Fleiri fréttir

Skuldar 6,4 milljónir í dagsektir vegna Baldursgötu

Dagsektir hrannast upp hjá Baldursgötu ehf. vegna húss við Baldursgötu 32. Íbúar við Þórsgötu krefjast þess að Reykjavíkurborg grípi til aðgerða. Verstu mistök sem ég hef gert eru að kaupa þessi hús, segir eigandinn.

Hryssa kastaði tveimur sprækum folöldum

„Þetta var reglulega óvænt,“ segir Guðjón Antonsson á Hvolsvelli um hryssu sína sem kastaði tveimur folöldum aðfaranótt mánudags. Hryssan er ásamt fleiri hrossum á Skeggjastöðum í Vestur-Landeyjum. Sjaldgæft er að hryssur eignist tvíburafolöld.

Upphæð bóta til fórnarlamba ofbeldis óbreytt í 15 ár

Bætur úr ríkissjóði til þolenda ofbeldisbrota hafa verið óbreyttar frá árinu 1996 og eru langtum lægri en bætur í nágrannalöndunum. Um 130 til 160 milljónir króna eru greiddar úr ríkissjóði ár hvert til þolenda ofbeldisbrota. Frá 2006 hafa borist um 400 umsóknir á ári um bætur. Um 25 prósentum umsóknanna er hafnað.

Ágústi hlíft gegn þátttöku í Exeter-fléttunni

Dómsmál Daginn eftir að MP banki hótaði að gjaldfella lán til félags í eigu Ágústs Sindra Karlssonar, nánasta viðskiptafélaga Margeirs Péturssonar, fékk sama félag 50 milljóna lán frá bankanum sem framlag í Exeter-fléttuna svokölluðu. Tölvupóstsamskipti benda til þess að Ágúst Sindri hafi sloppið við gjaldfellinguna gegn þátttöku í fléttunni.

Leggja til algjört bann við lundaveiðum

Náttúrustofa Suðurlands leggur til algjört bann við lundaveiði í Vestmannaeyjum í ár og að sömuleiðis verði bannað að tína svartfuglsegg í eyjunum í ár.

Lá við strandi við Straumsvík

Stór seglskúta, með þremur íslendingum um borð, átti ekki nema um það bil tuttugu metra ófarna upp í grýtta fjöruna í grennd við Straumsvík í gærkvöldi, þegar skipverjum tókst að koma vél hennar aftur í gang og beina henni frá landi. Hana hafði þá rekið hratt að landi eftir að vélin bilaði, seglabúnaður var ekki um borð, og ankerið náði ekki botnfestu.

Atvinnuflugmenn til sáttasemjara

Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair til Ríkissáttasemjara. Á heimasíðu félagsins segir að samningar hafi verið lausir frá því í lok janúar og að síðan þá hafi lítið sem ekkert þokast í samkomulagsátt.

Segir grunnlögin vernda brotamenn

Arnar Jensson, tengifulltrúi Íslands hjá Europol, hefur, í eigin nafni en ekki sem fulltrúi yfirvalda, sent inn erindi til stjórnlagaráðs um að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verði tekið til sérstakrar skoðunar. Ástæðan er mat Arnars um að eignarréttur njóti meiri lagaverndar á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Eins og ákvæðið er núna kemur það í veg fyrir að hægt sé að setja í lög alþjóðlega viðurkennd úrræði sem auðvelda yfirvöldum að ná til baka ólögmætum ávinningi af brotastarfsemi.

Útboð byggingar nýs fangelsis að bresta á

Útboð byggingar nýs fangelsis er að bresta á, að sögn Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Málið er á dagskrá ríkisstjórnarinnar næstkomandi föstudag.

Banninu fagnað innan íþróttahreyfingarinnar

Framtak Skautafélagsins Bjarnarins í baráttu gegn munntóbaksnotkun er mikið fagnaðarefni, segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).

Fjögur aðildarfélög BSRB náð samningi

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir viðræður vegna kjarasamninga ganga vel og hafa fjögur aðildarfélög bandalagsins náð samkomulagi við viðsemjendur sína á síðustu dögum.

Stal skarti og snyrtivörum

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært konu á fertugsaldri fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot.

VG forðast ekki að greiða virðisaukaskatt

Samfylkingin áréttir að flokkurinn hafi keypt þjónustu af fjölmörgum aðilum í hótel- og veitingahúsarekstri á síðustu árum. Í tilkynningu frá flokknum segir að Samfylkingin forðist ekki á nokkurn hátt að nýta þjónustu aðila sem tilheyri Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF).

Fyrirtækjasöfnunin byrjar vel

Fjársöfnun meðal íslenskra fyrirtækja vegna eldgossins í Grímsvötnum fer vel af stað. Þegar hafa safnast 20 til 35 milljónir króna í sjóð sem settur var á fót til að veita bændum og starfsemi á gossvæðinu fjárhagslegan stuðning.

Brugðust hratt við ástandinu

„Tryggingastofnun á í samstarfi við fjölmarga aðila vegna endurhæfingar. Þessir aðilar hafa tekið verulega vel við sér og brugðist hratt við ástandinu og það ber að þakka.“

Flestir keppa á dísilbílum

Sigurrós Pétursdóttir hrósaði sigri í árlegri sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu sem fór fram í gær. Takmarkið var að eyða sem minnstu eldsneyti á 142 kílómetra leið og tóku 25 bílar þátt í keppninni að þessu sinni, þar af 20 dísilbílar.

Fall sparisjóðanna verði rannsakað

Allsherjarnefnd Alþingis hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að fram fari rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi skipi þriggja manna rannsóknarnefnd til að vinna þessa vinnu. Nefndinni er ætlað að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um starfsemi sparisjóða, eftirlit með henni og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Stúlkan sem lýst var eftir fundin

Fimmtán ára gömul stúlka sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í nótt er komin fram. Síðast var vitað um ferðir hennar á Laugarvegi í Reykjavík í gær.

Skylda að skila öllu klinkinu

Samkvæmt reglum um gjaldeyrismál ber okkur skylda til að skila öllum ferðagjaldeyri innan tveggja vikna, þar með talið erlendri smámynt. Vandamálið er hins vegar að íslensk fjármálafyrirtæki taka ekki við erlendu klinki.

Stjórnarliðar óttast málþóf

Stjórnarliðar óttast að sjálfstæðismenn ætli að beita málþófi til að koma í veg fyrir að kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga. Forseti Alþingis ætlar að funda með þingflokksformönnum á morgun vegna málsins.

Sérstakur saksóknari: Þetta er nokkuð stór rannsókn

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, gefur ekki upp hvort fleiri verði handteknir vegna rannsóknar embættisins á málefnum Vátryggingafélags Íslands. Grunur lék um brot á lögum um vátryggingarstarfsemi og umboðssvik vegna umdeildra lánveitinga.

Laugavegur göngugata í sumar

Ákveðið var á fundi umhverfis- og samgönguráðs í dag að helga Laugaveginn gangandi vegfarendum frá 1. júlí til 1. ágúst í sumar. Ákvörðunin var samþykkt samhljóma en svæðið sem um ræðir nær frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg.

Guðmundur og Erlendur látnir lausir

Guðmundur Örn Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri VÍS, og Erlendur Hjaltason, fyrrverandi forstjóri Existu, hafa verið látnir lausir úr haldi lögreglu. Þeir voru færðir til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í dag vegna rannsóknar embættisins á lánveitingum VÍS á árunum 2007-2009.

Sjálfstæðismenn mótfallnir kerfisbreytingum

Sjálfstæðismenn í Reykjavík segjast ekki geta fallist á tillögu borgarstjóra um að sameina menntasvið borgarinnar við leikskólasvið og tómstundahluta íþrótta- og tómstundasviðs. Illa hafi verið unnið að málinu af hálfu meirihlutans og óskir um eðlilegt samráð við minnihluta borgarstjórnar og hagsmunaaðila í borginni hundsaðar. Þetta kemur fram í umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ÍTR um fyrirliggjandi tillögu borgarstjóra.

Fjórir menn handteknir í tengslum við húsleit

Fjórir menn voru handteknir í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á lánveitingum VÍS í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þetta Lýður Guðmundsson, sem var aðaleigandi Exista, Erlendur Hjaltason, sem var forstjóri Existu, og Guðmundur Örn Gunnarsson sem hefur verið forstjóri VÍS.

