Fleiri fréttir

Íranar með stórfelldar heræfingar

Íransher hóf stórfelldar heræfingar í landinu í dag. Þeim er ætlað að ýta úr vör nýrri varnarstefnu landsins að sögn íranskra fjölmiðla. Æft verður í fjórtán af þrjátíu héruðum landsins og áætlað að æfingarnar standi í allt að fimm vikur. Íranar eru enn beittir þrýstingi af alþjóðasamfélaginu vegna kjarnorkuáætlunar sinnar og ásakaðir um að styðja við skæruliða Hizbollah í Líbanon. Því hafa Íranar neitað og auk þess sagst ælta að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.

Árás á olíuleiðslu

Herskáir andspyrnumenn gerðu í morgun árás á olíuleiðslu suður af Bagdad, höfuðborg Íraks. Þykkan reyk lagði frá árásarstaðnum. Leiðslan flytur olíu til orkuversins í Musayyib og hefur áður verið skotmark andspyrnumanna. Íbúar í nágrenninu hafa krafist þess að stjórnvöld verji leiðsluna af ótta við umhverfismengun og sýkingarhættu. Andspyrnumann hafa gert árásir á olíuleiðslur víða í Írak til að reyna að tefja fyrir flutningum og skaða olíuverslun Íraka

Mikill fjöldi í miðbænum

Mikill fjöldi gesta er í miðbæ Reykjavíkur til berja dagskrárliði menningarnætur augum. Búið er að loka fjölda gatna, þar á meðal Laugarveginum en þar er komið heljarmikið tónlistarsvið þar sem hinir ýmsu hæfileikamenn troða upp í dag. Mælt er með því að þeir sem koma á einkabílum leiti sér að stæðum við Háskólann eða við Sæbraut. Hinn virðulegi farskjóti Menningarstrætó þykir einnig góður kostur en upplýsingar um ferðir hans má meðal annars nálgast á vefsíðunni menningarnott.is.

Birkir Jón og Kristinn H. draga framboð til ritara til baka

Framsóknarþingmennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson hafa báðir dregið framboð sitt til ritara Framsóknarflokksins til baka. Þeir hvetja kjósendur á flokksþingi til að velja Sæunni Stefánsdóttur í embætti ritara svo ein kona verði í framvarðarsveit flokksins. Eftir í kjöri eru því Sæunn og Haukur Logi Karlsson.

28 flúðu úr fangelsi í Belgíu

28 fangar flúðu úr Termond fangesli í austurhluta Flanders í Belgíu í nótt og í morgun. Sex þeirra hafa þegar fundist en hinna er enn leitað.

Látinna leitað eftir eldgos

Björgunarmenn leita nú 30 manna sem enn er saknað eftir að eldfjallið Tungurahua í Ekvador gaus á fimmtudaginn. Einn lést í gosinu svo vitað sé, fimmtugur karlmaður, sem sagður er hafa snúið aftur til síns heima til að sækja sjónvarpið sitt.

Formannskjör í Framsóknarflokknum hafið

Flokksþing Framsóknarflokksins stendur núna sem hæst og hófs formannskosning fyrir rúmum hálftíma síðan. Úrslit verða kynnt kl. 11:30 og verður sýnt beint frá því á NFS.

Börðust í návígi í Bekaa-dal

Skæruliðar Hizbollah börðust í návígi við sérsveitarmenn Ísraelshers í Bekaa-dal í Austur-Líbanon snemma í morgun. Að minnsta kosti einn hermaður féll. Herliðið var sent þangað til að koma í veg fyrir flutning vopna til skæruliðanna.

Alvarlegt bílslys

Einn slasaðist alvarlega í bílslysi í Vopnafirði í nótt og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Engar frekari upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu.

Höfuðkúpu- og kjálkabeinsbrotnaði

Maður höfuðkúpubrotnaði og var fluttur meðvitundarlaus á slysadeild eftir að félagi hans réðst á hann í heimahúsi í Skerjafirði í gærkvöld. Hann komst þó fljótt til meðvitundar en er auk höfuðkúpubrotsins, kjálkabeinsnbrotinn og með brotinn augnbotn og augntóft. Ekki er ljóst hvað gerðist en að sögn lögreglu voru þrjú vitni að árásinni.

Nú er mál að linni – nú stíg ég af sviðinu

Halldór Ásgrímsson kvaddi flokkssystkini sín í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær. Sagði hann Framsóknarflokkinn hafa gefið sér miklu meira en hann flokknum. Halldór var hylltur með löngu lófataki að ræðunni lokinni.

Pinochet sviptur friðhelgi

Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra Chile, á yfir höfði sér ákærur vegna skattsvika sem talið er að nemi jafnvirði tæplega tveggja milljarða íslenskra króna. Hæstiréttur Chile ákvað í dag að svipta Pinochet friðhelgi vegna málsins. Pinochet, sem er níræður, hefur ekki verið sóttur til saka fyrir ákærur um mannréttindabrot vegna heilsubrests. Hann er sagður þjást af vægum vitglöpum sem eru afleiðing nokkurra smávægilegra heilablóðfalla.

Vopnahlé rofið?

Ísraelskar herþotur, þyrlur og mannlaus loftför flugu yfir Bekaa-dal í Austur-Líbanon og norðurhluta landsins í kvöld. Að sögn Reuters-fréttastofnunar var engum sprengjum varpað líkt og haldið var fram í erlendum miðlum fyrr í kvöld. Skotið var á vélarnar úr loftvarnarbyssum en engin þeirra varð fyrir skoti og skothríðinni var ekki svarað. Ísraelsher hefur ekki viljað tjá sig um atburði kvöldsins. Ísraelskum herflugvélum er flogið margsinnis í gegnum líbanska lofthelgi.

Jón Baldvin hafnaði myndun vinstri stjórnar 1995

Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formaður Alþýðuflokksins hafnaði myndun vinstri stjórnar árið 1995 að sögn Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins.

Guðni skýtur á R-listann

Frambjóðendur til varaformanns Framsóknarflokksins fóru vítt í ræðum sínum. Guðni sakaði samfylkingarmenn í R-listanum fyrir að hafa stolið heiðrinum af störfum Framsóknarmanna og skaut á Actavis í umræðu um hátt verðlag. Jónína Bjartmarz eignaði framsóknarmönnum það besta í ríkisstjórnarsamstarfinu og talaði fyrir verndun Íbúðalánasjóðs.

Vinstri stjórn afskrifuð 1995

Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formaður Alþýðuflokksins, afskrifaði samstarf vinstri flokka í stjórn eftir alþingiskosningarnar 1995, og kaus heldur áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Af því varð ekki heldur myndaði Sjálfstæðisflokkurinn samsteypustjórn með Framsóknarflokknum. Þetta kom fram í máli Halldórs Ásgrímssonar í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag.

Myndi valda stórtækri eyðileggingu

Brysti Kárahnjúkastífla myndi flóðið úr Hálslóni eyðileggja allt sem á vegi þess yrði, á þriggja klukkustunda leið þess niður að strönd við Héraðsflóa.

Nýr forstjóri 66° Norður

Halldór G. Eyjólfsson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Sjóklæðagerðarinnar – 66° Norður. Fyrirtækið er eitt elsta framleiðslufyrirtæki landsins, en það var stofnað árið 1926. Ársvelta fyrirtækisins er áætluð 1800 milljónir á árinu 2006. Halldór starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Sjóvá Almennum tryggingum hf. og þar áður sem framkvæmdastjóri hjá Kristjáni Guðmundssyni og deildarstjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Framsóknarkonur fagna framboðum

Landssamband Framsóknarkvenna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er fagnað að konur bjóði sig fram í öll forystusæti Framsóknarflokksins. Á það er bent að þetta er í fyrsta sinn sem kona býður sig fram í formannssæti Framsóknarflokksins.

Bush hvetur Frakka til að senda aukið lið

Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að hann vonaðist til að Frakkar myndu senda fleiri friðargæsluliða til Líbanon en fulltrúar þeirra hafa sagt að einungis tvö hundruð manna herlið verði sent. Þetta væri þvert á það sem áður var talið en yfirlýsingar Frakka bentu til að þeir yrðu hryggjarstykkið í fimmtán þúsund manna alþjóðlegu herliði í Suður-Líbanon.

Morðinginn framseldur um helgina

Yfirvöld í Tælandi vonast til þess að hægt verði að framselja Bandaríkjamanninn John Mark Karr um helgina. Maðurinn var handtekinn í gær og hefur játað að haf orðið sex ára stúlku að bana í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum fyrir tíu árum. Málið hefur legið sem mara á fjölskyldu stúlkunnar, JonBenet Ramsey, og hafa foreldra hennar jafnvel verið grunaðir um aðild að ódæðinu.

Sprengjuhótun í vél Excel

Farþegavél á vegum lággjaldaflugfélagsins Excel, sem er í eigu Avion Group, var beint á flugvöllinn í Brindisi á Suður-Ítalíu í dag vegna sprengjuhótunar. Miði fannst í vélinni þar sem sagði að sprengju væri að finna um borð. Vélin, sem er af gerðinni Boeing 767, var á leið frá Gatwick-flugvelli á Englandi til Egyptalands.

Bíll í ljósum logum

Bíll stendur í ljósum logum ofan Búrfellsvegar í Grímsnesi. Slökkvilið er komið á staðin og vinnur að því að slökkva eldinn. Ekki er vitað um eldsupptök.

Vitni óskast

Lögreglan í Keflavík óskar eftir að komast í samband við unga stúlku sem var ein af fyrstu vegfarendum sem komu að umferðarslysinu skammt utan við Sandgerði á miðvikudagskvöld, þar sem tveir menn létust. Einnig óskar lögreglan eftir að ná tali af fólki sem hugsanlega varð vitni að slysinu eða var komið á vettvang þess áður en lögregla og björgunarlið komu á slysstað. Fólk getur haft samband við lögregluna í Keflavík í síma 420 2400 eða fengið samband í gegnum Neyðarlínuna í síma 112.

Hegningarhúsið stenst ekki undanþáguskilyrði

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er og hefur verið á undanþágu hjá heilbrigðisyfirvöldum í mörg ár. Ekki er hægt að fara að skilyrðum fyrir undanþágunni vegna yfirfullra fangelsa. Aðgerðir til að fjölga fangaplássum eru stopp vegna ákvörðunar stjórnvalda um að fresta framkvæmdum.

Menningarnótt verður hátíð smærri viðburða

Menningarnótt í Reykjavík, sem haldin verður í ellefta sinn á laugardag, verður hátíð smærri viðburða. Engir stórtónleikar verða á hafnarbakkanum þetta árið en hins vegar verður flugeldasýningin í lok dagskrár stærri en nokkru sinni fyrr og að þessu sinni er skotið úr varðskipinu Ægi.

Verðbólga 6,3%

Verðbólga á Íslandi mældist 6,3% á tímabilinu júlí 2005 til júlí síðast liðinn. Á þessu tólf mánaða tímabili var verðbólga á Íslandi nærri fjórum prósentustigum hærri en meðaltalið á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem hún var að meðaltali 2,3 prósent á sama tímabili.

Jafnt fylgi Samfylkingar og vinstri grænna

Samfylking og Vinstri hreyfingin-grænt framboð eru nær jöfn að fylgi samkvæmt könnun Gallups. Könnunin var gerð til að kanna stuðning formannsefna Framsóknarflokksins en þar kemur fram fylgi flokkanna ef gengið væri til kosninga nú.

Oftrú á samstarfinu við Bandaríkin voru mistök

Halldór Ásgrímsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins segir mikið starf framundan í öryggis- og varnarmálum. Þar sem Bandaríkjamenn hafi ákveðið einhliða að fara með allt sitt lið og búnað frá Íslandi, þurfi Íslendingar að styrkja samband sitt við Evrópu. Sjálfstæðiflokkurinn hafi farið fremst þeirra sem hafa haft oftrú á samstarfinu við Bandaríkin og skynsamir menn á þeim bæ hljóti að sjá að nú þarf að skoða margt í nýju ljósi.

Siv nýtur meiri stuðnings en Jón

Siv Friðleifsdóttir nýtur mun meira fylgis en Jón Sigurðsson samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir stuðningsmenn Sivjar. Formannskjör fer fram á morgun.

Lögregla lýsir eftir vitnum

Lögreglan í Keflavík óskar eftir að komast í samband við unga stúlku sem var ein af fyrstu vegfarendum sem komu að umferðarslysinu skammt utan við Sandgerði á miðvikudagskvöld, þar sem tveir menn létust. Einnig óskar lögreglan eftir að ná tali af fólki sem hugsanlega varð vitni að slysinu eða var komið á vettvang þess áður en lögregla og björgunarlið komu á slysstað. Fólk getur haft samband við lögregluna í Keflavík í síma 420 2400 eða fengið samband í gegnum Neyðarlínuna í síma 112.

Gefa meira en 20 milljónir

Áheit á starfsmenn Glitnis sem hlaupa í Reykjarvíkurmaraþoninu eru komin yfir 20 miljónir. 502 starfsmenn bankans hafa skráð sig og hlaupa þeir til styrktar starfsemi yfir 50 góðgerðasamtaka. Heildarvegalengdin sem starfsmennirnir ætla að hlaupa er 4.354 kílómetrar, Glitnir greiðir 3000 krónur á hvern hlaupin kílómetra.

Slaka á sérkröfum um öryggisleit

Nokkuð hefur dregið úr viðbúnaði vegna hryðjuverkaógnar á alþjóðaflugvöllum. Í því ljósi hafa yfirvöld á Keflavíkurflugvelli ákveðið að minka þær sérkröfur um öryggisleit og leyfilegan handfarangur sem í gildi hafa verið. Farþegar eru samt sem áður hvattir til að mæta tímanlega fyrir flugferðir sínar.

Meiri stuðningur við Siv en Jón

Siv Friðleifsdóttir nýtur mikils stuðnings í samfélaginu til forystustarfa fyrir Framsóknarflokksins, eftir því sem stuðningsmenn hennar lesa út úr könnun sem þeir létu gera hjá Gallup. Spurt var um líkur á að Framsókn verði kosin miðað við formann. Áður hafa stuðningsmenn hennar látið gera könnun þar sem spurt var hvort meiri líkur væru á því að Siv eða Jón Sigurðsson myndi styrkja flokkinn. Alls svöruðu 348 manns en af þeim studdu 34% þeirra Siv til formennsku en 12% Jón Sigurðsson. 6,5% töldu að það hefði ekki áhrif hvort þeirra myndi leiða flokkinn og 46,9% sögðu að þeir myndu ekki kjósa Framsókn. Óskar Bergsson varaborgarfulltrúi Framsóknar segir niðurstöðurnar staðfestingu á því sem stuðningsmenn Sivjar hafa haldið fram, það er að hún sé frambærilegust flokksmann sem formaður og mestar líkur séu á að hún nái að auka fylgið Framsóknar.

Þakka fyrir stuðninginn

Litháarnir koma hingað til þess að þakka Íslendingum fyrir stuðninginn í sjálfstæðisbaráttu baltnesku ríkjanna, Litháen, Lettlands og Eistlands. Nú eru liðin 15 ár síðan Íslendingar viðurkenndu sjálfstæði þjóðanna.

Beinagrind af landnámsmanni ásamt vopnum

Vel varðveitt beinagrind af landnámsmanni ásamt vopnum hans hafa fundist í heiðnu kumli frá tíundu öld í Hringsdal í Arnarfirði á Vestfjörðum. Um er að ræða einn merkasta fornleifafund síðari ára því kumlið sem um ræðir er nær óraskað.

Opnast sprungur?

Búast má við þeim möguleika að gamlar sprungur eða nýjar opnist undir Kárahnjúkastíflunni, einkum þegar lónið er fullt, og í framhaldi af því geti stíflan brostið, segir meðal annars í greinargerð Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings til forstjóra Orkustofnunar fyrir rúmum fjórum árum.

Illa gengur að manna friðargæslulið í Líbanon

Illa gengur að manna friðargæslulið í Líbanon, sem vonast er til að taki til starfa eftir tvær vikur. Ísraelar segjast ekki geta hugsað sér að samþykkja að ríki sem ekki viðurkenni Ísrael taki þátt í friðargæslunni

Mikill verðmunur á kennslubókum

Verslunin Office One var oftast með lægsta verðið á kennslu- og orðabókum, í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu í vikunni.

Vilja sameinast Árborg

Allir kosningabærir íbúar Laugardælahverfis, sem er í Flóahreppi í austurjaðri Selfoss, hafa undirritað skjal með ósk um að fá að sameinast Sveitarfélaginu Árborg.

Fleiri íslenskir friðargæsluliðar á leið til Sri Lanka

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, tilkynnti utanríkismálanefnd Alþingis í morgun, að Íslendingar myndu halda áfram friðargæslustörfum á Sri Lanka. Íslenskum friðargæsluliðum verður fjölgað úr fjórum til fimm í tíu.

Handteknir vegna fíkniefnamála

Lögreglumenn úr Hafnarfirði og Kópavogi fóru aftur í fíknefnaleit í gærkvöldi, eftir að hafa handtekið sex menn vegna fíkniefnamála í fyrrakvöld, og handtóku aðra sex í gærkvöldi og í nótt.

Og Vodafone eflir GSM kerfi sitt

Og Vodafone ætlar að efla GSM kerfið í Stykkishólmi um þessa helgi en þá fara fram Danskir dagar í bænum. Hátíðin, sem hefst í dag og lýkur á sunnudag, fer nú fram í 13. sinn. Danskir dagar hefur verið vel sóttir síðustu árin og með eflingu GSM kerfis Og Vodafone í Stykkishólmi verður hægt að tryggja viðskiptavinum enn betri þjónustu um helgina.

Sjá næstu 50 fréttir