Fleiri fréttir

Alan Johnston þakkar vestrænum fjölmiðlum

Breska fréttamanninum Alan Johnston var sleppt í morgun en hann hafði verið í haldi mannræningja á Gaza í 114 daga. Hann hélt fréttamannafund í Jerúsalem í dag og sagði það stórkostlega tilfinningu að vera frjáls á ný.

Breska lögreglan finnur sjálfsmorðsbréf

Breska lögreglan hefur fundið sjálfsmorðsbréf í tengslum handtöku tveggja manna sem lögðu sprengjuhlöðnum bíl við flugvöllinn í Glasgow síðastliðinn laugardag, að því er CNN fréttastofan greinir frá.

Yfir fimm hundruð stúdentar hafa gefist upp

Meira en fimm hundruð róttækir múslímskir stúdentar hafa gefist upp eftir átök við Rauðu moskuna (Lal Masjid) í Islamabad, höfuðborg Pakistans, sem hófust í gær. Á milli 2.000 - 5.000 stúdentar eru þó enn inni í moskunni sem umkringd er af hersveitum og lögreglu í Pakistan.

Íhuga að draga úr viðbúnaði

Öryggissérfræðingar í Bretlandi eru að íhuga að lækka viðbúnaðarstigið í landinu um eitt stig eftir þær fjölmörgu handtökur sem farið hafa fram undanfarna daga. Ef það gerist verður slakað örlítið á öryggi í landinu.

MEND aflýsir vopnahléi

Nígeríski uppreisnarhópurinn MEND (Movement for the Emancipation of the Niger Delta) hefur aflýst mánaðarlöngu vopnahléi. Hópurinn ber ábyrgð á flestum þeirra árása sem eru gerðar við ósa Níger-árinnar en þar er gríðarlegt magn af olíu að finna.

Atlantis komin á endapunkt

Atlantis geimferjan er loksins komin heim til sín í Flórída. Hún þurfti að lenda í Kaliforníu eftir fjórtán daga leiðangur til Alþjóðageimstöðvarinnar vegna slæmra veðurskilyrða í heimabæ sínum. Á ferð sinni yfir Bandaríkin var skutlan ferjuð á baki 747 þotu.

Giuliani vel settur fjárhagslega

Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, hefur aflað mest fjár allra frambjóðenda í forkosningum repúblikana fyrir bandarísku forsetakosningarnar á næsta ári. Giuliani hefur safnað 17 milljónum dala sem samsvarar ríflega einum milljarði íslenskra króna síðastliðna þrjá mánuði, að sögn talsmanna framboðs hans.

Dautt kameldýr í Svíþjóð

Lögreglan í Svíþjóð klórar sér í hausnum og spyr hvaða erindi kameldýr hafI átt til Svíþjóðar. Hræ af kameldýri fannst við vegkantinn á hraðbraut nærri Karlskrona í suðausturhluta Svíþjóðar í gær.

Átök í Íslamabad

Minnst 9 hafa týnt lífi og rúmlega 80 særst í átökum lögreglu við herská námsmenn nærri Rauðu moskunni í Íslamabad, höfuðborg Pakistans, í dag. Samið var um vopnahlé eftir að stríðandi fylkingar höfðu skipst á skotum í margar klukkustundir.

Hrökklaðist úr embætti

Varnarmálaráðherra Japans hrökklaðist úr embætti í dag vegna umdeildra ummæla. Hann móðgaði marga landa sína með því að gefa í skyn að kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á Hiroshima og Nagasaki 1945 hafi verið réttlætanlegar. Ummæli ráðherrans gátu vart fallið á verri tíma fyrir Japansstjórn, skömmu fyrir kosningar.

Læknar grunaðir

Ættingjar og samverkamenn læknis frá Jórdaníu eiga bágt með að trúa að hann hafi skipulagt hryðjuverkaárásina á Glasgow-flugvelli um síðustu helgi eða komið fyrir bílsprengjum í miðborg Lundúna. Athygli vekur að sjö þeirra sem nú eru í haldi lögreglu vegna málsins eru læknar eða læknanemar sem hafa starfað á Bretlandseyjum.

