Skoðun

Dóra Björt er ljúfur nagli

Eydís Sara Óskarsdóttir skrifar

Dóra Björt hefur á undanförnum árum aflað sér umtalsverðrar reynslu í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún var kjörin yngsti forseti borgarstjórnar í sögu borgarinnar og hefur síðan gegnt ábyrgðarmiklum hlutverkum, meðal annars sem formaður skipulagsráðs. Sú reynsla hefur veitt henni góða yfirsýn yfir stjórnsýslu borgarinnar og þau flóknu verkefni sem henni fylgja.

Dóra er búsett í Grafarvogi og hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að samsetning borgarstjórnar endurspegli fjölbreytileika borgarinnar í allri sinni margbreytni. Hún er móðir ungra barna og nýtir þjónustu borgarinnar í daglegu lífi, sem gerir það að verkum að hún hefur raunhæfa innsýn í hvernig kerfið virkar í framkvæmd, t.a.m í leikskóla-, samgöngu- og skipulagsmálum.

Áður en hún hóf störf í borgarstjórn bjó Dóra um árabil erlendis, einkum í Noregi. Þar kynntist hún öðruvísi nálgunum í borgarskipulagi og samfélagsuppbyggingu en tíðkast í Reykjavík, þar sem áhersla er lögð á mannvænt skipulag og fjölbreytta ferðamáta. Sú reynsla hefur mótað áherslur hennar í umræðunni um borgarþróun og sjálfbærar lausnir.

Hreinskilni og heiðarleiki eru með stærstu kostum Dóru og þegar hún vissi að hún ætti ekki lengur samleið með sínum gamla flokki vildi hún ganga hreint til verks, enda er hún í pólitík af ástríðu. Það skipti hana máli að vera á réttum stað og mér finnst það virðingarvert.

Í störfum sínum hefur hún jafnframt lagt ríka áherslu á að svara fyrir erfið mál sem komið hafa upp og axlað ábyrgð, einnig í þeim tilvikum þar sem hún sjálf kom ekki að upphaflegri vinnslu mála sem síðar vöktu gagnrýni. Hún tók meira að segja ábyrgð í máli Græna gímaldsins, jafnvel þó hún hafi verið í fæðingarorlofi þegar skipulag þess var tekið fyrir í skipulagsráði. Mörg hefðu reynt að komast undan því að svara en hún tók ábyrgð sína alvarlega sem formaður skipulagsráðs þegar málið kom upp þrátt fyrir að hún hafi ekki komið persónulega að skipulaginu.

Borgarhönnunarstefnan hefur verið eitt af stærstu baráttumálum Dóru sem hún, ásamt sínum samstarfsflokkum, leiddu til lykta í haust. Þar mun vera tryggt að farið verði eftir vissum gæðastöðlum í uppbyggingu og borgarþróun til að koma í veg fyrir að þau mistök sem gerð hafa verið heyri sögunni til.

Dóra gerir ríkar kröfur til sjálfrar sín og hefur tekið skýra afstöðu gegn hvers kyns undirlægjuhætti eða bittlingastarfsemi í stjórnmálum. Hún leggur áherslu á fagleg vinnubrögð, vandaðan undirbúning mála og skýra ábyrgð kjörinna fulltrúa. Hún er kjarkmikil og þorir að taka slaginn, gefur ekkert eftir, en gengst við mistökum og kann líka að biðjast afsökunar. Hún kynnir sér málin til hlítar og enginn kemur að tómum kofanum hjá henni. Hún tekur ábyrgð sína sem kjörinn fulltrúi mjög alvarlega og leggur sig alla fram. Hún er öflug, berst fyrir jöfnuði og er með hlýtt hjarta sem ekkert aumt má sjá.

Dóra Björt er ljúfur nagli.

Þess vegna ætla ég að kjósa hana ofarlega á lista Samfylkingarinnar þann 24. janúar næstkomandi.

Höfundur er stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×