Upp­gjörið: Sví­þjóð - Ís­land 27-35 | Ís­lensku strákarnir sökktu Svíum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggo Kristjánsson var algjörlega frábær fyrir íslenska liðið í dag.
Viggo Kristjánsson var algjörlega frábær fyrir íslenska liðið í dag. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann gríðarlega mikilvægan átta marka sigur er liðið mætti Svíum í þriðju umferð milliriðils II á EM í handbolta í dag, 27-35.

Það byrjaði bagalega fyrir íslenska liðið í Malmö í dag því ómar Ingi Magnússon lét verja frá sér víti áður en Óðinn Þór Ríkharðsson skaut í stöng stuttu síðar. Viktor Gísli Hallgrímsson kvittaði þó fyrir fyrstu sókn Íslands með því að verja víti á hinum endanum og í næstu sókn braut Ómar Ingi ísinn fyrir Ísland.

Íslensku strákarnir voru ákveðnir næstu mínútur og náðu þriggja marka forskoti í stöðunni 6-3 þegar Bjarki Már Elísson skoraði úr hraðaupphlaupi.

Bjarki Már Elísson nýtti sín færi vel.Vísir/Vilhelm

Strákarnir hömruðu járnið á meðan það var heitt og héldu tveggja til þriggja marka forystu næstu mínútur. Viggó Kristjánsson jók svo forskotið í fjögur mörk með marki úr sínu þriðja vítakasti á 18. mínútu áður en Gísli Þorgeir Kristjánsson kom Íslandi í fimm marka forystu.

Áfram hélt íslenska liðið að þjarma að því sænska og Óðinn Þór kom Íslandi í sex marka forystu með marki þegar um átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Óðinn Þór Ríkharðsson fagnar eins og óður maður.Vísir/Vilhelm

Íslenska liðið hélt forystunni það sem eftir lifði hálfleiks, þrátt fyrir að lokamínútan hafi verið einhver sú allra furðulegasta. Snorri Steinn tók leikhlé til að stilla upp í eina sókn, sem endaði með því að Bjarki Már fékk boltann inni á línu, en lét verja frá sér. Svíar keyrðu fram og klikkuðu á sinni sókn, áður en Haukur Þrastarson lét verja frá sér. Enn var nægur tími fyrir Svía til að keyra eitt hraðaupphlaup, en Viktor Gísli kom íslenska liðinu til bjargar og staðan því 18-12, Íslandi í vil, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Frábær fyrri hálfleikur að baki, sem verður kannski helst minnst fyrir innkomu Viggós Kristjánssonar, sem skoraði sjö mörk fyrir Ísland.

Viggó Kristjánsson kom vel inn í íslenska liðið.Vísir/Vilhelm

Svíarnir mættu betur gíraðir til leiks í seinni hálfleik og söxuðu jafnt og þétt á forystu íslenska liðsins. Sóknarleikur Íslands gekk ekki jafn vel og í fyrri hálfleik, en á sama tíma voru Svíar að finna leiðir að marki Íslands.

Þegar rétt rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn kominn niður í tvö mörk og Snorri Steinn tók leikhlé fyrir íslenska liðið.

Fyrsta sókn Íslands endaði með skoti í stöng og Svíar refsuðu með snöggu marki. Munurinn því kominn niður í eitt mark.

Íslenska liðið bognaði, en brotnaði ekki. Svíar náðu ekki að jafna metin og strákarnir okkar náðu aftur upp fjögurra marka forskoti.

Viggó Kristjánsson, sem var búinn að skora ellefu mörk úr ellefu skotum, þurfti að fara af velli eftir að hafa misstigið sig, en þá kom maður í manns stað og Ómar Ingi Magnússon hélt uppi heiðri hægri skyttunnar.

Ómar Ingi Magnússon, sem yfirleitt er meðal bestu handboltamönnum heims, var Robin, við hliðina á Viggó Kristjánssyni, sem var Batman.Vísir/Vilhelm

Þriggja marka forskot varð fjögurra marka forskot og þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum kom Ómar Ingi Íslandi sex mörkum yfir með gjörsamlega rugluðu skoti yfir hausinn á Andreas Palicka.

Bjarki Már kom Íslandi svo í sjö marka forystu þegar um þrjár og hálf mínúta var eftir og þá var björninn unninn.

Íslensku strákarnir fögnuðu að lokum sterkum, og ótrúlega mikilvægum átta marka sigri, 27-35. Sigurinn þýðir að Ísland, Svíþjóð og Slóvenía eru nú öll jöfn með fjögur stig í efstu þremur sætum milliriðils II og að möguleikar Íslands á sæti í undanúrslitum eru algjörlega í okkar höndum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira