Upp­gjör og við­töl: Grinda­vík - Valur 78-67 | Á­fram full­komnir á heima­velli

Pálmi Þórsson skrifar
Khalil Shabazz og félagar í Grindavík héldu sigurgöngunni áfram á heimavelli.
Khalil Shabazz og félagar í Grindavík héldu sigurgöngunni áfram á heimavelli. Vísir/Anton

Grindvíkingar komust skrefi nær deildarmeistaratitlinum með sannfærandi ellefu stiga sigri á Valsmönnum í Grindavík í kvöld, 78-67. 

Þetta var áttundi sigur Grindvíkinga í átta heimaleikjum í Bónusdeild karla í vetur og þeir náðu með honum sex stiga forskoti á Stólunum á toppi deildarinnar.

Khalil Shabazz skoraði 19 stig fyrir Grindavík og þeir Daniel Mortensen og Jordan Semple voru með 17 stig hvor. Kári Jónsson skoraði 20 stig fyrir Val.

Fyrir leikinn var Grindavík efst í deildinni en Valur í fjórða sætinu að reyna að klóra sig ofar á töflunni.

Leikurinn var orkumikill og það voru mikil læti. Það hentaði Grindavík vel sem tók forystuna snemma og lét Valsmenn elta sig allan leikinn. Kristófer Acox var meiddur í kvöld og það hentaði Jordan Semple vel sem dró vagn heimamanna til að byrja með en hann skoraði 6 fyrstu stigin áður en hann fór síðan að finna liðsfélaga sína sem hittu mjög vel meðan Valsmenn hittu illa úr sínum skotum. Staðan eftir 1. leikhluta var 23-16.

Valsmenn byrjuðu 2. leikhluta mun betur og gerðu sig líklega til að koma með áhlaup en Grindvíkingar settu stopp á það strax og juku forystuna mest upp í 16 stig. Valsmönnum tókst að minnka það niður í 11 fyrir hálfleik og staðan því 42-31 og mjög lítið skorað.

Seinni hálfleikurinn spilaðist eiginlega alveg eins. Valsmenn hótuðu áhlaupi en Grindvíkingar svöruðu alltaf fyrir sig og sigldu heim öruggum 78-67 sigri og eru enn þá ósigraðir á heimavelli.

Atvik leiksins

Erfitt er að tala um einhver sérstök atvik í þessum leik, en auðvelt er að tala um skotnýtingu Valsmanna. Þeir skutu 34% utan af velli sem verður að teljast skelfilegt.

Stjörnur og skúrkar

Stjörnurnar eru klárlega tvíburaturnarnir Daniel Mortensen og Jordan Semple en þeir skoruðu 17 stig hvor og áttu teiginn.

Dómarar

Jón Þór, Kristinn Óskar og Davíð Kristján voru með flautuna í krefjandi leik að dæma. Rosalega mikið mótmælt öllu sem þeir gerðu en einnig var rosalega mikið brotið og þeir leyfðu leiknum að fljóta fínt.

Stemming og umgjörð

Það var frábær stemming eins og að vana í Grindavík. Vel mætt og sungið og trallað.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.Vísir / Guðmundur

„Bara önnur slök frammistaða”

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, var vonsvikinn með leik sinna manna.

„Bara önnur slök frammistaða og Grindavík miklu betri. Bara framhald frá því í síðasta leik, við sköpuðum ekkert alltaf góð skot en oft og tíðum mjög góð skot sem við erum vanir að setja niður og það er eins og sjálfstraustið sé eitthvað lítið þessa dagana. Það verða einhvern veginn þessi snjóboltaáhrif. Það er bara eins og hringurinn minnki bara með hverju skotinu.“ 

En í lokin fóru Valsmenn að hitta svolítið en tókst ekki að ná stoppi hinum megin. 

„Bara gæði í Semple og Shabazz. Hinir strákarnir gera vel í að breikka völlinn. En heilt yfir varnarlega var þetta allt í lagi. En ég held að við hefðum ekki unnið mörg lið á Íslandi með þessari frammistöðu,“ sagði Finnur. 

En það var stórt skarð í liði Vals í kvöld því Kristófer Acox var ekki með en er hann lengi frá? „Ég veit það ekki. Hann var frá núna og það er einhver pása framundan út af bikarnum og vonandi er hann bara með í næsta leik,” sagði Finnur að lokum.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Hulda Margrét

„Við erum bara með fullt af málum í skoðun”

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var mættur aftur á hliðarlínuna hjá Grindavík og var hann kátur með sigurinn.

„Ég er bara virkilega ánægður með mína menn. Það vantaði helling í liðið og það kvarnaðist aðeins úr þegar Arnór datt út. En að mestu þá gekk þetta eins og við lögðum upp með, fyrir utan kannski síðustu þrjár í fyrri hálfleik þar sem þetta datt aðeins niður. En mjög góð 2 stig og mikilvæg í þessari baráttu sem fram undan er.”

En Grindavíkurliðið er á toppi deildarinnar. Oft er talað um að þetta fari að detta niður hjá þeim en þeir halda bara áfram að vinna leiki.

„Fólk má hafa sýnar skoðanir. Við erum bara í verkefni og þetta er skref í rétta átt. Við erum ekkert að pæla í því sem sagt er. Við erum bara með einbeit-ingu á stóru verkefni sem við erum í og það er bara eins og það er. Bara ánægður með strákana í kvöld og góðan sigur. Ánægjulegt að fara í þetta óþægilega frí með þetta. Með sigur á bakinu. Bara mjög stoltur af strákunum og ánægður með þetta.” sagði Jóhann Þór kátur.

En þrátt fyrir að Grindavík sé efst þá eru þeir orðaðir við breytingar þó svo að glugginn loki um helgina.

„Við erum bara að skoða ýmis mál. Það er stutt í þetta og við erum að renna á rassgatið með þetta. Við höfum fram á miðnætti á laugardag og við sjáum bara hvað verður. Við erum að skoða eitt og annað en ekkert fast í hendi.” Sagði Jóhann en er þá Jeremy Pargo sem lék með liðinu seinni hluta tímabilsins í fyrra á leiðinni?

„Við erum bara með fullt af málum í skoðun og eins og ég segi þá erum við að renna á rassgatið með þetta. En vonandi getum við eitthvað hrist upp í þessu. Við verðum held ég að hræra eitthvað í þessu ef við ætlum okkur að ná í þann stóra en vonandi tekst það,” bætti Jóhann við.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira