Leik lokið: Haukar - ÍR 23-22 | Unnu ÍR og komust upp fyrir þær

Hinrik Wöhler skrifar
Haukar lyftu sér upp í þriðja sæti deildarinnar með eins marks sigri á ÍR í kvöld.
Haukar lyftu sér upp í þriðja sæti deildarinnar með eins marks sigri á ÍR í kvöld. vísir

Haukar og ÍR áttust við í 15. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta á Ásvöllum í kvöld og endaði leikurinn með eins marks sigri Hauka, 23-22. Með sigrinum lyfta Haukar sér upp fyrir ÍR og verma þriðja sæti deildarinnar.

Haukar voru sterkari í upphafi leiks á meðan ÍR-ingar áttu í vandræðum með að skora úr opnum leik en fengu þó fjögur vítaköst á fyrstu 12 mínútum leiksins eftir sofandahátt í vörn Hauka.

Vinstri vængurinn hjá Haukum var atkvæðamikill í fyrri hálfleik og var mikið reynt á vörn gestanna hægra megin. Embla Steindórsdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir báru þungan af sóknarleik Hauka framan af.

Eftir hæga byrjun komust gestirnir þó inn í leikinn og um miðbik fyrri hálfleiks var staðan 6-6. Leikurinn var fremur hægur á köflum og leikmenn beggja liða urðu sekir um tæknileg mistök í sókninni, en takturinn batnaði þegar leið á hálfleikinn.

Haukar náðu að færa sér yfirtöluna í nyt þegar ÍR-ingar voru manni færri og komust í 12-8 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. ÍR-ingar, með Söru Dögg Hjaltadóttur í fararbroddi, náðu að minnka muninn í tvö mörk og stóð leikurinn í 13-11 í hálfleik, Haukum í vil.

Sóknarleikur Hauka var skilvirkur í upphafi seinni hálfleiks og leiddu þær með fjórum mörkum um miðbik hans.

ÍR-ingar urðu fyrir áfalli þegar Vaka Líf Kristinsdóttir fékk rautt spjald á 39. mínútu, eftir að dómarar leiksins nýttu sér skjádómgæslu og sendu hana af velli.

Í kjölfarið færðist hiti í leikinn og baráttuandinn jókst hjá gestunum. Þær þéttu vörnina og komu í veg fyrir að Haukar skoruðu mark í tæpar tíu mínútur. Það gerði þeim kleift að jafna leikinn í 20-20 þegar fimm mínútur voru eftir.

ÍR-ingum var þó fyrirmunað að komast yfir á lokamínútunum og skutu meðal annars þrisvar í röð í stöngina.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir braut loks ísinn eftir langa markaþurrð Hauka með tveimur mörkum í röð og að endingu tryggðu Haukar sér eins marks sigur, 23-22.

Uppgjör og viðtöl væntanleg.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira