Fleiri fréttir

Steinunn Valdís tekur við af Degi

Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við störfum oddvita Samfylkingarinnar á borgarráðsfundi í dag. Hún tekur við af Degi B. Eggertssyni sem fer í fæðingarorlof til 1. apríl. Þá tók Björk Vilhelmsdóttir sæti Dags í borgarráði. Borgarstjórnarflokkur Samfylkingar er því einungis skipaður konum. Það er í fyrsta sinn síðan á dögum kvennaframboðs.

Íslenskar ljósmyndir 2006

Næstkomandi laugardag hefst árleg ljósmyndasýning Blaðaljósmyndarafélags íslands í Gerðarsafni í Kópavogi. Veitt verða verðlaun í 10 flokkum m.a. fyrir mynd ársins og fréttamynd. Vegleg peningaverðlaun verða veitt fyrir alla flokka, að mynd ársins undanskyldri. Glitnir leggur til verðlaunin.

Óraunhæf hugmynd

Það er óraunhæf hugmynd að leggja alla áherslu á mannfjölgun á Austurlandi í tengslum við framkvæmdir álvers Alcoa í Reyðafirði. Þetta segir lektor við Háskólann á Akureyri vegna nýrrar skýrslu Hagstofunnar sem sýnir að fólki fækkar á Austurlandi.

Börn hjálpa börnum

Söfnunin Börn hjálpa börnum hófst formlega í morgun þegar borgarráð tók hlé á fundahöldum sínum til að taka á móti tuttugu börnum úr Melaskóla. Þrjú þúsund börn munu ganga í hús og safna framlögum í bauka til að vinna stórvirki gegnum ABC barnahjálp. ABC er alfarið íslenskt framtak og allt fé til verkefna sent héðan. Á síðasta ári voru sendar um 135 milljónir króna til hjálpar bágstöddum börnum víðs vegar um heiminn og er starfið nú með um 7.000 börn á framfæri, þar af um 3þ000 börn í fullri framfærslu á heimavistum eða barnaheimilum. Fólk er hvatt til að taka vel á móti þeim börnum sem munu banka upp á og óska eftir framlagi fyrir starf ABC.

Olíufélög virðast taka meira til sín

Olíufélögin virðast græða allt að sex krónum meira fyrir hvern seldan bensínlítra nú en þau gerðu að meðaltali í júlí í fyrra þegar olíuverð á heimsmarkaði var í hámarki. Olíuverð á heimsmarkaði náði sögulegu hámarki síðastliðið sumar en hefur lækkað síðan, eins hefur staða krónu styrkst gagnvart dollara síðan.

Íslenskir hönnuðir í Kaupmannahöfn

Fjórir íslenskir hönnuðir tóku þátt í sýningunni CPH Vision sem haldin var dagana 8.-11. febrúar í Öksnehallen í Kaupmannahöfn. Íslensku hönnuðirnir sýndu haust- og vetrarlínu sína fyrir 2008 og voru ánægðir með móttökurnar. CPH vision er ein stærsta sölusýning sinnar tegundar í Skandinavíu og kemur fjöldi alþjóðlegra kaupenda á hana.

Útþrá fyrir ungt fólk í útlöndum

Hitt húsið verður á morgun með kynningu á Útþrá 2007. Kynningin miðar að námi, starfi og leik í útlöndum fyrir ungt fólk á aldrinum 15-25 ára. Sextán aðilar og fyrirtæki kynna starfsemi sína sem snýr einnig að ferðum og sjálfboðasatörfum. Allir eru velkomnir í húsnæði Hins hússins að Pósthússtræti 3-5. Kynningin hefst klukkan 16. Enginn aðgangseyrir er að fundinum og boðið verður upp á veitingar.

Heimilislausir kjósendur undirrita sáttmála

Nýtt afl krefst þess nú með undirritun sáttmála á netinu að Samfylkingin setji fram markvissa stefnu í ýmsum málum sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki tekið nægilega ábyrgð á. Hópurinn hefur fylgst með stjórnmálum af hliðarlínunni og telur sig hafa verið heimilislausa í stjórnmálum. Óánægja hans snýr aðallega að hagstefnu stjórnvalda, hávöxtum, stórvirkjanaframkvæmdum og vegna “Evrópumets í okri á neytendum.”

Gegn veggjakroti og tyggjóklessum

Reykjavíkurborg tók í vikunni í notkun nýja háþrýstidælu til að hreinsa veggjakrot af eignum borgarinnar. Dælunni fylgir einnig búnaður til að hreinsa burt tyggjóklessur. Um er að ræða öfluga dælu sem hitar vatn upp í 120 gráður og dælir því með allt að 210 bara þrýstingi. Nóg er af verkefnum fyrir nýju dæluna, en tveir menn munu vera í verkefnum með dæluna næstu vikur.

Heimdallur 80 ára

Félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík er 80 ára í dag og fagnar afmælinu í Valhöll. Heiðursgestur verður Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri sjálfstæðisflokksins. Gullmerki Heimdallar verður veitt tveimur einstaklingum, en núverandi formaður Erla Ósk Ásgeirsdóttir mun flytja ávarp. Þá verður opnuð ný vefsíða Heimdallar, frelsi.is.

Bænum ber að stöðva framkvæmdir í Álafosskvos

Mosfellsbæ ber að stöðva framkvæmdir sem hafnar eru við lagningu Helgafellsbrautar. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kvað í gær upp bráðabirgðaúrskurð þessa efnis og hefur nefndin nú frest til loka aprílmánaðar til að úrskurða um lögmæti framkvæmdanna.

Grunnskólahátíð í Hafnarfirði

Í dag er Grunnaskólahátíðin í Hafnarfirði haldin af nemendum á unglingastigi. Sýnt verður örleikrit og atriði úr söngleikjum í íþróttahúsi Víðistaðaskóla kl. 13 og 15. Í kvöld verður síðan dansleikur fyrir unglinga í grunnskóladeildum skólanna í íþróttahúsinu við Víðistaðaskóla.

Skrípaleikur með marggefin loforð

Í gær var tekin skóflustunga að 110 rúma hjúkrunarheimili í Reykjavík. Heimilið átti að vera komið í gagnið í byrjun þessa árs en búið er að lofa byggingu þess nokkrum sinnum, m.a. fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þetta segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður Samfylkingar. Hún deilir á loforðagleði ríkisstjórnarinnar í aðdraganda kosninga.

Skemmdarverkin í Hafnarfirði upplýst

Þrír piltar, 15 til 17 ára, voru handteknir fyrr í dag en þeir voru grunaðir um fjölda skemmdarverka í og við Hafnarfjörð síðastliðna nótt. Ljóst er að tjónið hleypur á milljónum. Piltarnir viðurkenndu brot sín við yfirheyrslur í kvöld og telst málið nú upplýst að fullu. Þeir eru nú frjálsir ferða sinna.

Framboðslistar VG í Suðvesturkjördæmi og Reykjavík-norður samþykktir

Framboðslistar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir komandi alþingiskosningar voru samþykktir á félagsfundi fyrir stundu. Ögmundur Jónasson skipar efsta sætið á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi en Katrín Jakobsdóttir leiðir í Reykjavíkurkjördæmi-norður. Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi, er þar í öðru sæti.

Fólki fækkar á Austurlandi og Norðurlandi

Hagstofa Íslands hefur nú sent frá sér nýtt Hagtíðindahefti í ritröðinni Mannfjöldi um Búferlaflutninga 1986-2006. Þar kemur fram að flutningsjöfnuður var neikvæður á öllum svæðum landsins fyrir utan höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og Suðurland.

Nýr formaður KSÍ hefur ekki enn svarað Mannréttindanefnd

Knattspyrnusamband Íslands hefur enn ekki svarað erindi Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar um stöðu kynjanna innan sambandsins. Erindið var upphaflega sent í nóvember og aftur nú í byrjun febrúar. Nýkjörinn formaður segir fráfarandi formann ekki hafa komist í málið vegna dvalar sinnar erlendis og segist ekki vilja tjá sig um málið nú.

Veitti saksóknara ítrekaðar ákúrur

Dómari í Baugsmálinu veitti í dag Sigurði Tómasi Magnússyni, settum saksóknara, ítrekað ákúrur fyrir að spyrja ekki hnitmiðaðra spurninga í yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs. Þriðja daginn í röð sat forstjóri Baugs fyrir svörum, nú varðandi meint bókhaldsbrot tengd Baugi.

Mokveiði úti fyrir Vestmannaeyjum

Mikil loðna er nú rétt úti fyrir Vestamannaeyjum en afar óvenjulegt er að loðna veiðist þar á þessum árstíma en loðnan sækir á þessar slóðir um mánaðamót febrúar og mars.

Kjaramál kennara ekki mál ríkisstjórnar

Stjórnarandstaðan reyndi árangurslaust á Alþingi í dag að knýja fram svör frá ríkisstjórn um hvað hún hygðist gera í kjaramálum grunnskólakennara. Forsætisráðherra svaraði einfaldlega að launamál kennara væru verkefni sveitarfélaganna.

Ferjuhöfn á Bakka og ný Vestmannaeyjaferja á næstu 3 árum

Ríkið hyggst verja fimm milljörðum króna á næstu þremur árum til ferjuhafnar í Bakkafjöru og til smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, samkvæmt stefnumörkun samgönguáætlunar. Hafnargerðin á að hefjast á næsta ári og ljúka árið 2010. Guðjón Hjörleifsson alþingismaður spáir því að þessar framkvæmdir leiði til sameiningar Rangárþings og Eyja.

