aðsetur á Sikiley.

Þúsundir fluttar á brott vegna goshættu

Þúsundir Indónesa hafa þurft að flýja heimili sín vegna goshættu í eldfjallinu Mount Gamkonora. Fjallið spýr þegar út ösku og eldi allt upp í fjögur þúsund metra hæð. Smellið á „Spila“ hnappinn til þess að sjá myndir þaðan.

11 látast í sprengjuárás í Afganistan

Sjálfsmorðssprengjumaður gerði í dag árás á hersveitir NATO í suðurhluta Afganistan og varð 11 almennum borgurum að bana. Þó nokkur börn voru á meðal þeirra látnu. Talið er að allt að 30 manns hafi særst í árásinni. Talsmaður NATO í Kabúl sagði að sjö hermenn hefðu særst í henni.

Bretar bregðast ókvæða við neitun á framsali

Rússar neituðu því formlega í morgun að framselja Andrei Lugovoy, fyrrum njósnara, og manninn sem er grunaður um að hafa myrt Alexander Litvinenko. Bretar brugðust ókvæða viða og segja svar Rússa við framsalsbeiðninni „óásættanlegt.“ Bretar hafa ávallt haldið því fram að litið sé á morðið á Litvinenko sem mikilvægt mál.

Snjór í fyrsta sinn í 90 ár í Buenos Aires

Það eru nærri nítíu ár síðan síðast snjóaði í Bueons Aires, höfuðborg Argentínu, en í gær var komin hvít dula yfir borgina og svæðið í kring. Óvenjukalt er þar miðað við árstíma. Veðurstofa Argentínu sagði þetta í fyrsta sinn síðan 22. júní árið 1918 sem snjó festi. Smellið á „Spila“ hnappinn til þess að sjá myndir þaðan.

Dreamliner þotan kynnt

Boeing flugvélaverksmiðjurnar í Bandaríkjunum kynntu í gær fyrstu nýju þotuna sína í 12 ár - 787 Dreamliner kallast hún. Vélin er að mestu gerð úr klefnistrefjum og sögð umhverfisvænni en aðrar þotur. Icelandair hefur pantað 4 slíkar.

Fordæma matreiðslumenn

Dýravinir hafa fordæmt matreiðslumeistara í Taívan sem hafa tekið upp á því að djúpsteikja vatnakarfa og bera fram lifandi. Gestir gæða sér á honum um leið og hausinn á fisknum kippist til. Herramanns matur segja sumir, villimennska telja aðrir.

Álver fylgi ódýrri orku

Forstjóri álfyrirtækisins Alcoa segir nauðsynlegt að byggja áttatíu ný álver víða um heim næstu árin til að svara aukinni eftirspurn eftir áli. Hann spáir því að álverum víða í Evrópu og Norður-Ameríu verði lokað og önnur byggð á Íslandi og annars staðar þar sem ódýra orku sé að fá.

Rannsóknarleiðangri til Seres og Vesta frestað

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, Nasa, hefur slegið ferð könnunarfarsins Dawn á frest. Dawn átti í þessum mánuði að leggja af stað í rannsóknarleiðangur til smástirnisins Vesta og dvergplánetunnar Seres og kanna byggingu og efnasamsetningu þeirra.

Eitraðar brennisteinsgufur taldar hafa banað sex skólabörnum

Talið er að eitraðar brennisteinsgufur frá indónesísku eldfjalli hafi orðið sex skólabörnum að bana. Börnin voru í hópi 20 skólabarna frá höfuðborg Indónesíu, Djakarta, sem höfðu klifrað á brún eldgígsins en það er yfirleitt ekki hægt samkvæmt yfirvöldum.

Samtals 29 ára fangelsi fyrir frelsissviptingu og misþyrmingar

Þrennt var dæmt í samtals 29 ára fangelsi fyrir að svipta annan mann frelsinu í fjóra mánuði áður en hann lést. Englendingurinn Kevin Davies, 29 ára, var ítrekað laminn, brenndur og niðurlægður af David Lehane, Amanda Baggus og Scott Andrews.

Þriðja nautahlaupið fór vel fram

Þriðja nautahlaupið fór fram í bænum Pamplona á Spáni í morgun. Enginn meiddist alvarlega en um sex manns hafa þurft að leita læknis eftir að hafa komist í návígi við nautin. Smellið á „Spila“ hnappinn hér að neðan til þess að sjá myndir frá hlaupinu.

Powell reyndi að telja Bush ofan af Íraksstríði

Colin Powell, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt frá því að hann reyndi að telja George W. Bush, bandaríkjaforseta, ofan af því að ráðast inn í Írak. Powell segist þá einnig telja að bandaríski herinn geti ekki komið á stöðugleika í landinu.

Viðræður hafnar við vígamenn í Rauðu moskunni

Pervez Musharraf, forseti Pakistan, hefur skipað samninganefnd til þess að ræða við vígamennina í Rauðu moskunni. Nefndin var skipuð eftir samráðsfund með áhrifamiklum klerkum sem réðu honum gegn því að ráðast inn í moskuna. Umsátrið um moskuna hefur nú staðið yfir í heila viku.

Ofnæmisviðbrögð vegna katta algeng

Rannsókn vísindamanna við The Imperial College í Lundúnum sýnir að ekki aðeins þeir sem hafa ofnæmi fyrir köttum sýni við þeim ofnæmisviðbrögð sem líkjast astma á byrjunarstigi.

Eiga enn eftir að finna eftirmann Rato

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins segjast ekki tilbúnir að tilnefna eftirmann Rodrigo de Rato, forseta Alþjóðagjaldeyrissjóðins (IMF) en þeir funda um málið á morgun. Rato er spænskur og hefur gegnt embættinu síðan 2004 en hann tilkynnti á fimmtudaginn að hann ætlaði að segja af sér vegna persónulegra ástæðna.

Stígvél rokseljast á Hróarskeldu

keyptu gestir á Hróarskeldur hátíðinni í Danmörku sér stígvél um helgina og talið að aldrei hafi selst jafn mörg slík á hátíðinni síðan hún var haldin fyrst 1971. Rignt hefur á tónleikagesti og þeir því þurft að vaða eðju milli sviða til að berja hljómsveitir augu og hlýða á þær.

Ráðstefna fjölburaforeldra í Chicago

Um helgina komu bandarískir fjölburaforeldrar saman með börnum sínum á árlegri ráðstefnu í Chicago. Tvíburum var þó ekki boðið - aðeins þríburum hið minnsta.

Fjöldi manns í gleðigöngu samkynhneigðra

Talið er að um sex hundruð þúsund manns hafi tekið þátt í árlegri gleðigöngu samkynhneigðra í Köln í Þýskalandi. Gangan þar er ein sú fjölmennasta í Evrópu og rekur sögu sína aftur til níunda áratugar síðustu aldar.

Ný undur valin

Þau eru mikilfengleg nýju undrin sjö sem voru kynnt í gær sem þau mikilfenglegustu í gjörvallri veröldinni. Kosið var milli fjölmargra undrastaða á netinu í tvö ár. Niðurstaðan vakti athygli þegar hún var kynnt í Lissabon í Portúgal í gærkvöldi og voru stórstjörnur víða að fengnar til að kynna undrin.

Norska ríkið braut gegn börnum

Norska ríkið braut á rétti barna til að fá tilhlýðilega menntun með kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum í grunnskólum. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasborg. Siðmennt á Íslandi segir að dómurinn renni stoðum undir gagnrýni félagsins hér á landi.

Opinberir starfsmenn brjóta lög um barneignir

Yfirvöld í Hunansýslu í Kína segja að á árunum 200-2005 hafi næstum því tvö þúsund opinberir starfsmenni brotið bannið við því að eignast fleiri en eitt barn. Einn starfsmannanna átti fjögur börn með fjórum hjákonum sínum. Banninu er ætlað að draga úr fólksfjölgun í Kína, þar sem íbúar eru nú þegar á annan milljarð.

Ný undur veraldar valin

Þau eru tignarleg nýju undrin sjö sem valin voru þau mikifenglegustu í veröldinni gjörvallri í netkosningu sem lauk í gær. Úrslitin voru kunngjörð í gærkvöldi.

130 manns hið minnsta féllu

Að minnst kosti 130 manns féllu og 240 særðust í sjálfsvígssprengjuárás í Amirli í Norður-Írak í gær. Árásin eru sú mannskæðasta í Írak í 3 mánuði.

Sjá næstu 50 fréttir