Sérstakur saksóknari gerði húsleit í VÍS

Sérstakur saksóknara hefur gert húsleit í höfðuðstöðvum VÍS og Exista. Húsleitin var gerð í kjölfar rannsóknar Fjármálaeftirlitsins á tilteknum lánveitingum út úr félaginu á árunum 2007 - 2009. Starfsfólk félagsins vinnur með embættinu að gagnaöfluninni. Skammt er

Frumvarpinu einungis ætlað að ná til sms smálána

Í Fréttablaðinu í dag birtist heilsíðu auglýsing frá Steini Kára Ragnarssyni, verslunarmanni í Rekkjunni, þar sem hann gagnrýnir frumvarp um breytingu á lögum um neytendalán sem nú liggur fyrir Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu munu allir þeir sem vilja kaupa vörur á raðgreiðslum eða með vörukaupaláni fyrst þurfa að fara í greiðslumat, og spyr Steinn Kári því hvort neytendur horfi fram á það að þurfa að leggja fram launaseðla, veðbókarvottorð og skattaskýrslur til þess að kaupa nýtt hjónarúm. Að lokum krefst Steinn Kári þess að ákvæðið verði fjarlægt úr frumvarpinu.

Í mánaðargæsluvarðhald vegna fíkniefnasmygls

Fjórir karlar hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 28. júní að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Hrafnistumenn standa við fullyrðingar um lyfjastuld

Yfirmenn Hrafnistu vísa á bug fullyrðingum lögmanns fyrrverandi starfsmanns Hrafnistu sem vikið var úr starfi á dögunum fyrir meintan lyfjastuld. Í yfirlýsingu sem Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, og Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Kópavogi, sendu frá sér segir að starfsmaðurinn hafi víst játað fyrir þeim verknaðinn.

Starfsfólk veitingastaða og í byggingariðnaði á Íslandi selt mansali

Vísbendingar eru um að Ísland hafi á síðust árum orðið vettvangur mansals. Það eru einkum konur sem neyddar eru í vændi sem seldar eru mansali. Þetta segir í drögum að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi sem innanríkisráðuneytið hefur birt. Þar kemur fram að dæmi um þolendur mansals séu ekki mörg, en vísbendingarnar séu vissulega fyrir hendi. Auk kvenna sem seldar eru í vændi sé líka vísbending um að starfsfólk á veitingastöðum og í byggingariðnaðinum sé neytt til vinnu hér á landi.

Varðstjóri ákærður fyrir að fara offari í starfi

Varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi hefur verið ákærður fyrir brot í starfi þegar hann lét handtaka ungan ölvaðan pilt og skilja hann eftir á víðavangi. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er umræddur varðstjóri enn við störf. Pressan greinir frá því að varðstjórinn er ákærður fyrir að hafa farið offari í starfi sínu í júní á síðasta ári þegar hann fyrirskipaði öðrum lögreglumönnum að aka með ölvaðan pilt af mótssvæði í Galtalæk. Drengurinn hafði þá veriðhandtekinn. Lögreglumenn óku með drenginn um fjóra kílómetra í burtu frá Galtalæk og hann þar skilinn eftir.

Fær 23 milljónir í bætur vegna læknamistaka

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða íslenskum karlmanni, búsettum í Danmörku, 23 milljónir króna í skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir. Maðurinn fékk bráðakransæðastíflu sem læknum á Landspítalanum yfirsást að greina þegar hann var lagður þar inn árið 2003. Maðurinn krafðist 53 milljóna í bætur vegna mistaka starfsfólks Landspítalans.

Einboðið að Íbúðalánasjóður bjóði sömu lausnir og Landsbankinn

Formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis telur einboðið að Íbúðalánasjóður bjóði viðskiptavinum sínum upp sambærilegar lausnir í skuldamálum og Landsbankinn kynnti í síðustu viku. Að öðrum kosti sé tilgangslaust fyrir ríkið að reka sjóðinn. Landsbankinn kynnti í síðustu viku aðgerðir til að bregðast við skuldavanda heimilanna. Bankinn ætlar meðal annars að bjóða viðskiptavinum sínum upp á vaxtafslátt og niðurfærslu skulda. Landsbankinn er með þessu að ganga töluvert lengra en Íbúðalánsjóður en fram hefur komið að breyta þarf lögum sjóðsins til að heimila slíkar aðgerðir. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur ennfremur sagt í fjölmiðlum að fjárhagslega staða sjóðsins sé slík að óvíst sé hvort hann geti boðið sínum viðskiptavinum upp svipaðar aðgerðir. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur hins vegar kallað eftir svipuðum úrræðum frá sjóðnum. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, tók málið upp á Alþingi í morgun og vill að lögum sjóðsins verði breytt til að heimila þessa.

Ragnheiður Elín: Tillaga VG fullkomlega fáránleg

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að að tillaga Vinstri grænna um að Ísland segi sig úr Nató sé fullkomlega fáránleg og eingöngu ætluð til að friðþægja kjósendur flokksins. Ísland er ekki á leið út úr Nató segir þingmaður Samfylkingarinnar.

Skjálfti fannst á Siglufirði

Siglfirðingar fundu í nótt fyrir jarðskjálfta sem átti upptök sín um 16 kílómetra norðaustur af bænum. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mældist skjálftinn um 3,3 stig og reið hann yfir klukkan 4:16.

Duglegir krakkar héldu tombólu fyrir Barnaheill

Þrjú dugleg börn, Gyða Björg Ásbjarnardóttir, Elíana Mist Friðriksdóttir og Þráinn Ásbjarnarson, komu færandi hendi á skrifstofu Barnaheilla - Save the Children á Íslandi á dögunum. Þau færðu samtökunum að gjöf afrakstur tombólu sem þau héldu í Álfheimum. Alls söfnuðu börnin 1.465 krónum sem þau afhentu Petrínu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla - Save the Children á Íslandi. Að sögn barnanna, gekk tombólan vel þó veður hafi orðið til þess að þau urðu að fara tvisvar af stað. Á meðal þess sem þau Gyða Björg, Elíana Mist og Þráinn seldu voru klukka, pez-kallar og grænt dótaslím. Börnin vildu styðja samtök sem hjálpa börnum, bæði hér á landi og erlendis og minntust sérstaklega á það að þau vildu minnka ofbeldi. Petrína þakkaði börnunum kærlega fyrir stuðninginn og færði þeim að gjöf barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og rauðar blöðrur.

Sviðsetning sýndi fram á sakleysi Ólafs

Ólafur Helgason var handtekinn, grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína Hallgerði Valsdóttur, fyrr í þessum mánuði. Áverkar og aðkoman í íbúð þeirra þóttu þess eðlis að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað. Ólafur var handtekinn og sat í gæsluvarðhaldi í viku en var látinn laus þegar allt þótti benda til að lát eiginkonu hans hefði ekki borið að með voveiflegum hætti.

Farþegum Strætó fjölgar um 17%

Farþegum Strætó hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári samkvæmt mælingum Strætó bs. Þegar bornir eru saman fyrstu fjórir mánuðir ársins í ár og sömu mánuðir í fyrra nemur fjölgunin 16,9%. Ef þessi aukning helst út árið má búast við að farþegafjöldi Strætó fari yfir níu milljónir á þessu ári en á síðasta ári var farþegafjöldinn um átta milljónir. Mælingar Strætó á auknum fjölda farþega eru studdar með sölutölum, en sala hefur verið nokkuð meiri það sem af er ári heldur en á sama tíma í fyrra, að teknu tilliti til gjaldskrárhækkana um sl. áramót. Rannsóknir Strætó bs. á strætónotkun benda til þess að þessi aukning skýrist einkum af því að þeir sem nota strætó geri það mun oftar nú en þeir gerðu áður. Þetta má t.d. sjá á því að samkvæmt könnunum Capacent Gallup hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins sem taka strætó daglega fjölgað úr 4,0% í 7,5% á síðastliðnum tveimur árum, sem þýðir að fjöldi daglegra notenda hefur nær tvöfaldast á tímabilinu. Hins vegar stendur hlutfall þeirra, sem segjast aldrei nota strætó, í stað milli þessara tveggja ára og því ljóst að Strætó bs. þarf að laða nýja notendur að þjónustunni í auknum mæli eigi að fjölga notendum enn frekar á næstu misserum. „Við fögnum því að farþegar strætó séu farnir að nýta þjónustuna betur og vonandi heldur þessi þróun áfram. Við finnum fyrir auknum áhuga hjá almenningi og það er greinilegt að sífellt fleiri nýta sér þjónustuna reglulega. En við þurfum líka að bregðast við aukinni notkun. Hagræðingarkrafan sem gerð hefur verið á fyrirtækið síðustu misseri og í ár hefur það í för með sér að strætókerfið er á mörkum þess að anna eftirspurn, sérstaklega á annatímum," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. „Það væri bagalegt, að nú þegar áhugi og vilji almennings til að nota almenningssamgöngur er að aukast, að geta ekki ýtt enn frekar undir það með því að efla þjónustuna í takt við aukna eftirspurn. Við teljum að nú sé kjörið tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög að skapa umhverfi fyrir frekari vöxt og viðgang almenningssamgangna og að fjárfestingar í þeim hafi forgang við ráðstöfun fjármagns til samgangna," segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs.

Katrín komin í fæðingarorlof

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra er komin í fæðingarorlof. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur tekið tímabundið við sæti hennar sem menntamálaráðherra. Auður Lilja Erlingsdóttir tekur sæti Katrínar á Alþingi á meðan hún er í orlofi. Katrín er ekki búin að ala barn sitt, en áætlaður fæðingardagur var á sunnudaginn.

Tíu dagar í skýrslu um kynferðisbrot innan kirkjunnar

Rannsóknarnefnd vegna kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar skilar skýrslu sinni föstudaginn 10. júní. Um er að ræða rannsóknarnefnd sem sett var á laggirnar til að kanna starfshætti og viðbrögð Þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendir Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot. Rannsóknarnefndin skilar forsætisnefnd kirkjuþings skýrslunni, þar sem birtar verða rökstuddar niðurstöður og tillögur að úrbótum. Boðað hefur verið til blaðamannafundar að morgni 10. júní þar sem nefndin kynnir skýrsluna. Forseti kirkjuþings hefur því ákveðið að kalla kirkjuþing saman þriðjudaginn 14. júní til þess að ræða skýrslu rannsóknarnefndarinnar og taka ákvörðun um frekari aðgerðir sem nauðsynlegar kunna að vera

Kannabisneysla unglinga hefur minnkað frá 1999

Neysla 15-16 ára íslenskra unglinga á hassi og maríjúana er svipuð og hún var fyrir sextán árum, samkvæmt niðurstöðum evrópsku vímuefnarannsóknarinnar ESPAD 2011. Árið 1995 höfðu 10% unglinga á þessum aldri prófað kannabisefni en 11% árið 2011. Mest mældist neyslan árið 1999, en þá höfðu 15% prófað kannabisefni. Minnst var hún árið 2007, en þá höfðu um 9% prófað kannabisefni.

Sumarstarf Árbæjarsafns hefst á morgun

Sumarstarf Árbæjarsafns hefst að venju 1. júní og verður safnið opið gestum og gangandi alla daga í júní, júlí og ágúst frá klukkan 10 til 17. Á sunnudögum í sumar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá sem fyrr. Má þar nefna fasta liði eins og handverksdag Heimilisiðnaðarfélagsins, sem verður næsta sunnudag, heyannir, fornbíladaginn, harmonikkuhátíð, búningadag barna, skákmót og haustmarkað safnsins. Af öðrum viðburðum má nefna Jónsmessugleði Árbæjarsafn og Félags eldri borgara og hina árlegu Jónsmessugöngu um Elliðaárdalinn. Þá verður boðið upp á sérstaka dagskrá sunnudaginn 19. júní, um sögu kvenna í Reykjavík á 19. öld, sem ber yfirskriftina Maddama, kerling, fröken, frú. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árbæjarsafni. Nokkrar nýjar sýningar verða opnaðar á safnin í sumar, má þar nefntil að myndaa sýning um heimagerð barnaföt og sýning um vagnasmíði í Reykjavík á 20. öld. Í Listmunahorni munu fjórir listamenn sýna verk sín. Að venju verður starfsfólk safnsins búið klæðum sem tíðkuðust á síðari hluta 19. aldar. Á sunnudögum verða steiktar lummur í Árbæ og á laugardögum verður teymt undir börnum. Í Dillonshúsi verður heitt á könnunni og í Krambúðinni verður hægt að versla „gamaldags" varning. Fyrir börnin verður margt að sjá og hin sívinsæla leikfangasýning „Komdu að leika" verður á sínum stað. Það er næsta víst að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Árbæjarsafni í sumar. Í tilefni þessa hefur heimasíða safnsins verið uppfærð og endurnýjuð og þar má finna frekari upplýsingar um starf og viðburði á vegum Minjasafns Reykjavíkur. Vefslóðin er <www.minjasafnreykjavikur.is>.

Þriðjungur ók of hratt á Háteigsvegi

Brot 45 ökumanna voru mynduð á Háteigsvegi í Reykjavík í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Háteigsveg í vesturátt, við Vatnsholt. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 120 ökutæki þessa akstursleið og því ók meira en þriðjungur ökumanna, eða 38%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 43 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 52. Þess má geta að lögreglan hefur verið við hraðamælingar á þessum stað nokkrum sinnum áður og þá hefur brotahlutfallið jafnan verið hátt, eða 33-43% en meðalhraði hinna brotlegu hefur verið á bilinu 42-44 km/klst.

Sjá næstu 50 fréttir