Hönnun Þjórsárvirkjana boðin út

Landsvirkjun hefur hafið útboðsferli fyrir þrjár umdeildar virkjanir í neðri Þjórsá. Í gær kom í ljós að þrjú tilboð bárust í hönnun virkjananna. Hönnun fyrir útboð á að ljúka í marsmánuði á næsta ári.

Ekkert opinbert tungumál á Íslandi

Ekkert opinbert tungumál er til á Íslandi og menn mættu þessvegna tala sanskrít á Alþingi. Athygli var vakin á þessu í fyrirspurnartíma í þinginu í dag og hvöttu bæði þingmenn og ráðherra til þess að ákvæði yrði sett í stjórnarskrá um að íslenska væri ríkistungumál Íslands.

Forneskjulegar og niðurlægjandi skoðanir

Samtökin 78 hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna skoðana sem birst hafa í fjölmiðlum undanfarið um að hægt sé að breyta kynhneigð fólks. Samtökin segja skoðanirnar forneskjulegar og niðurlægjandi og þær lýsi vanþekkingu á lífi samkynhneigðra.

Þrír handteknir í Hafnarfirði

Þrír piltar á unglingsaldri voru handteknir í húsi í Hafnarfirði í dag vegna skemmdarverka sem unnin voru á tugum bifreiða í Hafnarfirði í nótt. Piltarnir eru 16-17 ára og hafa allir komið ítrekað við sögu lögreglu. Tilkynningar tóku að berast lögreglu í morgun um skemmdir á bílum. Aðallega er um að ræða bifreiðar og vinnuvélar af hesthúsasvæðinu í Almannadal og af iðnaðarsvæðinu austan við Álverið í Straumsvík.

Þreyttur á fjölda spurninga saksóknara

Dómari í Baugsmálinu veitti í dag Sigurði Tómasi Magnússyni, settum saksóknara, ítrekað ákúrur fyrir að spyrja ekki hnitmiðaðra spurninga og fjalla um það sem ekki væri ákært fyrir í Héraðsdómi í dag.

Tvö kókaín-burðardýr sakfelld

Þremenningar á tvítugs- og þrítugsaldri voru í dag sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir innflutning á tæplega 400 grömmum af kókaíni. Efnin voru flutt inn frá Amsterdam í Hollandi í ágúst á síðasta ári. Burðardýrin tvö voru stöðvuð í tollhliði á Leifsstöð eftir að fíkniefnahundur fann merki um efnin. Þriðji maðurinn var sakfelldur fyrir að skipuleggja innflutninginn.

Samvera fyrir börn af upptökuheimilum

Laugarneskirkja verður næstkomandi sunnudag með sálgæslusamveru fyrir börn sem hafa verið á upptökuheimilum. Séra Bjarni Karlsson segir að boðað sé til samverunnar í tilefni af þeirri umræðu sem hafi verið um lífsreynslu og stöðu þeirra sem voru börn á upptökuheimilum hins opinbera á árum áður.

Von á bóluefni gegn fuglaflensu

Evrópska lyfjastofnunin hefur samþykkt að taka við umsókn GlaxoSmithKline um skráningu á nýju bóluefni gegn inflúensuveiru af stofni H5N1, svokallaðri fuglaflensu. Geri Evrópska lyfjastofnunin ekki athugasemdir eða óski eftir frekari gögnum frá fyrirtækinu, má vænta þess að bóluefni gegn fuglaflensu komi á markað á Íslandi og annarstaðar í Evrópu undir lok þessa árs.

Afsláttur af fasteignagjöldum aldraðra hækkar

Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur samþykkt að hækka afslátt af fasteignagjöldum elli- og örorkulífeyrisþega um ríflega 20 prósent. Hækkunin tekur gildi frá og með 1. janúar 2007. Henni er ætlað að taka mið af verðlagsbreytingum síðasta árs, hækka árlegan afslátt og jafnframt stækka hóp þeirra sem njóta afsláttarins af fasteignagjöldum.

Bakaði afmælisköku fyrir starfsfólkið

BSRB - Bandalag starfsmanna ríkis og bæja - er 65 ára í dag. Í tilefni dagsins bakaði Ögmundur Jónasson formaður samtakanna súkkulaðiköku og gaf starfsfólkinu. Tilkoma samtakanna hleypti nýjum krafti í kjarabaráttu opinberra starfsmanna á sínum tíma.

