Handbolti

„Eins og ís­lenska krónan, okkur vantar stöðug­leika“

Hinrik Wöhler skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, líkti liðinu við íslensku krónuna eftir dramatískan sigur.
Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, líkti liðinu við íslensku krónuna eftir dramatískan sigur. Vísir/Anton Brink

Stefáni Arnarsyni, þjálfara Hauka, var létt í leikslok eftir dramatískan sigur gegn ÍR á Ásvöllum í kvöld. Haukar höfðu yfirhöndina framan af leik en misstu niður forskotið þegar leið á og endaði leikurinn 23–22.

„Það var kafli í seinni hálfleik þar sem við hefðum getað náð þessu í fjögur eða fimm mörk en nýttum það ekki. Hleyptum þeim inn í leikinn og það er hættulegt þar sem ÍR er sterkt lið. Þess vegna var dramatík,“ sagði Stefán eftir leikinn.

Haukar áttu í mestum erfiðleikum með að skora um miðbik seinni hálfleiks og náðu ekki að koma boltanum í netið í tæpar tíu mínútur. Stefán var spurður út í þennan kafla og greip þá til myndlíkingar úr íslensku efnahagslífi.

„Við erum eins og íslenska krónan, okkur vantar stöðugleika. Þetta fer upp og niður hjá okkur og við erum að reyna vinna í því. Við unnum og það er sem skiptir máli.“

ÍR-ingar voru allt annað en sáttir með rautt spjald sem Vaka Líf Kristinsdóttir fékk í seinni hálfleik. Stefán gaf lítið fyrir þá gagnrýni og sagði línuna góða hjá Sigurði Hirti Þrastarsyni og Svavari Ólafi Péturssyni, dómurum leiksins.

„Þetta er línan sem var í dag og mjög margar brottvísanir, bara góðir dómarar og ekkert við því að segja. Jafnt á bæði á lið.“

Hörð barátta um þriðja sætið

Með sigrinum lyfta Haukar sér í þriðja sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan ÍR, og eru liðin í harðri baráttu þegar sex umferðir eru eftir. Sex efstu liðin fara í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna.

Að auki eiga Haukar bikarleik gegn Víkingum á þriðjudaginn í næstu viku og er stefnan skýr.

„Við eigum núna bikarleik á þriðjudaginn sem við þurfum að vinna og ætlum að koma okkur í Final Four. Svo eigum við Val og Fram þannig við erum að fara í erfitt prógram.“ 

„Við erum þó á uppleið og margt jákvætt í leik okkar en við getum bætt margt,“ sagði Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×