Handbolti

„Eins og Gísli Þor­geir en getur líka skotið fyrir utan“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jóhann Gunnar óttast að Mathias Gidsel muni reynast Íslandi mjög erfiður viðureignar í kvöld.
Jóhann Gunnar óttast að Mathias Gidsel muni reynast Íslandi mjög erfiður viðureignar í kvöld. vísir

„Ef þú myndir hitta hann úti á götu myndirðu ekki halda að hann væri einhver frábær handboltamaður, þú myndir frekar skjóta á að hann væri bókasafnsvörður“ segir Jóhann Gunnar Einarsson um Mathias Gidsel, einn besta leikmann Danmerkur sem mætir Íslandi í undanúrslitum EM í handbolta í kvöld.

Jóhann segir Gidsel hreint ótrúlegan leikmann, en ólíkan þeim stjörnum sem hann ólst upp við að sjá.

„Mín kynslóð elst upp við að bestu leikmennirnir séu menn eins og Nikola Karabatic eða Karol Bielecki, svona risa gæjar sem hamra á markið. Hann er með þannig líkamsbyggingu, að hann er með gorma í fótunum. Ótrúlega snöggur, notar gormana einhvern veginn til að svífa framhjá mönnum. Tímasetningar og stefnubreytingar eru bara upp á hundrað prósent.“

Gidsel er snöggur miðjumaður sem fer niður í hornið í vörn, alls ekki ólíkt einum besta leikmanni Íslands.

„Ef maður ætti að líkja honum við einhvern þá er hann eins og Gísli Þorgeir en getur líka skotið fyrir utan. Það er fáránlegt hvað hann er fjölhæfur leikmaður.“

Sérfræðingar héldu áfram að mæra Gidsel og sögðu eiginlega allar sóknir Danmerkur, allavega allar mikilvægu sóknirnar, fara í gegnum hann.

Ef Ísland ætlar að vinna leikinn í kvöld verður einhvern veginn að stöðva Gidsel, eða allavega hægja á honum, en hvernig verður farið að því?

„Janus er á móti honum, með Elliða þarna við hliðina á sér. Þeir verða heldur betur að vera á tánum í kvöld“ sagði Jóhann.

„Það er hvergi veikan blett að finna á honum, en við verðum bara að hlaupa með honum. Þegar þeir taka hraða miðju, það er eitt af þessum atriðum sem ég hugsa að Snorri leggi mikla áherslu á. Ef við ætlum að halda honum eitthvað aðeins niðri þá getum við allavega byrjað á þessu [að stöðva hraða miðju.] Það er einn af þessum þáttum, þannig að við getum allavega dregið úr Gidsel að einhverju leiti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×