Brown vill flytja meira vald til þingsins

Gordon Brown lagði, í fyrstu ræðu sinni sem forsætisráðherra í Breska þinginu í dag, til að þingið fengi aukið vald í viðamiklum málum. Brown lofaði því að þingið fengi að hafa síðasta orðið í mögulegum ákvörðunum um stríð og einnig meira vægi í alþjóðlegum samningum.

Tveir menn handteknir í Blackburn

Lögregla í Norðvestur Englandi hefur handtekið tvo menn í Blackburn í tengslum við rannsókn á sprengjutilræðunum á Bretlandseyjum um síðustu helgi. Sjö til viðbótar eru í haldi lögreglu á Englandi og í Skotlandi vegna málsins, fimm þeirra eru læknar.

Sveðjur ódýrari vegna minnkandi ofbeldis

Verð á sveðjum á sumum svæðum í Nígeríu hefur hríðlækkað í kjölfar kosninga í apríl, vegna minnkandi eftirspurnar frá vígamönnum á vegum stjórnmálamanna.

Níu látnir í átökum við Rauðu moskuna í Pakistan

Að minnst kosti níu manns, stúdentar hermenn, blaðamaður og borgarar hafa látist í átökum sem staðið hafa í allan dag við Rauðu moskuna í Islamabad í Pakistan. Um 150 manns særðust, en lögregla hefur meðal annars beitt táragasi á hóp róttækra íslamskra stúdenta og klerka Rauðu moskunnar.

Ákvörðun Bandaríkjaforseta umdeild

Bush Bandaríkjaforseti náðaði í gær að hluta Lewis "Scooter" Libby, fyrrverandi aðstoðamann Cheneys, varaforseta. Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa fordæmt ákvörðun forsetans og segja hann misnota vald sitt.

Tveir læknar í Ástralíu handteknir

Tveir læknar voru í nótt og í morgun hnepptir í varðhald í Ástralíu í tengslum við rannsókn á sprengjutilræðunum á Bretlandseyjum um helgina. Sjö til viðbótar eru í haldi í Bretlandi - fimm þeirra eru sagðir læknar.

Húsið í Lystrup sprengt

Sprengjusérfræðingur í Danmörku segir að hús í Lystrup hafi verið sprengt í loft upp í fyrrinótt en það hafi viðvaningur gert. Engan sakaði þegar einbýlishúsið sprakk. Kraftur sprengingarinnar var svo mikill að helmingur af þaki hússins féll saman og veggir eyðilögðust. Nærliggjandi hús skemmdust ekki.

Málsókn á hendur Google

Breski viðskiptajöfurinn Brian Retkin hefur farið í mál við upplýsingaveituna Google. Hann heldur því fram að leitarvélin beini fólki á verulega niðurlægjandi og eyðileggjandi efni um netfyrirtæki hans Dotworlds, meðal annars eru þar fullyrðingar um að Retkin sé svikull.

Gæti eignast hálfsystkini sín

Kanadísk kona hefur fryst egg úr sjálfri sér svo að dóttir hennar, sem er með sérstakan erfðagalla og er ófær um að eignast börn, geti notað þau og eignast börn síðar á lífsleiðinni. Ef stelpan ákveður að nota eggin mun hún í raun eignast hálfbróður sinn eða systur.

Talið að al-Kaída beri ábyrgð á árásinni í Yemen

Talið er að al-Kaída samtökin beri ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárásinni sem framin var við hið forna Queen og Sheba musteri í héraðinu Marib í Yemen í gær. Níu létust í árásinni þar af sjö spænskir ferðamenn. Auk þess særðust sex til viðbótar.

Pakki sprengdur við Hammersmith

Breska lögreglan sprengdi í morgun upp grunsamlegan pakka sem hafði fundist við Hammersmith lestarstöðina í vesturhluta Lundúna. Meira er ekki vitað um málið að svo stöddu.

Barist í mosku í Pakistan

Hersveitir í höfuðborg Pakistans, Islamabad, gerðu í morgun áhlaup á mosku og trúarskóla í borginni. Þær beittu táragási og vitni sögðust hafa heyrt skothríð í nágrenni moskunnar. Stjórnvöld hafa mánuðum saman átt í útistöðum við klerkana þar og nemendur þeirra.

F-14 þotur tættar í sundur

Á Davis-Monthan flugstöðinni í Tucson, Arizona, er flugvélakirkjugarður. Þar eru F-14 þotur tættar í sundur. Tilgangurinn er að halda flugvélunum, sem einnig eru kallaðar Tomcats, frá Írönum og öðrum ríkjum sem ógna öryggi Bandaríkjamanna.

Áttundi maðurinn handtekinn

Lögreglan í Bretlandi hefur handtekið áttunda manninn í tengslum við sprengjufyrirætlanir í Glasgow og London. Maðurinn var handtekinn utan Bretlands en ekki hefur fengið gefist upp í hvaða landi.

Illa farið með kameldýr

Lögreglan í Svíþjóð rannsakar nú hvaða erindi kameldýr átti á hraðbraut þar í landi í dag. Tilkynning barst um að hræ af dýrinu hefði fundist við hraðbraut E22 nálægt Karlskrona í suðaustur Svíþjóð.

Veiðar á undan viðræðum

Það fór vel á með Bush Bandaríkjaforseta og Pútín forseta Rússlands þar sem þeir skelltu sér í veiðiferð nærri sumardvalarstað Bush-fjölskyldunnar í Main-ríki í Bandaríkjunum í dag. Leiðtogarnir voru þar umkringdir lífvörðum en létu það ekki aftra sér í að reyna að landa þeim stóra.

Læknar meðal grunaðra

Læknir menntaður í Írak og annar frá Jórdaníu eru meðal sjömenninganna sem breska lögreglan hefur í haldi vegna hryðjuverkaárásar í Skotlandi á laugardaginn og bílsprengna sem gerðar voru óvirkar í Lundúnum á föstudaginn. Faðir jórandska læknisins, sem hefur unnið á tveimur sjúkrahúsum á Englandi, segist viss um að sonur sinn tengist ekki hryðjuverkum.

Lystrupsprengjan gerð af viðvaningum

Helstu sprengjusérfræðingar Danmörku segja að sprengingin í Lystrup hafi verið gerð af viðvaningum. Jørgen Schneiders, danskur sprengjusérfræðingur, telur að sprengjan hafi verið gerð úr krýsantema, sem er jurtategund. Hann telur ótrúlegt að bensín hafi verið í sprengjunni.

Lieberman vill fjölga öryggismyndavélum

Joe Lieberman öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, segist vilja fjölga öryggismyndavélum í landinu. Hann vill taka Breta til fyrirmyndar í þeim efnum og telur að öryggismyndavélar, sem dreift er mjög víða um helstu borgir í Bretlandi, hafi átt þátt í því að hafa uppi á grunuðum í eftir tilraunir til hryðjuverka þar um helgina.

Átta látnir í sprengingu í Yemen

Maður sprengdi sig í loft upp í bíl á ferðamannastað nærri fornu musteri Yemen í dag. Átta létu lífið, sex spænskir ferðamenn og tveir Yemenar. Sjö spánverjar til viðbótar særðust í árásinni.

Óttast stórbrotin hryðjuverk

Leynileg bandarísk lögregluskýrsla sem er í undirbúningi fyrir Heimavarnarráðið varar því að al Qaeda samtökin séu að skipuleggja stórbrotin hryðjuverk nú í sumar. Háttsettur embættismaður með aðgang að skýrslunni greinir frá þessu við ABC fréttastofuna. Hann segir hryðjuverkin sem lögreglan óttast vera í anda þeirra sem voru framin 11 september.

Einn grunaðra í Glasgow er íraskur læknir

Svæði í kringum Royal Alexandra spítalann í Paisley hverfinu í Glasgow var rýmt í dag og sprengja látin springa þar undir stjórn lögreglu, samkvæmt fréttastofu Sky News. Hverfið er skammt frá flugvellinum í Glasgow. Að sögn fréttastöðvarinnar er einn hinna handteknu læknir frá Írak, Bilal Abdulla.

1.600 Íslendingar á leið á Hróaskelduhátíðina

Um 45.000 manns eru nú komnir á Hróaskelduhátíðina. Svæðið var opnað á sunnudagskvöldið en hátíðin nær hámarki næstu helgi. 1.600 íslendingar hafa keypt miða á hátíðina og verða samkvæmt upplýsingum á heimasíðu hennar 2 % gesta.

Berezovsky ákærður fyrir að hvetja til valdaráns

Saksóknarar í Rússlandi hafa ákært rússneska auðkýfinginn Boris Berezovsky fyrir að hvetja til valdaráns. Lögfræðingur hans skýrði frá þessu í dag. Ákæran segir að hann hafi ætlað sér að ræna völdum með vopnavaldi. Berezovsky hefur búið í Bretlandi síðan hann flúði Rússland fyrir rúmum sex árum síðan.

Rigningarmet slegið í Danmörku

Rigningarmet var slegið í Danmörku í síðasta mánuði. Að meðaltali rignir um 55 millimetra í júní en í ár var magnið 124 millimetrar. Ekki hefur rignt jafn mikið á sama tíma síðan árið 1946.

Hamas handtaka talsmann Hers íslam

Hamas samtökin hafa handtekið talsmann hópsins Her íslam sem heldur fréttamanninum Alan Johnston í gíslingu. Hugsanlegt er að Hamas muni notfæra sér það til þess vinna að lausn Johnstons. Samtökin hafa krafist þess að hópurinn láti hann lausann.

Maður lést eftir að hafa stokkið niður af 20 metra hárri brú

Tuttugu og tveggja ára gamall maður hoppaði ofan af 20 metra hárri brú í Gautaborg aðfararnótt sunnudags og lést í kjölfarið. Rokktónleikar voru við annan enda Göta - Älv brúarinnar og voru nokkrir sem léku sér að því að stökkva niður af brúnni á meðan á þeim stóð. Maðurinn ætlaði ásamt félaga sínum að hoppa niður en félaginn hætti við á síðustu stundu.

Lögregla sótti Wiltord vegna umferðarbrota

Lögregla sótti í morgun franska framherjann Sylvain Wiltord þar sem hann var að hefja æfingu hjá félagi sínu Olympique Lyon í morgun. Lögreglan vildi yfirheyra leikmanninn í tengslum við umferðarlagabrot. Hann fékk að yfirgefa lögreglustöðina og fara á æfingu eftir að hafa svarað spurningum lögreglu. Honum var svo gert að mæta aftur til lögreglu eftir nokkra mánuði.

Leiðtogar Afríku funda í Accra

Leiðtogafundur Afríkusambandsins fer fram í Accra, höfuðborg Ghana, í dag. í sambandinu eru alls 53 ríki. Yfirskrift fundarins eru viðræður um aukna samtvinnun ríkisstjórna Afríku og stærra hlutverk sambandsins. Hugmyndin um Bandaríki Afríku er ekki ný af nálinni en forseti Líbíu, Muammar Gadafi, hvatti leiðtoga Afríkuríkja nýverið til þess að hugsa nánar um hana.

Hús sprakk í Danmörku

Kröftug sprenging jafnaði íbúðarhús í Lystrup við Árósa við jörðu rétt eftir miðnætti í gær. Húsið var tómt og ekki er vitað hvað olli sprengingunni.

Segja Írana vita af hernaðaraðgerðum í Írak

Háttsettir einstaklingar innan írönsku stjórnarinnar vita af hernaðaraðgerðum Byltingarvarða landsins í Írak. Talsmenn bandaríska hersins fullyrtu þetta í morgun. Bandaríski herinn hefur löngum ásakað Byltingarverðina, sem eru sérsveitir íranska hersins, um að hvetja til og auka á ofbeldi í Írak.

Sjá næstu 50 fréttir