Skoðun

Tölum Breið­holtið upp

Valný Óttarsdóttir skrifar

Breiðholtið er góður staður að vera á og þar er mjög góður jarðvegur til að alast upp á. Það hefur sýnt sig aftur og aftur.

Breiðholtið hefur alið af sér fullt af frábæru fólki, listamenn, framkvæmdastjóra stórfyrirtækja, íþróttafólk, pólitíkusa og margt fleira. Flest þeirra fóru í sína hverfisskóla, sem eru fimm talsins í Breiðholti og síðan í Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Þessir krakkar stóðu sig ekki verr en aðrir í háskólanámi eða á vinnumarkaði.

Fjölbrautarskólinn hefur hins vegar ekki fengið það lof sem hann á skilið og það fyrst og fremst vegna staðsetningarinnar. Skólinn hefur orðið fyrir sömu fordómum og hverfið sjálft sem og fólkið sem þar býr, þrátt fyrir öflugt starf og sterka nemendur.

Nú þurfum við að sýna hvað Breiðholtið hefur upp á að bjóða. Hverfin í Breiðholti eru ólík og hvert þeirra hefur sín sérkenni og styrkleika. Þau eiga öll skilið athygli og metnað.

Mjóddin og Hólagarður mega muna sinn fýfil fegurri og þurfa rækilega á upplyftingu að halda. Við þurfum að gera þessi svæði snyrtileg og þannig úr garði gerð að fólk annars staðar af höfuðborgarsvæðinu vilji heimsækja okkur í Breiðholtið. Mjóddin er í alfaraleið, þar er öflug heilbrigðisþjónusta, góðar verslanir og ein helsta samgöngumiðstöð Strætó þar sem leiðir liggja til allra átta. Það þarf hins vegar að gera Mjóddina þannig fólki líði vel með að koma þangað, vera og njóta.

Möguleikar Mjóddarinnar eru margir og möguleikar Hólagarðs eru margir. Það þarf bara metnað til að gera þessa staði myndarlega og þess vegna þarf fólk í borgarstjórn sem þekkir Breiðholtið, býr þar og ber hag hverfisins fyrir brjósti.

Við erum tvær sem búum í Breiðholti og bjóðum okkur fram í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík að þessu sinni. Við komum úr ólíkum áttum og með mismunandi áherslur en eigum það sameiginlegt að vilja berjast fyrir hverfið okkar og gera Breiðholtið að eftirsóttum stað til að búa á og heimsækja.

Fáum við umboð til munum við vinna vel saman að því markmiði.

Sjálf hef ég búið í Breiðholti alla mína æfi, ólst upp í Fellahverfi, fór í Fellaskóla og Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Börnin mín þrjú hafa alist upp í Seljahverfi og þar búum við enn. Breiðholtið er svo sannarlega mitt samfélag og mér þykir mjög vænt um það.

Ég heiti Valný og hinn Breiðholtsbúinn Sara ef þið viljið hafa áhrif á uppröðun hjá Samfylkingunni og kjósa á laugardaginn :)

Höfundur sækist eftir 4. til 6. sæti hjá Samfylkingunni í borginni.




Skoðun

Sjá meira


×