Skoðun

Þegar „er­lend af­skipti“ eru að­eins vanda­mál ef þau þjóna náttúrunni

Arndís Kristjánsdóttir skrifar

Vel á þriðja þúsund umsagnir bárust í samráðsgátt vegna lagereldisfrumvarpsins, þar af stór hluti erlendis frá. Atvinnuvegaráðherra Íslands reynir nú að gera þann áhuga aðalatriði í umræðunni um meingölluð frumvarpsdrögin; ekki frumvarpið sjálft, ekki fullkominn skort á dýravelferð og alls ekki þann aukna skaða fyrir lífríki fjarða og villta laxastofna okkar sem þessi frumvarpsdrög munu valda ef þau verða að lögum.

Jörðin eini hluthafinn

Ástæðan er einföld. Patagonia hvatti fólk til að skila inn staðlaðri umsögn. Um er að ræða útivistavörufyrirtæki sem hefur styrkt umhverfismál um allan heim í áratugi og hefur enga beina eða fjárhagslega hagsmuni af laxeldi á Íslandi. Fyrirtæki sem starfar samkvæmt yfirlýstu markmiði um að vernda jörðina og var í því skyni sett í nýtt eignarhald þegar stofnandinn, Yvon Chouinard, framseldi það til náttúruverndarsjóða. Samkvæmt honum er jörðin eini hluthafi Patagonia og tilgangur félagsins sá einn að vernda jörðina. Í dag rennur því allur hagnaður til verndar náttúru og loftslagi jarðar.

Yvon var árið 2023 talinn meðal 100 áhrifamestu einstaklinga heims af Time Magazine fyrir að ganga gegn hefðbundinni hugsun um eignarhald og gróða og setja vernd jarðar ofar eigin auð og völdum.

Maður gæti ætlað að slík afstaða, þar sem vernd jarðar er sett ofar gróða, væri tekin sem ábending um ábyrgð og alvöru. En það var ekki sú leið sem stjórnvöld völdu. Þvert á móti varaði Hanna Katrín Friðriksdóttir, atvinnuvegaráðherra við því í Kastljósi í vikunni að „erlend stórfyrirtæki“ væru að hafa áhrif á íslenska löggjöf og líkti því við afskipti af varnarmálum Íslands. Sá samanburður stenst enga skoðun.

Hverjir hafa raunverulega hagsmuni?

Á meðan athyglinni er beint að Patagonia, vill ráðherrann ekki ræða um hina raunverulegu risa í þessu máli, norsk laxeldisfyrirtæki skráð í kauphöllinni í Ósló, með milljarðahagsmuni af því að sjókvíaeldi fái áframhaldandi starfsleyfi á Íslandi – og vaxi.

Fyrirtæki sem :

  • hafa beina og augljósa fjárhagslega hagsmuni af frumvarpinu,
  • byggja rekstur sinn á ódýrustu og áhættusömustu tækni sem völ er á,
  • hafa beitt markvissri og öflugri hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum frá upphafi
  • starfa í greinum þar sem dýravelferð, mengun og erfðablöndun eru vel skjalfest vandamál.

Inngreypt ítök

Lagereldisfrumvarpið ber mörg augljós merki um gríðarleg ítök laxeldisiðnaðarins innan ráðuneytisins. Nýtt ákvæði um svokallaðan laxahlut, í reynd kvótakerfi í sjókvíaeldi, er gott dæmi um þetta. Þótt heimildirnar séu formlega bundnar við 16 ár eru þær framseljanlegar og veðsetjanlegar og því fela þær í sér mun varanlegri réttindi en tímamörkin gefa til kynna.

Ef tala á um lýðræðislega hættu, þá hlýtur hún því að liggja þar. Ekki hjá þeim sem vara við afleiðingunum, heldur hjá þeim sem hafa mest að græða á því að þær séu hunsaðar.

Erlendu áhrifin eru því, kæra Hanna, ekki í umsögnum. Þau eru í frumvarpinu. Og orðræða um „erlend afskipti“ er hrein og klár afvegaleiðing. Hún þjónar því eina markmiði að gera baráttu fyrir náttúruvernd tortryggilega, á meðan gæslumenn erlendra gróða hagsmuna fá að vinna sitt starf í friði.

Þversögnin mikla

Það er sérstök þversögn að þessi málflutningur skuli koma frá fulltrúa Viðreisnar, flokks sem hefur um árabil barist fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þar yrði löggjafarvald sannarlega flutt úr landi með formlegum og bindandi hætti. Samt eru það umsagnir erlendra náttúruverndarsinna sem Hanna og félagar hennar í Viðreisn telja að ógni lýðræðinu.

Umhverfismál þekkja ekki landamæri

Ef einhver málaflokkur í heiminum er ekki bundinn landamærum, þá eru það umhverfismál. Mengun, vistkerfishrun og útrýming tegunda stöðvast ekki við landhelgi ríkja.

Raunverulega spurningin er ekki því hvort erlendir aðilar hafi sent inn umsagnir. Hún er, hvers vegna eru umhverfisverndarsinnar skilgreindir sem ógn við lýðræðið, en erlendir gróðahagsmunir taldir eðlilegir þátttakendur í lagasetningu?

Þar liggur kjarni málsins.

Höfundur er lögfræðingur og umhverfisverndarsinni.




Skoðun

Sjá meira


×