Handbolti

„Erfitt að lýsa þessari stemningu sem við náðum upp í vörninni“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Varnarleikurinn var lykillinn að sigri Íslands gegn Svíþjóð.
Varnarleikurinn var lykillinn að sigri Íslands gegn Svíþjóð. vísir vilhelm

„Mér líður ábælavelbala“ svaraði landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson skælbrosandi þegar hann var spurður út í tilfinningu sem fylgir því að vinna Svíþjóð.

Klippa: Elliði gerir upp frábæran leik við Svía

„Við grófum djúpt og fundum góðar lausnir. Einhvern veginn small bara allt saman. Allir sem komu inn áttu góða innkomu. Viktor gjörsamlega frábær. Arnar á frábæra innkomu eftir að hafa setið kaldur á bekknum, varnarlega gjörsamlega frábær. Ýmir var óaðfinnanlegur í dag, það var margt sem small hjá okkur“ sagði hinn hógværi Elliði svo og hrósaði liðsfélögum sínum í hástert.

Góður varnarleikur var lykillinn að sigrinum í dag og Elliði átti stóran þátt í því.

„Við sýndum bara mikil gæði. Þegar við misstum þá, þá var alltaf einhver kominn til að hjálpa. Það er erfitt að lýsa þessari stemningu sem við náðum upp í vörninni, hún var bara geggjuð.“

Elliði Snær lét líka til sín taka sóknarlega.

Stuðningurinn úr stúkunni spilaði líka stóran þátt í sigrinum en íslensku stuðningsmannasveitinni tókst nánast að kaffæra þeirri sænsku í hávaða.

„Ég hafði ekki endilega trú á því fyrirfram en við Íslendingar erum bilaðir og við bjuggumst kannski ekki heldur við því að vinna með átta mörkum. Þetta var gjörsamlega frábært og þau hjálpuðu okkur klárlega í dag. Ekkert nema þakklæti til þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×