Neytendasamtökin vilja lög um transfitusýrur

Neytendasamtökin hvetja til þess að sett verði lög um transfitusýrur. Þau segja að rannsóknir hafi sýnt að transfitusýrur séu skaðlegar heilsu manna og þá sérstaklega með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma.

Jón Gerald telur brotið gegn sér

Jón Gerald Sullenberger segir að brotið sé gegn grundvallarréttindum hans um að fá að vera viðstaddan yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugsmálinu. Eftirfarandi er yfirlýsing sem Jón Gerald sendi fjölmiðlum:

Brim kaupir togara

Brim hefur gengið frá kaupum á frystitogaranum Kleifabergi frá Þormóði ramma. Áhöfninni er boðið að starfa hjá nýjum eigendum í eitt ár.

Tvær kærur til viðbótar á Guðmund í Byrginu

Tvær konur til viðbótar hafa lagt fram kæru á hendur Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins. Kærurnar eru því orðnar sex talsins. Seint á mánudaginn bárust sýslumanni á Selfossi kærur frá tveimur konum. Kærurnar varða meint kynferðislegt samband í Byrginu og beinast gegn Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins.

Segist þurfa tvo daga til að klára yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri

Hádegishlé er nú í Baugsmálinu en í morgun hafa yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannesssyni haldið áfram. Fram kom í máli setts saksóknara, Sigurðar Tómasar Magnússonar að hann þyrfti að líkindum bæði daginn í dag og á morgun til að ljúka yfirheyrslum yfir honum. Hugsanlegt væri að það yrði ekki nóg því yfirheyrslur verða aðeins eftir hádegi á morgun.

Telur meirihluta hlynntan virkjunum

Oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur að meirihluti heimamanna sé hlynntur fyrirhuguðum virkjunum í Þjórsá. Hann segir utansveitarfólk hafa verið í meirihluta á fjölmennum fundi í félagsheimilinu Árnesi um síðustu helgi.

Unglingaofbeldi viðgekkst í Kópavogi

Gróft ofbeldi gegn unglingum viðgekkst á unglingaheimilinu í Kópavogi á áttunda áratugnum. Þetta segir fyrrverandi starfsmaður, sem segir að fara verði ítarlega yfir starfsemina þar á árum áður. Hann nefnir meðal annars dæmi af dreng sem vistaður var á heimilinu í lengri tíma og mátti þola ítrekað ofbeldi. Nánar verður fjallað um málið í Íslandi í dag.

Gríðarlegar skemmdir á bílum í Hafnarfirði

Gríðarleg skemmdarverk voru unnin á tugum og jafnvel hundruðum bíla í Hafnarfirði í nótt og enn streyma tilkynningar til lögreglu um ný og ný tilvik. Nú þegar er talið að tjónið nemi tugum milljóna króna.

Tvær áhafnir á þremur skipum

Vinnslustöðin í Eyjum ætlar á næstu dögum að gera út þrjú skip með tveimur áhöfnum. Þá munu tvö skip verða að veiðum á meðan landað er úr því þriðja. Haft er eftir Guðna Ingvari Guðnasyni útgerðarstjóra á vefnum eyjar.net að þetta gerist helst meðan verið er að vinna hrogn úr loðnunni.

Minni hljóðmengun af tengivegi við Álafosskvísl

Tengibrautin við Helgafellshverfi í Mosfellsbæ verður lækkuð um tvo metra næst Álafosskvosinni og færð fjær Varmá. Mosfellsbær hefur lagt sérstaka áherslu á að takmarka hljóðmengun frá veginum. Í fréttatilkynningu frá bænum segir að strangari reglum verði fylgt en lög kveði á um.

Ný frímerki

Íslandspóstur gefur á morgun út ný frímerki í með myndum af fyrsta togara sem smíðaður var fyrir Íslendinga, í tilefni 100 ára afmælis Kvenréttindafélags Íslands og smáörk í tilefni af Alþjóðlega heimskautaárinu. Þá verður kynnt sameiginleg útgáfa Íslands, Grænlands og Færeyja vegna heimskautaárs.

Meiningarlausar spurningar saksóknara

Deilt var á Sigurð Tómas Magnússon settan saksóknara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að fylgja ekki eftir áætlun um yfirheyrslu vitna í Baugsmálinu. Jakob Möller lögmaður Tryggva Jónssonar sagði um mikil afglöp að ræða hjá settum saksóknara og að menn þyrftu að sitja undir; “sumpart meiningarlausum spurningum.”

Of heitt í kælum

Hitastig er að jafnaði um fjórðungi of hátt í kælum matvöruverslana á höfuðborgarsvæðinu og meira en helmingi of hátt að jafnaði í frystum. Þetta kemur fram í könnun starfsmanna Neytendasamtakanna á hitastigi í kælum og frystum í matvöruverslunum.

Sjá næstu 50 fréttir