Handbolti

„Takk fyrir okkur en við þurfum fleiri stig“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var líflegur á hliðarlínunni í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson var líflegur á hliðarlínunni í dag. Vísir/Vilhelm

„Mér líður vel, allavega betur en eftir síðasta leik,“ sagði nokkuð hógvær Snorri Steinn Guðjónsson eftir magnaðan átta marka sigur Íslands gegn Svíum á EM í handbolta í dag.

„En ég skal viðurkenna að það eru margar tilfinningar. Þetta er bara risasigur fyrir okkur. Ekki bara það að vinna Svía, heldur vorum við undir pressu og vorum ósáttir með okkur sjálfa í síðasta leik og ég held að þú fáir ekkert erfiðari leik til að svara fyrir þig og að gera það á þennan hátt er bara ótrúlega gott hjá strákunum og ég er ótrúlega stoltur af þeim.“

Óhætt er að segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið til fyrirmyndar hjá íslenska liðinu í dag. Íslensku strákarnir léku við hvurn sinn fingur og leiddu með sex mörkum í hléi.

„Yfirleitt er ekkert mjög sniðugt að vera að greina leiki svona stuttu eftir þetta, en það segir sig eiginlega sjálft að flest af því sem við gerðum gekk upp. Samt vorum við að brenna á einhverjum færum, en þeir náttúrulega líka.“

„Varnarleikurinn var bara frábær og þetta var örugglega okkar besta sóknarframmistaða til þessa. Þeir voru bara í miklum vandræðum með okkur og það voru margir að koma með eitthvað að borðinu. Viggó af bekknum, Arnar frábær og Ómar svo aftur. Það var svo margt sem gekk upp. Svo líka bara þetta áhlaup sem kemur frá Svíunum. Það var að einhverju leyti viðbúið, en var kannski fullstórt fyrir minn smekk. En bara að standast það og klára þetta er bara frábært.“

Hann viðurkennir að púlsinn hafi farið upp þegar áhlaup Svía stóð sem hæst.

„Ég var ekkert að sofna, sko. Mjög langt frá því. Það var ekkert mjög þægilegt því þeir eru með frábært lið og kveikja í höllinni og annað slíkt. Það er líka bara annar karakter í þessum leik að standast það og rúmlega það.“

Að lokum nýtti Snorri tækifærið og hrósaði íslenskum stuðningsmönnum, sem oft og tíðum yfirgnæfðu fjölmenna sænska stuðningssveit.

„Ótrúlegt. Bara ótrúlegt. Ég eiginlega bara trúði því ekki. Ég vissi ekki að þetta væri hægt. En bara takk fyrir okkur en við þurfum fleiri stig,“ sagði Snorri að lokum.

Klippa: Snorri Steinn eftir sigurinn gegn Svíum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×